Friday, March 27, 2009

Síðasta blogg við Looiersgracht

Ég flyt á morgun. Ég hlakka til að búa á nýjum stað. Alltaf svolítið spennandi að flytja. Byrjun. En mikið svakalega er samt erfitt og streituvaldandi að flytja. Og mikið svakalega á ég mikið dót. Fjall af fötum og skóm. Nokkrar bækur og geisladiskar. Ég sanka að mér dóti þó ég eigi ekki neitt. Ég er allavegana það heppin að eiga engin húsgögn. Djöfulsins bömmer væri það. Ég myndi deyja núna strax ef ég vissi að ég þyrfti að bera sófa og heimilistæki upp á fjórðu hæð á morgun. Best að forðast það eins lengi og mögulegt er að eignast hluti. Ja nema auðvitað fleiri skó og skartgripi. Amen og hallelúja, ef guðirnir lofa mun ég eignast fleiri fleiri pör af fínum skóm það sem eftir lifir. Góða nótt, þarf að vakna snemma til að þrífa klósett.

Tuesday, March 24, 2009

Það er ekki gott að segja

Það var kannski eins gott að ég hafði ekki þegar tekið vorinu opnum örmum. Berað mig í sumarkjól með páskaliljur í hárinu því það gerði haglél í gær. Og það spáir rigningu út vikuna. Amsterdam ó fagra en blauta Amsterdam. En það snjóar allavegana ekki. Og hér er ég ekki talin stórskrítin þó ég fari allra minna ferða á hjóli. Noti stundum almennings samgöngur og labbi jafnvel í meira en tvær mínútur. Heima var ég stelpan á hjólinu. Skrítna konan sem tók rútu landshlutanna á milli. Fór í strætó með hinu þroskahefta fólkinu á verndaða vinnustaðinn minn hjá ríki eða borg. Ég tel það til lífsgæða að þurfa ekki að eiga bíl án þess að vera talin stórfurðuleg. Fá að vera bara eins og hinir á hjólinu mínu. Hjólgarminum mínum sem er ekki einu sinni með gíra. Ef það væri hjólamenning á Íslandi væru ekki bara hjól. Það væru fjallahjól og fansíhjól. Konuhjól og pæjuhjól. 3, 5, 7. 14 og 32 gíra. Fislétt keppnishjól. Fólk ætti hjól fyrir borgina og hjól fyrir sveitina. Á 21 tommu negldum dekkjum fyrir veturinn. Með hraðamæli og púlsmæli. Kannski flyt ég bara heim og fæ mér jaris eða jeppa. Hver veit.


Hjólastæði við Central station Amsterdam

Sunday, March 22, 2009

Ég verð stundum melankólísk á vorin

Ég er búin að vera á massívu bíómyndafyllerí undanfarið. Hef setið og legið og horft og horft. Enda búin að vera endalaust lasin og þunn. Stundum bæði í einu. Stundum bara löt og melankólísk. Vorið bíður fyrir utan og bankar á dyrnar en ég er ekki tilbúin að fara til dyra alveg strax. Enda ekkert svo hlýtt úti þó að sólin skíni. Þetta fer samt að koma. Kannski hættir að snjóa á skeri einhvertíman og ég verð tilbúin að taka á móti vorinu á meginladinu. Hlusti á fuglana, vorboðana ljúfu sem góla að ég sofi of mikið og vinni ekki hót. Sem er satt. En.
Ég horfði á The Straight Story í dag og Reservoir Dogs. Mikið hvað ég elska hann Steve Buscemi. Það er bara varla eðlilegt. Horfði á Blue Velvet í fyrsta skipti um daginn og Mystery Train. Mr. Buscemi leikur líka í Mystery Train. Góð mynd leikstýrt af Jim Jarmusch. Svo horfði ég á Vertigo Hitchcoks. Langar mikið að horfa á meiri Hitchcock. Svo horfði ég á Shanghai dreams fyrir smá Kína fíling. Og Crimes and Misdemeanors. Ég hafði aldrei séð hana áður og held svei mér þá að það séu fleiri Woody Allen myndir sem ég hef aldrei séð. Jess! Svo horfði ég á Godard myndirnar Vivre sa vie og A bout de souffle. Godard er voða smart. Sá The Wrestler í bíó um daginn og fannst hún góð. Næstum eins góð og Rocky.
En nú er ný vika byrjuð og ég ætla að vera dugleg að læra. Je je.

Wednesday, March 18, 2009

Whitney Houston et Serge Gainsbourg

Ég hef alveg örugglega póstað þetta áður. Þetta er bara of fyndið.

Friday, March 13, 2009

Hér og þar, nú, þá og þegar

Í fyrravetur strunsaði ég mér til heilsubótar og lífsfyllingar eftir Prinsengracht (kanall prinsins), Keizersgracht (kanall keisarans), Herengracht (kanall herrans) og Single (hmmmm). Dáðist að ótrúlega fallegum og krúttlegum húsunum. Mændi inn um glugga hjá fólki og lét mig dreyma um að búa í einu af þessu krúttlegu húsum einhverntíman. Heldur vonlítil þó, þar sem húsnæði er selt og leigt fyrir svimandi háar upphæðir á þessum slóðum. Ég sá það helst í stöðunni að ég yrði að eignast elliæran elskhuga sem ætti hús við kanal, giftast honum og bíða dauda hans. En draumurinn rættist án þess að til þess kæmi og ég hef búið við lítinn kanal sem heitir Looiersgracht í vetur. Looiersgracht er í hjarta Joordan, hliðargata frá Prinsengracht. Á frábærum stað til að gera langa sögu stutta. Fólk verður hálf kindarlegt þegar ég segi frá því hvar ég bý. Heldur kannski að ég sé milli eða rótgróin Amsterdambúi langt aftur í ættir. Erfingi Rembrandts. En nei nei ég er bara heppin og hef fengið að búa hér í vetur gegn sæmilega vægu gjaldi og pössun tveggja elliærra katta. En nú fer þessari dvöl minni við kanalinn brátt að ljúka. Ég flyt eftir tvær vikur. Og er bara svona ljómandi ánægð með það. Ég á eftir að sakna þessa hluta borgarinnar mikið en mér finnst líka svolítið eins og nú fyrst geti ég hafið alvöru líf hér í borg. Verð ekki lengur í lillafjólubláu stúdenta herbergi í gettóblokk eða kisumamma í dúkkuhúsi. Mér hefur stundum liðið eins og ég hafi fengið lánað líf hjá einhverjum öðrum í vetur. Konu sem á tvo ketti, garð, bækur og húsgögn hlaðin sögu og tilfinningum. Þetta hefur verið gott líf en nú er kominn tími á mitt eigið líf. Og það ætla ég að eignast í lítilli en bjartri og fínni íbúð í afar fjölmenningarlegu hverfi í austurhluta borgarinnar. Ég hjólaði þangað í vorveðrinu í dag og skrifaði undir leigusamning. Harpa sem hefur búið með mér undanfarið ætlar líka að vera þar fyrstu mánuðina. Og við ætlum að drekka kaffið okkar á litlum sólríkum svölum og fara í almenningsgarðinn Flevopark sem er í bakgarðinum okkar. Þar ætlum við að skokka, grilla og fara í sund. Ekki bara í sund heldur í sund í útisundlaug! Stórkostleg tilhugsun. Ég hef á tilfinningunni að þetta verði gott vor og sumar.
Hér eru nokkrar myndir sem ég stal af netinu.


Kort af Amsterdam. Ef klikkað er á myndina súmmast inn. Looiersgracht er rétt fyrir neðan neðra Joordan. Nýi staðurinn minn er því miður ekki inn á kortinu enda ekki alveg í miðbænum. En hann er svolítið austar en Artis og Oosterpark



Inngangurinn í Flevopark, 1948.



Brúin yfir Looiersgracht beint fyrir utan húsið mitt, þá.



Hornið á Prinsengracht og Looiersgracht, nú.



Looiersgracht, nú.



Looiersgracht, þá.

Thursday, March 12, 2009

Ég nenni ekki að blogga.

Monday, March 09, 2009

Leiðindi.

Stundum bara læt ég mér leiðast. Að því er virðist af mjög ásettu ráði. Ráfa um íbúðin. Kíki á sjónvarpið í tvær mínútur. Leiðinlegt. Les aðeins. Ekki eirð. Nenni alls ekki að læra. Of södd og slöpp til að fara í ræktina. Á leiðinni í bað í marga klukkutíma. Búin að horfa á dvd. Gæti farið út að labba. Bakað. Hringt í einhvern. Farið í bíó. En nei nei bara er og leiðist. Og leiðist. Best að láta renna í þetta bað og kíkja í bók. Ég flyt í baðkarslausa íbúð eftir 3 vikur. Best að reyna að nýta þennan munað í leiðindunum.

Sunday, March 08, 2009

Little Bit

Ég er að fíla Lykke Li. Fínt lag, fínt myndband.

Wednesday, March 04, 2009

Fjósið og barinn

Ég vesenaðist fram á miðjar nætur sem barn í heimavistarskóla. Þegar kom að háttatíma komst ég í essið mitt. Þá kjaftaði á mér hver tuska og ég reyndi eins og ég gat að halda vöku fyrir herbergisfélögunum. Ég talaði þær í svefn. Og hlustaði á kassettutækið mitt. Dótið sem eldri systur mínar voru að hlusta á. Dire Straits og Bruce Springsteen. Pink Floyd og Supertramp. Svo Bubbi minn. Bítlarnir og Elvis, Led Zeppelin, Doors og Janis Joplin. Svo kom glysrokkið Skid Row og Poison. Quireboys. Guns 'n' Roses. Metallica. Og svo síðasta árið yndin mín í Suede. Íþróttatýpurnar Hanna og Halldóra höfðu ágætis þolinmæði fyrir þessu næturbrölti mínu og óvenjulegum tónlistarsmekk. Sofnuðu bara. Og ég vakti. Þær ruku svo upp á morgnana. Oft áður en kennarinn náði að vekja okkur. Spenntar í kornfleksið og ævintýri dagsins. Oftast þurfti hins vegar að ítreka fyrir mér að kominn væri dagur. Mér var bara alveg sama. Kornfleks og hversdagsleg ævintýri frímínútna ekki nóg til að freysta mín úr hlýrri kojunni. Nema kannski ef vera skildi föstudagur. Þá var bærilegt að fara á fætur. Heima hjá mömmu beið eitthvað gott að gúffa í sig, nýbakaðar pönnukökur eða skúffukaka. Mjólk í lítravís með. Steiktar kótilettur, svikinn héri eða ofnbakaður fiskur. Mmmamma kann að gleðja stelpurnar sínar. Ef ég var heppin átti eftir að fara í Borgarnes þá vikuna. Í Kaupfélagið. Þar ráfaði ég um og skoðaði Barbídúkkur og Andrésblöð. Gerði mig stundum heimakomna í bókadeildinni. Fór úr úlpunni settist á gólfið og las. Mömmu til talsverðar armæðu. Oft keypti hún samt handa mér Andrésblað eða Æskuna. Seinna skipti ég Andrési út fyrir Bravo svo kom Vogue og The face. Barbídúkkurnar hurfu út fyrir föt og geisladiska. Ég hætti að vera búttuð stutthærð strákastelpa sem dreymdi um fjarlægar slóðir a la Andrés Önd, ætlaði að verða vörubílsstjóri eða flugmaður til að komast út í heiminn. Varð þess í stað dreymin hengilmæna sem langaði á sama tíma að verða módel, sjúklega klár feminísk framakona eða bara áhyggjulaus alvöru rokkari. Helst Axl Rose sjálfur. Svo hékk ég heima restina af helginni. Tróð í mig mat, las og hlustaði á tónlist. Fór af skyldurækni í fjósið en lét mig dreyma um ferðalög á fjarlægar slóðir meðan ég mjólkaði beljurnar og kenndi kálfunum að drekka úr fötu.
Það hefur lítið breyst. Nema kannski að ég er hætt að fara í fjósið og fer af skyldurækni á barinn í staðinn. Mjólka yfirdráttinn og kenni kálfunum að drekka. Og læt mig nú dreyma um að komast aftur heim í sveitina. Borða mömmumat og fara bara í fjósið. Um helgina ætla ég að hanga heima. Vaka fram á nótt. Sofa út. Lesa tímarit. Hlusta á tónlist sem enginn er líka að hlusta á. Gúffa í mig. Kannski ég baki pönnukökur eða steiki kótilettur. Maður kíkir eitthvað á barinn.

Monday, March 02, 2009

Rottukona

Ég þreif upp einn kattahlandspoll, tvær ælur og kattaskít af gólfinu í dag og er kannski barasta hætt að vera "cat person". En fjandinn hafi það ég fer ekki að vera "dog person". Kannski ég verði bara "rat person".