Tuesday, July 29, 2008

Nei ég geng ekki út ef ég held þessu áfram

Það er allt að gerast. Ég sit á næturvakt í vinnunni og er að gúffa í mig örbylgjupoppi. Ég er að hugsa um að fá mér aðra samloku með rækjusalati. Í dag fór ég í Vesturbæjarlaugina og synti þúsund. Átti að sjálfsögðu skilið þeyting úr gamla með jarðaberjum snikkers og bántí á eftir. Himneskt. Himneskt alveg hreint. Ég er næstum til í að hætta við að fara aftur til Amsterdam bara til að upplifa þetta reglulega. En hvað um það, í gær slysaðist ég á útsölumarkað í 17. Verslaði mér þar þrennar peysur, tvo boli og einar buxur á einu bretti. Allt á 80% afslætti. Maður er alltaf að spara og ég er svona líka gaasalega ánægð með kaupin. Nema hvað ég hef lengi haft það á stefnuskránni að fara að klæðast meira þröngu stuttu og flegnu. Ég gleymi því hinsvegar alltaf þegar ég fer að versla. Peysurnar og bolirnir voru semsagt úr herradeildinni, í XL. Buxurnar langt frá því að vera þröngar og kynþokkafullar. Og svo er ég að furða mig á því að ég gangi ekki út. Gangandi um í XL karlmannsfötum og gúffandi í mig hvítlauk í tíma og ótíma, hellandi í mig bjór. Ég lenti reyndar á nettum sjéns á laugardaginn. Þrátt fyrir að vera bara í jússu blússu og strigaskóm (já og í pilsi að neðan, ég er hætt að spranga um ber að neðan, hætti því þegar ég flutti af Baldursgötunni). En ég var með slaufu í hárinu og með bleikan varalit. Ungur og sætur kaffibarsdrengur bað sem sagt góðfúslega um leyfi til að reyna við mig. Ég veitti honum að sjálfsögðu leyfið. Ég beið átekta, dansaði og reyndi að vera sæt og kvenleg (þrátt fyrir jússu blússuna). Ekkert gerðist og ég fór á endanum bara heim. Sá það auðvitað eftir á að ég hefði auðvitað bara átt að reyna massíft við hann, skella í mig vískí og biðja hann um að koma í sleik. En ég er orðin svo ryðguð í þessum bransa. Þarf að fara að rifja upp gamla takta, hella aðeins betur í mig og vera hress. Ég ætla að vera hress um helgina. Spranga um Rauðasand og Látrabjarg í flís og gorítex. Eða bara á bikiníinu. Við sjáum til. Hlakka sjúklega til. Svo er það bara vinna vinna, vaka á nóttunni og sofa á daginn. Verð að fara að hitta á fólk. Styttist í að ég fari bara út aftur. Ef fólk hefur áhuga á að hitta mig má það fara að panta tíma. Það fer hver að verða síðastur.
Ást og kossar, mök, friður og fullnægja um verslunarmannahelgina, ykkar einlæg, bombe sexuelle.

Sunday, July 27, 2008


Heilinn minn er í sumarfríi. Ég hugsa bara um kúreka, mat, föt og fjallaferðir. Gott og ákaflega gaman.

Saturday, July 19, 2008

Dansaði á diskóbar frá sirka tólf til sjö, bara ef það væri svo gott!

Nei ég fór ekkert í sund í dag. En ég tók hinsvegar strætó úr Grafarvoginum í morgun og aftur íann í kvöld. Lá svo í svefnmóki í sólbaði á svölunum og hlustaði á Pál Óskar syngja um ástina með teknó takti því ástin er international úú jeeee. Já ég lifi æsispennandi lífi in da city. Stefni á sveitina eftir helgina. Langar að fara í göngutúr með mömmu minni, baka kanilsnúða, drekka mikið kaffi og hlusta á rás 1.

Friday, July 18, 2008

Jú jú synda

Í dag hjólaði ég í Laugardalinn og synti þar 1000. Það er gaman að synda í 50 metra lauginni.

Thursday, July 17, 2008

Sumarið er tíminn

Í gær fór ég í göngu og baðaði mig í heitum læk. Rauluðum Sigurrósar lög á leiðinni og hlupum um nakin. Það var mjög gaman. Í dag fór ég í Seltjarnarneslaugina og synti þúsund í saltvatni. Orðin rosa brún og massinn er allur að koma. Var svo í sakleysi mínu að labba í Bankastrætinu áðan þegar ég mætti Óla Stef með nýtt barn á handleggnum og konuna sér við hlið. Ég fékk sting í hjartað og tár í augun. Ég get bara ekki skilið af hverju ég er ekki konan hans. Annars er bara gott stuð á Íslandi. Ég er samt ansi hrædd um að sumarið líði án þess að ég komist nokkuð á almennilegt djamm, reyni blindfull við einhvern 23 ára rauðbirkinn kaffibarsstrák og drekki viskí í morgunsárið. Nei það gengur auðvitað ekki. Ég þarf að plana vinnulausa helgi í bænum.

Tuesday, July 15, 2008

Við erum ekki fullkomin, neehei!

Nei þessi leti gengur auðvitað ekki. Ég ætla að blogga þegar ég er í borginni. Fræða fróðleiksfúsa lesendur mína um hvað drífur á daga mína on the ice island. Ekki það að ég sé sérlega stolt af því að vera frá eyjunni góðu um þessar mundir. Mér finnst svolítið eins og fólk sé að missa vitið hér, tapa sér, fríka út. Byggja bara álver og olíuhreinsunarstöðvar svo að allir geti nú haldið áfram að keyra um á jeppum og kaupa hjólhýsi. Reka svarta fólkið bara úr landi því að ekki viljum við deila þessu stórkostlega skeri með því aumingjans fólki sem er tilbúið að húka hér í rokinu með okkur. Svo hakka bara allir í sig nammi og drekka kók, henda rusli um borg og bara út um allt, allt í drasli, unglingarnir kolruglaðir, svo er kvartað undan kreppu. Ég held í alvöru talað að við hefðum bara nokkuð gott af smá kreppu. Þurfum að komast aftur niður á jörðina. Drekka vatnið úr krananum og taka strætó. Grilla á kolagrilli og spyrja útlendingana hvernig þeim líki við Ísland. Ef einhver missir vinnuna er ég sannfærð um að það vantar allstaðar fólk í umönnunarstörf, á elliheimili, sambýli og leikskóla. Það ætti að skylda allt nýríka nú gjaldþrota pakkið til að vinna í ár á geðdeild. Ég er ekki að grínast.
En hvað um það, í dag fór ég í sund og synti áttahundruð, fór í gufuna og var lengi í sturtu. Við getum allavegana verið ánægð með vatnið okkar. Ég tel það vera einn helsta kost þessa lands. Það er svo mikið og gott og heitt vatn hérna. Kannski eitthvað sem maður áttar sig ekki almennilega á hvað er mikill lúxus fyrr en maður hefur búið í úglöndum.

Monday, July 14, 2008

leti

Ég er löt, nenni ekki að blogga. Er bara út í sveit, í sólbaði, í heyskap, drekk kaffi, borða kökur, knúsa börn, fer í sund, les á íslensku, ligg, er. Er í borginni núna. Nenni ekki að hugsa. Nenni ekki að reyna að vera sniðug. Nenni heldur ekki að vinna. Þarf samt að vinna. Andskotans peníngar sem maður þarf alltaf. Farin í sund.