Sunday, December 30, 2007

Annáll 2007

Jæja jæja kæru vinir þá er þetta góða ár 2007 senn á enda. Ég ætla að gera upp árið. Sem hefur verið sérlega viðburðaríkt og skemmtilegt hjá mér, mikið partý og ég stóð við áramótaheitið um að drekka meira kampavín en ekki við að drekka minni bjór. Drakk bara meira af báðu. Og bætti vodka við.
Hmmm tökum þetta bara í tímaröð.
Árið byrjaði vel.

Janúar og febrúar voru hressir mánuðir. Mikið um djamm og læti. Vann mikið og afrekaði að sækja um í framhaldsnámi á erlendri grundu. Var dugleg að blogga og naut þess að hanga líka svolítið heima með kertaljós á Baldursgötunni. Plön um ferð til Karabíska hafsins tóku hamskiptum og urðu plön um ferð til Manchester og Kraká. Ég fór í matarboð og reyndi að vera sæt með klippingu.


Mars: Ákvað Las Vegas þema fyrir þrítugsafmælið og var orðin rosa spennt. Keypti mér tvö ný skópör í þessum góða mánuði. Og skellti mér svo yfir til Englands. Hitti Rögnu þar í Manchester og fór með henni og Jónínu á Dolly Parton tónleika. Fannst ég geta mætt dauðanum sátt eftir að hafa séð goðið. En nei nei dauðinn beið mín ekkert heldur stórskemmtileg ferð til Kraká í Póllandi. Djöfull er það skemmtileg borg. Góður bjór og góður vodki og mikið stuð.

Já og svo dansaði Dani (gæti líka hafa verið Hollendingur) nakinn á Sirkus á meðan ég og Hrólfur reyndum að drekkja sorgum okkar með bjórdrykkju á sunnudagskvöldi. Það var hressandi lífsreynsla.

Apríl: Besti mánuður ársins, öll ár. Þá á ég afmæli. Og hélt að þessu sinni upp á þrítugsafmælið með Las Vegas partý. Sjitt hvað var gaman. Og ég var svo ánægð með fólk. Allir svo hressir og skemmtilegir. Í Las Vegas dressum og sólgnir í bolluna og hnallþórurnar sem systur mínar og móðir bökuðu. Já mikið var gaman.

Komst seinna í mánuðinum að því að ég er ólétt og á að eiga núna í byrjun janúar. Eða ekki. Komst inn í skóla í Utrecht, Maastricht og tvo í Amsterdam. Já ég ætlaði mér til Hollands.


Í maí slakaði ég á. Slökkti aðeins á heilanum og horfði mikið á Friends. Góð vinkona mín bauð mér á San Fransisco ballettinn. Það var mannbætandi eins og einhver listagagnrýnandinn orðaði það. Kíkti líka aðeins í sauðburð. Það er alltaf mannbætandi. Maður reynir bara að forðast að hugsa um að maður étur litlu greyin nokkrum mánuðum seinna.

Í júni var mesta spennan yfir því að orkídeurnar mínar voru að byrja að blómstra aftur. Börnin mín. Ein þeirra stendur enn. Ég gekk líka Fimmvörðuhálsinn og tók nokkrar svona styttri göngur í sumarblíðunni. Glymur og Esjan.

Í júlí bloggaði ég ekkert og veit því ekkert hvað ég gerði. Minnir að ég hafi aðallega verið í Vesturbæjarlauginni og í Grafarvoginum. Ég þakki guði enn í bænum mínum fyrir þá ljúfu stund er ég sá Óla Stef spila körfubolta í lauginni, mamma mía! Já jú jú svo gekk ég Laugaveginn með systrum mínum. Það var frábært. Gott veður, ákaflega góður félagsskapur og rosa falleg leið. Jeminn eini langar að fara að plana gönguferð fyrir næsta sumar, Langisjór, Hornstrandir, Borgarfjörður eystri.

Í ágúst lét ég svo verða af því að flytja af landi brott. Er ekki búin að vera nema 5 ár á leiðinni. Endaði í Amsterdam. Ég var rosa hress með þessa ákvörðun.

Byrjaði á því að slaka á hjá Hrafnhildi í Utrect og svo skelltum við vinkonurnar okkur til Berlínar. Það var mikið gaman og ég var líka rosa hress með það.

Flutti í lok mánaðarins í herbergið mitt á Weesperstraat. Var nett sjokkeruð í upphafi. Ekkert nýtt og fínt eða gamalt og huggulegt eins og við eigum að venjast hér á skeri. Herbergið mitt lillafjólublátt og sturtan eins og í gettóinu. En ég er með eindæmum jákvæð kona og hóf strax handa við að koma mér vel fyrir. Nú er svo komið að ég er ofboðslega ánægð með húsakostinn. Finnst hressandi að hafa fjólubláann vegg og gettósturtan virkar vel. Ég er tvær mínútur að labba í skólann og þrjár í miðborgina. Búin að kaupa mér blóm og púða. Og svo hef ég svo fínt útsýni.


Í september byrjaði ég svo í skólanum, í rannsóknarmaster í félags og vinnusálfræði við University of Amsterdam. Og skólinn byrjaði sko bara alveg strax. Ég var í nettu stresskasti í upphafi. Rosa mikið að gera og ég ekki alveg sjor á eigin getu. Flestir sem eru í prógramminu með mér hafa verið stöðugt í skóla undanfarin ár. Margir búnir með aðra mastersgráðu og allir rosa klárir. En ég komst nú fljótlega að því að ég er bara ekkert mikið vitlausari en hinir og fell vel í hópinn.

Í október hélt brjálæðið áfam. Nóg að gera bæði í náminu og félagslífinu. Gaman gaman. Og ég hélt áfram að koma mér fyrir í herberginu mínu. Kynntist fullt af góðu fólki, Íslendingum og Hollendingum, Grikkjum, Þjóðverjum, einni stúlku frá Serbíu og annarri frá Indónesíu. Og svo eru það þessar frá Ungverjalandi og USA, þær eru spes. Æh það er svo gaman að kynnast fólki. Sannaði mig í náminu og vann þar að auki alla í keilu og pool. Maður var ekki að vinna með unglingum í öll þessi ár fyrir ekki neitt!


Í byrjun Nóvember komu systur mínar og foreldrar í heimsókn. Það var mikið gaman. Gott að hitta fólkið sitt. Svo hélt stuðið bara áfram og ég var umvafin góðu fólki.


Ég kláraði fyrstu tvo kúrsana með miklum ágætum. Var hæðst í öðrum þeirra (þetta er mitt blogg og ég má alveg grobba mig). Ákvað að gera mína eigin rannsókn um slúður á næstu önn. Jibbícola.

Og svo og svo kom desember. Viðburðaríkur mánuður. Fór til Antwerpen og verslaði jólagjafir. það var stuð. Lærði svo eins og mó fó. Tölfræði tölfræði tölfræði. Gerði ótal verkefni og tók mitt fyrsta próf við skólann. Held ég hafi klúðrað því. En andskotinn hafi það ég hlýt að ná því. Og svo kom maður bara heim. Beint í partý og svo í sveitina. Mikið um knús og kossa frá börnunum. Meira partý. Og svo koma áramót. Á morgun er síðasti dagur ársins sem ég hef nú farið yfir á hundavaði.

Ég vil nú nota tækifærið og þakka þeim sem hafa dröslast í gegnum þessa færslu alla kærlega fyrir allt á þessu ári sem er að líða. Þetta er búið að vera gott ár. Og ég hef átt margar góðar stundir með öllu mússí mússí fólkinu mínu. Takk fyrir allt, rokkið og rólið, súkkulaðið, bjórinn, matinn og vínið. Allan hláturinn, ferðalögin, kaffiþambið og hangsið. Þrítugsafmælin öll. Sundferðir, gönguferðir og sveitaferðir. Heimboð. Kommentin, mér þykir alltaf jafn vænt um þau.
Og svo er bara spurning hvort ég óska fólki góðs nýs árs líka eða bíð með það fram á nýársdag. Ég óska allavegana öllum góðra áramóta, megi stuðið vera með ykkur. Ást og friður.

Sunday, December 23, 2007

Ást og friður

Gleðileg jól gott fólk

Friday, December 21, 2007

Jólin eru að koma

Ég var eitthvað að kvarta yfir því í gær að vera ekki komin í jólafíling. Búin að húka heima yfir tölfræðinni síðustu daga. Tók svo prófið í gær. Smá jólafílingur að klára próf. Fór svo og fékk mér bjór og fór að versla. Verslaði of mikið. Á kredit. Veit ekki hvernig ég á að borga það til baka. Mikill jólafílingur. Ekta. Datt svo í það í gær. Það er jóla. Bað svo æðri máttarvöld um snjó í Amsterdam. Fólki fannst ekki líklegt að sú ósk mín mundi rætast. En þegar ég skreið fram úr í hádeginu og leit út um gluggann. Þá blasti þetta við mér.

Og nú hlusta ég á Wham syngja um síðustu jól á repeat. Á morgun flýg ég heim á leið. Og svo koma jólin.

Thursday, December 20, 2007

jackson 5

Æh það er eitthvað svo gott að vera svona frjáls í líkamanum sínum. Þó að ég hafi bætt á mig einhverjum tugum kílóa. Who cares, eins og við segjum hérna í útlöndum. A kilo or two or a ten, twenty even. I don't care. As long as i have my brains and sex drive. hmmmmm gekk ekki svo vel í tölfræðiprófinu í dag. Þannig að eins og staðan er núna þá treysti ég á kynhvötina 107%. ekki hef ég útlitið eða gáfurnar til að bakka hana upp!
Ég vona að allir séu í jóla stemmningu í the Rvk city því ekki hef ég fundið hina einu sönnu í hérna í Amserdam. nema kannski helst með þvi að hlusta á jackson 5

Wednesday, December 19, 2007

Jibbíjólacola

Ég er að koma heim


Æh ég hlakka svo til að knúsa börnin. Ef þau þekkja þá þessa gráhærðu feitlögnu kengbognu og vitru konu sem þá frænku sína sem eitt sinn var með glansandi hár, há og grönn og vissi ekki neitt.

Tuesday, December 18, 2007

Áhyggjur

Ég fæ öðru hvoru áhyggjur af því að fólk haldi að ég meini það sem ég segi. Það væri nú ekki gott.

Saturday, December 15, 2007

þetta hár þessi augu þessi líkami

Ég þakka þeim sem tóku þátt í vali á álitlegasta mannsefninu fyrir mig. Það olli mér þó vonbrigðum hversu fáir tóku þátt. Ég álykta sem svo að það séu bara fjórir sem stendur ekki á sama hverjum ég eyði restinni af lífi mínu með. Hrólfur, Jóhanna, Fanney og Ágústa þið eruð sannir vinir og mjög elskuleg öllsömul. Ég tók vissulega til vandlegrar umhugsunar það sem þið höfðuð um menn þessa að segja og var mjög ánægð með keppanda númer 7. Bros hans er mjög sjarmerandi, hann virkar mjög hress og höfuðbúnaðurinn er statement, hann er ekki hræddur við að taka sjénsa og vekja eftirtekt. Maðurinn í fangabúningnum er örugglega vænsta skinn. Ég verð þó að viðurkenna að ég hef komist að annarri niðurstöðu en þið. Ég hef valið þátttakanda númer 5. Þennan með síðu ljósu lokkana, ber að ofan með hálsmen. Ég stenst sjarma hans engan veginn. Svo exótískur og þó svo norrænn. Er ekki feiminn við að sýna hversu föngulegur hann er með því að fækka fötum. Hálsmenin eru plús. Og þetta seiðandi augnaráð, svolítið eins og hvolpur, eða lítill hræddur kínverskur strákur. Skeggrótin svo karlmannleg. Ef guð lofar tek ég hann með mér heim um jólin.

Friday, December 14, 2007

Wednesday, December 12, 2007

Match made in heaven

Það er brjálað að gera hjá mér í skólanum. Ég þarf að skila 40% verkefni í tölfræðinni á mánudaginn og kynna rannsóknarhugmynd fyrir bekknum. Á fimmtudaginn í næstu viku er svo lokapróf í tölfræðinni. Ég er búin að eyða deginum í vitleysu. The true match application á facebookinni er nýja hobbíið mitt, þvílík og önnur eins skemmtun. Hérna eru mínir menn.










Hvern líst ykkur best á fyrir mig?

Afmæli


Úbbs vantar einn

Pabbi töff

Pabbi minn og þríburarnir eiga afmæli í dag. Af því tilefni ætla ég að fá mér eitthvað bakkelsi með kaffinu mínu.

Tuesday, December 11, 2007

Yes yes yes I'll be home for christmassss


Áfram með sama þema


"Flott gott að heyra"

Monday, December 10, 2007

Heima

Ég verð heima eftir 12 daga. Heima í sveitinni eftir 13. Er heima í Amsterdam núna, að fara að sofa. Góða nótt.

Sunday, December 09, 2007

The Bonferroni correction


"Carlo Bonferroni before the celebrity of his correction led to drink, drugs and statistics groupies"


Jú jú ég eyði sunnudeginum líka við tölfræðilestur sem er bærilegt þegar maður getur rölt út og keypt sér oliebollen og mandarínur. Og þegar höfundur tölfræðibókarinnar er svona mikill spaugari.

Saturday, December 08, 2007

Tölfræði, Jens Lekman og oliebollen

Ég er sorgleg kona, sorgleg. Sit ein heima á laugardagskvöldi og les tölfræði. Hlusta á Jens Ekman og hugsa um að fá mér oliebollen á morgun. Jens er krúttlegur sænskur söngvari sem er í uppáhaldi þessa dagana. Í myndbandinu flýgur hann um suðurlandið og syngur. Oliebollen er hollenskt jólagóðgæti ættað frá djöflinum sjálfum. Djúpsteiktar deigbollur með flórsykri. Einhversstaðar á milli ástarpungs og amerísks kleinuhrings. Óþolandi gómsætt. Ég gúffaði tveimur í mig í dag. Einni á leiðinni heim af markaðnum og annari með góðum espresso yfir tölfræðinni. Já svona er lífið spennandi í stórborginni þessa helgina.


Thursday, December 06, 2007

Södd og sæl prinsipesa nei súkkulaðihæna



Við Hrafnhildur slógum öllu upp í kæruleysi í gær og fórum í bjór og súkkulaði leiðangur til Antverpen. Ég vaknaði fyrir allar aldir, huldi þrýstinn líkamann með svörtum alklæðnað og púðraði nett nefið, setti svartan lit á þétt augnhárin, smá hárlakk í kastaníubrúnt hárið og toppaði verknaðinn með litlausu glossi á rósrauðar varirnar. Voða elegant. Strunsaði svo á brautarstöðina þar sem ég hef ekki enn komið því í verk að gera við dekkið á hjólinu mínu. Strax úfin og sveitt þegar ég hitti Hrafnhildi á sporinu. Gúffaði í mig samloku og svolgraði í mig þunnu kaffi í plastmáli í lestinni. Elegansinn sem ég hafði svo mikið fyrir strax fokinn út í veður og vind. Eftir tveggja tíma lestarferðalag vorum við komnar til útlanda.
Ég var mjög fegin að hafa hætt við að vera í stuttbuxum eins og túrista er siður þar sem það var ekki sól og hiti en Hrafnhildur var nú með derhúfuna og kortið á lofti og ég með mydavélina hangandi framan á framsettum kviðnum. Við versluðum slatta af jólagjöfum og ég verslaði mér eitt nærfatasett á sjálfa mig. Svo stikuðum við um borgina þvera og endilanga og skoðuðum það markverðasta, kastalann og ráðhúsið og kirkjuna og torgin og þið vitið svona þetta helsta. Falleg borg og fín. Það kom á óvart hvað ég fann fyrir því að Belgía er annað land en Holland. Bjóst eiginlega við að það væri eins nema bara betri bjór og súkkulaði. En þar er allt afslappaðra, húsin eru öðruvísi og það er allt svolítið skítugra (Antverpen er víst ein mest mengaða borg Evrópu) og eldra. Fannst jafnvel eins og það svifi örlítill austur-Evrópu fílingur yfir vötnum. Sem í mínum huga er hið besta mál. Eitt nei reyndar þrennt verð ég að segja er einstakt við Belgíu. Bjórinn, frönsku kartöflurnar og súkkulaðið, ó guð minn góður súkkulaðið. Við borðuðum mikið af frönskum kartöflum með mæjónesu, aaagghhh, drukkum ófá glös af belgískum eðalbjór uuuhmmm og splæstum á okkur nokkrum súkkulaði molum, aaaaaaahhh himneskt. Náðum svo að gúffa í okkur vöfflu með heitu súkkulaði áður en við hlömmuðum okkur í síðustu lest aftur til baka til Amsterdam.
Og þá og já þá fyrst hefst það sem ég segja vildi um þetta ferðalag. Veskinu var stolið af Hrafnhildi á lestarstöðinni. Algjörlega óþolandi og ömurlegt. Eeeen! Það var löggumaður í lestinni sem Hrafnhildur var svo sniðug að stoppa og ræða þetta grafalvarlega mál við. Og þvílíikur löggumaður. Þvílíkar herðar og brjóstkassi, þvílíkir leggir og þvílíkur afturendi. Við Hrafnhildur héldum þarna á tímapunkti að við værum fyrir tóma tilviljun lentar í erótískri mynd fyrir konur. Bjuggumst við píparanum í smekkbuxunum og sjóliðanum þá og þegar. En nei nei ekkert dónalegt gerðist en hann (rassinn) var hin besta sárabót eftir bömmerinn með veskið.
Í dag ætlaði ég svo að byrja í megrun eftir ofát gærdagsins og fyrir ofát jólanna. Þau plön fóru fyrir lítið þegar hollensk stúlka bauð mér í ekta hollenskan kvöldverð. Wurst og margar gerðir af kartöflustöppum og tvær tegundir af undarlegum eftirréttum. Þetta var bara alveg ótrúelga ljúffengt hjá henni. Hver hefði giskað á að wurst með kartöflustöppu, spínati, beikoni og eplamauki gæti bragðast svona vel. Hmmm ekki ég.
Bendi áhugasömum á myndir á facebookinni.
Já og elsku bestu ljúflingar, gerið mér nú greiða og skiljið eftir komment. Mér þykir svoo vænt um að fá komment.

Sunday, December 02, 2007

Góð sunnudags melankólía í rigningunni


Góðan og blessaðan sunnudaginn. Ég er búin að eiga góða helgi. Afslöppun á föstudagskvöldið. Las smásögur Anton Tsjekhov. Afar skemmtileg lesning. Í gær hitti ég 4 íslenskar stúlkur á markaðnum. Við drukkum kakó og ég keypti mér örborð. Svo fór ég í ostafondú til þýskrar skólasystur minnar. Það var nokkuð merkilegt boð. Talsvert rætt um helförina, Ísrael og Palestínu. Svo fór ég og hitti aðra skólafélaga á grísku menningarkvöldi. Sat þar að drykkju fram á morgun. Fékk svo far heim á bögglabera þar sem sprungið var á mínu hjóli. Í dag rignir mikið í Amsterdam og það virðist ekkert ætla að birta til. Og mér dettur ekki einu sinni í hug að fara út úr húsi. Þarf að lesa svolítið fyrir morgundaginn og þarf að fara að koma mér í það.
Vil benda fólki á nýjar slóðir sem ég hef verið að bæta hér inn. Fyrst ber að nefna The Sartorialist sem er götutískublogg, aðallega frá París og New York. Ég er mjög hrifin af því eftir að hafa fengið hálfgert ógeð á öllu LondonReykjavíkflippfólkinu hjá Facehunter. Svo var ég að uppgötva alveg frábært ferðablogg. Par sem verið hefur að ferðast um Butan en er nú komið til Indlands. Þau taka alveg ofboðslega fallegar myndir og það er áhugavert að lesa ferðasöguna. Svo bætti ég DD við sem er hressandi slúðurblogg. Að lokum vil ég benda fólki á Dr.Gunna, hann er klassík.

Thursday, November 29, 2007

Internship

Já já hróin mín það er mikið um kúreka hér og ég er rosa spennt yfir því! En ég er líka rosa spennt fyrir náminu. Á næstu önn á ég að gera það sem kallað er internship. Í þessum rannsóknarmaster er það falið í því að gera eða taka þátt í rannsókn með leiðbeinanda. Ég var að redda mér leiðbeinanda og er súperglöð yfir því. Og það besta er að hann virðist ekki síður glaður að "fá" að vera leiðbeinandinn minn. Ég gerði sem sagt research proposal í síðasta kúrsi sem ég var í og honum leist svona líka rosa vel á hugmyndina og vill ólmur að ég framkvæmi þessa rannókn. Gaman gaman. Það spillir auðvitað ekkert fyrir heldur að þessi gaur er mjög myndarlegur og jafngamall og ég! Ekki mín típa samt. Of strokinn og snyrtilegur. Já og hugmyndin er semsagt um slúður, orðstír og tjáningu tilfinninga.

Monday, November 26, 2007

Í skólanum er skemmtilegt

Dagurinn var tíðindalaus fram yfir hádegi. Tölfræðitími milli 11 og 13. Hádegisverður á nálægu kaffihúsi. Fékk mér klúbbsamloku og diet pepsí með sítrónu. Ræddi nýliðna helgi og plön komandi helgar við nokkra skólafélaga (aðallega Þjóðverja, Þjóðverjar eru ágætisfólk verð ég að segja). Fór svo í tíma í social decision making milli 14.30 og 17. Á leiðinni í lyftuna mætti ég hunk of a man sem ég hef séð á vappi áður í skólanum. Held að hann sé kennari. Hann tjékkaði á mér. Ég er 100% viss (með 5% skekkjumörkum). Hann minnir mig á Stuart Staples. Úllala. Í lyftunni upp á 10 hæð var ég samferða fáránlega myndarlegum ungum manni. 1.92 mundi ég segja, með gott hár og í mjög flottum skóm. Tók sérstaklega eftir skónum þar sem ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að horfa annað en á gólfið! Var tilneydd til að halda í tímanum lítinn fyrirlestur. Hann gekk vel. Fannst kennarinn óvenju aðlaðandi. En samt ekki jafn sætur og gríski strákurinn sem er með mér í tíma. Er ekki frá því að ég sé pínu skotin í honum. Held samt að skotið sé frekar að dala en hitt. En sætur er hann. Fór eftir tímann á skrifstofuna til Ed. Ed er svo sætur og svo mikill gæi að ég roðna bara við að horfa á hann, hvað þá tala við hann. Allar stelpurnar eru skotnar í honum og hann á kærustu en mér er alveg sama. Hann er alveg jafn sætur fyrir því og daðrar grimmt. Fór því næst á kaffihús með þeim gríska og hinum úr tímanum. Ágætt. Fór svo aftur í skólann að prenta út lesefni vikunnar. Prentarinn var eitthvað að stríða mér. Ég vissi að ég þyrfti að bæta á pappír og grunaði að svo þyrfti ég bara að restarta jobbinu. En það var svo sætur gaur sem stóð þarna hjá að ég bara varð að biðja hann um aðstoð. Honum fannst ég sæt. Hann sagði það að sjálfsögðu ekki en ég veit það. Fór svo heim og borðaði indverskan mat sem ég eldaði í gær og drakk glas af rósavíni með. Sátt. Kúrekar, kúrekar, kúrekar.

Sunday, November 25, 2007

Rokk og fokkíng ról, prjónaskapur og te

Ég "skrapp" til Rotterdam á föstudaginn til að horfa á Heima og hlusta á Reykjavík! spila á íslenskri menningarhátíð. Þetta var ævintýraleg ferð og skemmtileg. Ég og grísk vinkona mín ákváðum að taka lestina um hádegið og eyða seinniparti dagsins í Rotterdam. Skoða háhýsi og hafnarsvæðið. Rotterdam var sprengd í tætlur í seinni heimstyrjöldinni og borgin er því ný og afar ólík Amsterdam. Glerhýsi og nýstárlegur arkitektúr einkenna hana. Lestarferðin varð að löng og leiðinleg. Einhverjar ansdkotans tafir í gangi og lestin stopp í Haag í ég veit ekki hvað langan tíma. Og allir vildu taka þessa lest þannig að hún var troðin af fólki. Ekki hægt að komast á salernið einu sinni. En ég er heimsvön kona og við öllu búin. Hef lagt það í vana minn að vera alltaf með bleiju á ferðalögum. Mjög sniðugt. Þá getur maður bara pissað í búxurnar án þess að hugsa sig um. Mæli með þessu. Kannski ég ætti að sækja um einkaleyfi á svona traveldiapers. Það verður örugglega brjálæðislega vinsælt. Þarfaþing fyrir ferðalanginn.
Já en ég og gríska vinkonan sem sagt komumst loks til Rotterdam og rokkuðum mikið þar. Byrjuðum á frozen margaritas og mexíkóskum mat og enduðum í ruglinu í brennivíni. Afar hressandi. Nei nei það var nú svo sem ekki mikið rugl á okkur en ég náði þó að koma niður tveimur brennivínsstaupum sem mér þykir nú bara ansi góður árangur.
Fyrir utan bjór og brennivínsdrykkju er ég svo bara svona eitthað að dúlla mér. Drekka te og lesa og kveikja á kertum og kaupa blóm og svona. Er frekar löt við lærdóminn þessa dagana. Bæði ég og námið er afslappaðra núna en á fyrri önninni. En ég les þó mitt og skila verkefnum. En hugsa ekki mikið. Svo er mikið framundan í félagslífinu. Sífellt verið að drekka bjór saman og endalaust af spennandi tónleikum og svo er ég að fara í lasertag og til Antverpen og á grískt menningarkvöld og í matarboð. Þannig að ég hef varla tíma fyrir prjónaskapinn. En ég verð þó að vera dugleg að sinna náminu líka í desmeber því þá er próf og ég þarf að skila rannsóknarhugmynd og flytja fyrirlestur. Nóg að gera þangað til ég kem heim þann 22. Beint í kampavínspartý á Klapparstígnum. Jeih!

Rokk og fokkíng ról

Wednesday, November 21, 2007

Svona gengur þetta hróin mín

Ég er að hlusta á Led Zeppelin. Djöfull er það gott stuð. Er að fara á barinn á eftir að hitta skólafélagana. Nenni því ekkert. Langar miklu frekar að vera heima með kerti og te að prjóna og lesa Gestaboð Babette. Ég er ekki 21 lengur. Það er alveg ljóst. En maður verður nú að standa sig, fara út, drekka bjór, vera hress. Djöfull.

Kaffi

kaffi

Monday, November 19, 2007

Í skólanum í dag

German girl: How old are you?
Gunnhildur: I'm 21
German girl: Ok, I'm 23
Gunnhildur: No, ha ha I'm 30
German girl: Ha ha ha ha! (eins og þetta væri virkilega sniðugt hjá mér) No seriously how old are you?
Indonesian girl: Dude, she is actually 30!
German girl: Seriously, no! no! How do you do that?!

Ég verð að viðurkenna að það eru blendnar tilfinningar sem fylgja því þegar fólk heldur að ég sé mun yngri en ég er. Ég veit ég á að taka því sem hrósi, voða ungleg, en hvað með alla lífsreynsluna og þroskann? Vil ég virkilega að fólk haldi að ég hafi bara lifað í 21 ár? Hvað er svona jákvætt við það? Já jú jú ég veit hvað þið eruð að hugsa "sjéns í 21 árs kúrekana líka". Jú jú það er kostur.

Sunday, November 18, 2007

Ho ho ho we say hey hey hey

Sinter Klaas kom í bæinn í dag með Svarta Pétur í hundraða tali. Sumir segja að Svarti Pétur sé þrællinn hans Sinter Klaas. Hvað um það, þeir gáfu mér piparkökur og eru hressir. Svo fór í ég á kaffihús og drakk besta cappucino sem ég hef hingað til fengið í Hollandi og borðaði tertu með. Góður dagur.


Við Hrafnhildur erum líka komnar í jólastuð.

Hrafnhildur í jólastuði


Ég í jólastuði


Garðar til Belgrad, ekki spurning

Friday, November 16, 2007

Thursday, November 15, 2007

Nantes - BEIRUT

Ég var að koma heim af Beirut tónleikunum. Frábær hljómsveit. Svo krúttleg og einlæg. En líka kraftmikil og fersk. Og ég er að sjálfsögðu skotin í söngavaranum, ungur og sætur. Pínu lasinn í kvöld (eins og ég) og drakk mikið viskí til að slá á verk í brjóstinu, töff. Mér er alveg sama þó hann sé bara 21.

Wednesday, November 14, 2007

Skólinn minn er líka huggulegur

Vinkona mín sem hóf nám við Kaupmannahafnarháskóla í haust sendi mér pistil um daginn og lýsti því hversu yndislegt væri að sækja tíma í skólanum. Byggingarnar væru gömul falleg hús með sjarmerandi görðum inn á milli þar sem gott væri að drekka kaffið sitt. Þar væri sko engin Odda stemmning. Í mínum skóla er Odda stemmningin algjör. Sálfræðibyggingin er steinsteypukubbur á tíu hæðum. Þar æða um ganga vel tilhafðar píur á fyrsta ári, lúðalegir táningsstrákar og prófessorar í t-shirts með sniðugum áletrunum eða snjáðum jakkafötum. Ég drekk kaffið mitt í dapurlegri kaffistofu eða bara tölvustofunni og kaupi mér stundum pizzusneið í mötuneytinu. En á laugardaginn gerðust undur og stórmerki. Skólinn fagnaði þá 100 ára afmæli sálfræðinnar við skólann. Að því tilefni var boðið til afmælisveislu. Og skólanum var á einni nóttu breytt úr þessum gráa steinsteypukubbi í klúbb. Maður gekk rauðan dregil inn í húsið og þar tók á móti manni kampavín og fínheit. Lesstofunni var umturnað í lounge, með pálmatrjám og bleikum pullum, í holinu niðri var dansgólf, í einum salnum spilaði hljómsveit, gólfin voru teppalögð og lýsingin var eins og í rauða hverfinu, húsgögnum skipt út, reykvél magnaði stemmninguna og matur og drykkur var í boði. Um gangana óð svo skemmtileg blanda af fólki á öllum aldri. Jafnvel nokkrir kúrekar líka. Og ég skemmti mér alveg frábærlega. Hló held ég stanslaust í 4 tíma og dansaði eins og brjálæðingur. Fór svo á barinn á móti skólanum og dróg loks nokkra félaga heim í höllina mína og hló fram á morgun.
Skólinn minn


Skólinn minn


Ég og félagar í höllinni þegar líða tók á morguninn (trúlega um fimm leitið).

Í dag er í mér einhver helvítis pest. Verð vonandi hressari á morgun því þá er ég að fara á tónleika með hljómsveitinni Beirut. Hlakkka til.

Tuesday, November 13, 2007

Martröð

Mig dreymdi í nótt að ég væri búin að fá mér lokka í báða nasavængina, tunguna og báðar geirvörturnar. Jessúss minn ég held ég hafi aldrei verið jafn fegin að vakna.

Wednesday, November 07, 2007

Austurstræti eða Amsterdam?

Æh stundum skil ég ekki af hverju ég er ekki að vinna í tískubúð eða skóbúð eða plötubúð eða jafnvel bókabúð eða videoleigu. Hef allavegana meiri áhuga á fötum, skóm, tónlist, skáldsögum og kvikmyndum en tölfræði. Finnst stundum eins og það sé meiri bölvun en blessun að geta lært. Maður þarf einhvernvegin að nota þennan heila eins mikið og hægt er. Verð að læra úr því ég hef örlítið vit í kollinum. En kannski væri ég bara að vinna í Mótor í Kringlunni eða í vínbúðinni í Austurstræti (hef líka mikinn áhuga á bjór) eða bókabúðinni í Mjódd. Hmmm nei þá kýs ég nú frekar Amsterdam. Mikið er hún yndisleg.

Tuesday, November 06, 2007

Gaman að þessu

Já fjölskylduheisóknin tók ákaflega fljótt af. Þau voru rétt nýkomin þegar þau þurftu að fljúga aftur á eyjuna blautu. En þetta voru góðir dagar. Mikið labbað um og skoðað, margir bjórar drukknir og mat torgað. Systur mínar versluðu svo þessi heljarinnar ósköp. Ég held ég geti alveg sagt að þær hafi misst sig í búðunum. Eins og sönnum Íslendingum í útlöndum sæmir. Ég er líka eins og sannur íslenskur háskólanemi í útlöndum núna, treð í mig harðfisk og kúlusúkki sem fjölskyldan kom með handa mér. Já það var hressandi að fá þau í heimsókn.
Núna á ég að vera byrjuð að einbeita mér aftur að náminu. Það gengur ekkert allt of vel. Ég er voðalega afslöppuð yfir þessu. Sem ég held að sé bara alveg ágætt. Nenni nú ekki að vera í stöðugu stresskasti. Ég ætti samt eiginlega að vera í stresskasti yfir tölfræði áfanganum sem ég er í. Frekar svona erfitt að vera aftur farin að glíma við algebru kjaftæði. Aldrei verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Mér líst ákaflega vel á hinn kúrsinn sem ég er í, Social decision making. Kennarinn er ekkert svo sætur en nokkuð hress týpa og svo er nemendahópurinn svo skemmtilega samsettur. Auk Íslendingsins eru í hópnum þýsk, portúgölsk, indónesísk, bandarísk, hollensk og grísk stelpa. Svo eru í hópnum einn franskur strákur og annar grískur. Og svo eru ekki allir með sálfræði bakgrunn sem gerir þetta enn fjölbreyttara. Ákaflega alþjóðlegur og fjölbreyttur hópur.
Já það er gaman að þessu.

Sunday, November 04, 2007

Wednesday, October 31, 2007

Fjölskyldan kemur á morgun. Ííííhaa!

Sunday, October 28, 2007

Spes


Var ég búin að segja frá því að hér heima nota allir sinn eiginn salernispappír. Tvær af sambýliskonunum geyma rúlluna sína ekki einu sinni á salerninu heldur inni á herbergi hjá sér. Spes.

Saturday, October 27, 2007

Halló eða ekki halló?

Nei ég tek það aftur að Hollendingar séu hallærislegir. Þeir eru ekkert svo hallærislegir. Bara ofurvenjulegir. Meirihlutinn vill greinilega ekki taka sjénsa og heldur sig bara við útvíðu buxurnar. En inn á milli eru mjög svalar týpur. Hér er víst til máltæki sem segir að ef þú ert venjulegur þá vekurðu þá þegar of mikla athygli (eitthvað í þá áttina). Fólk segir að þetta sé einkennandi fyrir Hollendinga sem eru víst hógværir mjög. Fólk er til dæmis endalaust hissa á því hvernig í ósköpunum mér datt í hug að koma til Hollands í nám. Og þegar ég spyr fólk á móti hvers vegna það sé svona hissa á því að fólk velji Holland þá verður fátt um svör. "Við erum svo fámenn þjóð í litlu landi, því skildi fólk velja Holland?". Ég held að hollenska og íslenska þjóðin gætu lært talsvert hvor af annarri.

Friday, October 26, 2007

Keila

Ég skilaði síðustu verkefnum þessa hluta annarinnar kl. 16.20 í dag. Hljóp síðan út í skóla til að prenta út lesefnið fyrir kúrs sem byrjar á mánudaginn. Ekki nema tæp símaskrá sem ég þarf að lesa fyrir mánudag. Það er ekki í lagi með þetta fólk. Þetta átti að vera fríhelgin. Ég var búin að hlakka til þessarar helgar síðan í byrjun september. En ég er víst hérna fyrir þetta. Lesa og lesa. Átti nú ákaflega góðan dag með samnemendum mínum á miðvikudaginn. Sýndi heldur betur hvað í mér býr. Rústaði öllum í keilu. Öllum já öllum, líka sjálfumglaða kennaranum. Hah! Dansaði svo upp á borðum á barnum á eftir. Gaman.
Ég og þýski strákurinn erum búin að ná nokkuð vel saman. Hann er sætur og skemmtilegur. Hefur sýnt mér óvenju mikinn áhuga. Og ég að fíla hann. Komst að því á miðvikudaginn að hann er að sjálfsögðu samkynhneigður. Það bara hlaut að vera. Hinir strákarnir í hópnum eru allir í útvíðum buxum með millisítt hár. Ja nema auðvitað íslenski pilturinn, hann er að sjálfsögðu í niðurmjóum gallabuxum og með típugleraugu. Ég er stolt af honum. Stelpurnar eru allar frekar lummó líka. Nja samt ekki. Aðallega bara hollensku stelpurnar. Hollendingar eru ekkert svo smart. En þeir bæta upp fyrir það með hæð og húmor.

Tuesday, October 23, 2007

Mig dreymir

Ég get svo svarið fyrir það að ég ætla að láta það verða mitt fyrsta verk þegar á klakann er komið í jólafrí að fara í Vesturbæjarlaugina og synda þúsund metra. Fara svo í gufuna og pottinn. Himnaríki. Ef Óli Stef, Björn Hlynur eða Gael Garcia Bernal verða í pottinum á sama tíma þá bið ég Guð almáttugan ekki um fleira í þessu lífi.

Monday, October 22, 2007

Af undarlegum kenndum hvildardagsins

Á sunnudagskvöldum geta gripið mann undarlegar kenndir. Eirðarleysi hvíldardagsins á það til að kveikja hjá mér þrá. Þrá eftir kossum og kertaljósum. Þrá eftir videoglápi í faðmlögum. Í gærkvöldi kviknaði hjá mér slík þrá. Þar sem ég sat og reyndi eftir fremsta megni að einbeita mér að því að skrifa umræðu um ímyndaða rannsókn mína. Óh svo erfitt að einbeita sér þegar mann langar bara miklu frekar að vera í sleik. Ég ákvað því að senda sms. Ungum manni heima á Íslandinu góða. Notaði sköpunargáfuna í að semja helvíti sniðugt sms og demdi því yfir hafið. Hann svaraði ekki. Hefur trúlega verið í faðmlögum og sleik við hösl helgarinnar. Og ég ein í Amsterdam, hokin að reyna að hugsa um social constraint processes í tengslum við tilfinningatjáningu valdamikils fólks. Úff. Hugsaði um að fara út og brenna bíla með hinum innflytjendunum en ákvað þess í stað að snúa mér að helsta og traustasta vini mínum þessa dagana. Facebook. Tók þar próf: What kind of guy will you fall for og þetta var niðurstaðan:
You would fall part for the bad boy. Get a good lawyer, because you will fall for someone from the wrong side of the tracks with charm, looks, and all the moves down pat. Look for your future guy in bars, clubs, and on the dancefloor--he's the shirtless one with the tattoos.
You would fall part for the geek. If you're looking for love, consider spending a little more time studying up in the library. To you, there's nothing more attractive than intelligence, shyness, and kindness; your future love may have four eyes and zero social skills, but he'll make up for it in brains and heart.
Aha! Bókasafnið og barinn hljómar nú ekki svo illa. Nema hvað ég er alveg búin að sjá þetta út. Það eru mín örlög að falla fyrir nördum. Ekki spurning. Mjólkurhvítir hæfileikaríkir nördar með skakkar tennur og gleraugu eru tótallí mæ þíng. Nema hvað mínir nördar eru án undantekningar líka the bad boy. Sjálfselsk nördahönk í krísu. Undantekningarlaust með sjálfan sig í fyrsta sæti og kærusturnar (í fleirtölu) í öðru og þriðja. Undir snjáða flauelsjakkanum leynist alltaf vondur gæi með skrímslatattú á sálinni.
Æhj aumingja ég. Þvílík örlög.

Friday, October 19, 2007

Hvað er ég eiginlega að gera hér?


Bara svona svo þið gleymið ekki greyin mín hvernig ég lít út. Á bakvið mig má sjá lillafjólubláa vegginn minn fræga.
Ég er bara hress.
Einhverjir hafa verið að spyrjast fyrir um hvað það sé eiginlega sem ég er að gera hér í úglöndum. Hvernig þessu námi mínu sé háttað. Ég ætla því að lýsa því hér stuttlega. Ég er sem sagt í 2ja ára rannsóknarmaster í University of Amsterdam. Þetta nám er ætlað fyrir framúrskarandi (ég bara varð að koma þessu að!) nemendur með mikinn metnað og áhuga á rannsóknum. Núna í haust byrjuðu 35 nemendur í þessu námi. Þar af um 10 erlendir nemar. Allt er kennt á ensku. Ég valdi mér að taka social psychology sem major fag og work and organisational psychology sem minor fag. Það þýðir að ég vel mér flesta kúrsa í social og einhverja í work and organisational. SKólaárinu er skipt upp í tvær annir og hverri önn er skipt í þrjá hluta. Fyrir áramót tek ég 2 fög í hverjum hluta. Eftir áramót tek ég svo einhverja kúrsa en hef svo vinnu við internship (eigin rannsókn eða aðstoð við rannsókn hjá einhverjum prófessor). Allir þurfa að taka nokkra skildukúrsa í aðferðafræði ýmiskonar: tölfræði, forritun og skrif fræðigreina svo dæmi séu tekin. Og svo velur maður sér kúrsa. Í hverjum valkúrsi eru 3-15 nemendur. Þeir fara flestir fram með vikulegum fundi þar sem lesefni vikunnar er tekið fyrir og rætt. Í sumum kúrsunum eru vikuleg verkefni, öðrum vikulegir fyrirlestrar, lokaverkefni og einstaka hafa lokapróf. Í valkúrsinum sem ég er í núna, Advanced topics in affect and emotion research hef ég þurft að lesa 4 fræðigreinar (oftast nýjar rannsóknir á sviðinu) að meðatali á viku og skila verkefni úr lesefninu á mánudagsmorgnum. Þessi verkefni hafa oftast verið eins og erfiðar prófspurningar og gilda til einkunnar og mér hefur því oftast liðið eins og í prófi á sunnudagskvöldum. Mikið mikið þurft að hugsa. Lokaverkefnið í þessum kúrsi er svo útfærsla á eigin rannsókn. Núna í næstu viku er þessum hluta annarinnar að ljúka og í þar næstu viku taka nýjir kúrsar við. Þá tek ég valkúrs sem heitir Social decision making. Þann kúrs kennir maður að nafni Carsten De Dreu. Sá er frekar mikið hot shot í vinnusálfræði og ég hef oft rekist á hans nafn í kennslubókum í félagssálfræði í gegnum tíðina. Hann er samt víst bara um fertugt og myndarlegur og afar góður með sig og óvæginn við nemendur sína. Það verður athyglisvert að kynnast honum. Já og sem sagt eftir áramót þá á ég annaðhvort að gera mína eigin rannsókn eða taka þátt í rannsókn hjá einhverjum öðrum. Á seinni árinu mínu geri ég mína eigin rannsókn eftir áramót. Og er markmiðið að fá þá rannsókn birta í sálfræðiriti. Jamm og já. Áhugavert?
Ég hef nú alveg velt því fyrir mér hvursvegna í ósköpunum ég var að velja mér svona rembingsprógramm. Þar sem allt virðist ganga út á að sanna hvað þetta sé rosalega erfitt og gott nám. Prófessorarnir hafa gaman að því að segja að það sé næstum ógerlegt að klára þetta á þessum tveimur árum, kalla kúrsana gildrur og berjast við að hafa vinnuálagið sem mest.
Ég reyni að minna sjálfa mig á það á hverjum degi að ég er hér til að læra og njóta en ekki til að sanna mig og fá háar einkunnir. Ég á það samt til að detta í það að taka þetta allt aðeins of alvarlega og finnst mjög erfitt að láta stöðugt gangrýna verk mín. Lélegar einkunnir leggjast á sálina á mér! En ég er ekki ein í þessum pakka. Allir í kringum mig eru að kafna úr stressi og í sjokki yfir að fá ekki bara góðar einkunnir. Mér er nú samt bara búið að ganga alveg ágætlega og reyni eins og ég sagði að minna sjálfa mig á að ég er að þessu fyrir sjálfa mig. Og ég ætla að njóta Amsterdam meðan ég er hér. Annað kemur ekki til greina.
Og þar hafið þið það.
Góða helgi.

Wednesday, October 17, 2007

Ástin mun tæta okkur i sundur


Ian Curtis
Já ég var á myndinni.
Yndisleg melankólía.

Tuesday, October 16, 2007

Ég hlakka til

Ég hlakka til í næstu viku. Þá klárast kúrsarnir sem ég er í núna og allt útlit fyrir að fólk ætli að taka vel á því til að fagna. Nú þegar er búið að plana dinner og bátapartý á þriðjudaginn og bjórdrykkju og dinner á miðvikudaginn. Jeih og svo er það helgin, aftur jeih. Og svo hlakka ég brjálæðislega til þegar fjölskyldan kemur í heimsókn. Þá verður líka tekið á því. Og svo hlakka ég sjúklega mikið til jólanna! Ég held ég hafi ekki hlakkað svona mikið til jólanna síðan ég var átta ára og vissi að ég myndi fá flottustu barbídúkkuna úr Kaupfélaginu í jólagjöf frá mömmu og pabba. Og svo hlakka ég til að fara á tónleika. Var loksins að skoða hvað er í boði hér í borg og það er bara ansi margt spennandi. Ætla að drífa í að kaupa miða á eitthvað ofursvalt og hressandi! Held samt að Amr sé ekkert að spila á næstunni, djöh. Svei mér þá ef ég hlakka ekki bara líka til að byrja í nýjum kúrsum. Kennarinn í öðrum þeirra á víst að vera afar myndarlegur (og mjög vel þekktur vinnusálfræðingur en það er annað mál).
Ég er samt svekkt að komast ekki til Rómar í langa helgarfríinu mínu. Þar er hún Brynja að lesa heimsbókmenntir og borða pítsu og drekka limoncello eða eitthvað voða ítalskt. Það er of dýrt fyrir mig að fljúga. En ég sé hana Brynju mína um jólin, jeih. Þá ætlum við að drekka kampavín. Nú verð ég að láta mér Amsterdam, nýja vini og bjórinn nægja.
Ást

Sunday, October 14, 2007

Góðir dagar

Góð helgi að baki. Sól og blíða og stuð og stemmning í Amsterdam. Ég hjólaði eins og brjálæðingur lengst út í buskan í dag og drakk kaffi og bjór og borðaði bitterballen í sólinni með íslenska piltinum sem er með mér í náminu og unnustu hans. Mikð gaman. Í gær var ég í prinsessuleik með Hrafnhildi. Við fórum á sýninguna Barcelona 1900 í Van Gogh safninu, borðuðum tælenskan mat á fínum veitingastað og fórum svo í kvikmyndahús. Áhyggjulausar og afslappaðar í stórborginni. Á morgun þarf ég að vinna eins of mother fucker! Á að kynna rannsóknarhugmynd á þriðjudaginn. Og ég hef ekkert á blaði. Best að lesa aðeins fyrir háttin.

Hjólatúrinn


Rakst á þetta svín


Bjór og bitterballen