Thursday, December 06, 2007

Södd og sæl prinsipesa nei súkkulaðihæna



Við Hrafnhildur slógum öllu upp í kæruleysi í gær og fórum í bjór og súkkulaði leiðangur til Antverpen. Ég vaknaði fyrir allar aldir, huldi þrýstinn líkamann með svörtum alklæðnað og púðraði nett nefið, setti svartan lit á þétt augnhárin, smá hárlakk í kastaníubrúnt hárið og toppaði verknaðinn með litlausu glossi á rósrauðar varirnar. Voða elegant. Strunsaði svo á brautarstöðina þar sem ég hef ekki enn komið því í verk að gera við dekkið á hjólinu mínu. Strax úfin og sveitt þegar ég hitti Hrafnhildi á sporinu. Gúffaði í mig samloku og svolgraði í mig þunnu kaffi í plastmáli í lestinni. Elegansinn sem ég hafði svo mikið fyrir strax fokinn út í veður og vind. Eftir tveggja tíma lestarferðalag vorum við komnar til útlanda.
Ég var mjög fegin að hafa hætt við að vera í stuttbuxum eins og túrista er siður þar sem það var ekki sól og hiti en Hrafnhildur var nú með derhúfuna og kortið á lofti og ég með mydavélina hangandi framan á framsettum kviðnum. Við versluðum slatta af jólagjöfum og ég verslaði mér eitt nærfatasett á sjálfa mig. Svo stikuðum við um borgina þvera og endilanga og skoðuðum það markverðasta, kastalann og ráðhúsið og kirkjuna og torgin og þið vitið svona þetta helsta. Falleg borg og fín. Það kom á óvart hvað ég fann fyrir því að Belgía er annað land en Holland. Bjóst eiginlega við að það væri eins nema bara betri bjór og súkkulaði. En þar er allt afslappaðra, húsin eru öðruvísi og það er allt svolítið skítugra (Antverpen er víst ein mest mengaða borg Evrópu) og eldra. Fannst jafnvel eins og það svifi örlítill austur-Evrópu fílingur yfir vötnum. Sem í mínum huga er hið besta mál. Eitt nei reyndar þrennt verð ég að segja er einstakt við Belgíu. Bjórinn, frönsku kartöflurnar og súkkulaðið, ó guð minn góður súkkulaðið. Við borðuðum mikið af frönskum kartöflum með mæjónesu, aaagghhh, drukkum ófá glös af belgískum eðalbjór uuuhmmm og splæstum á okkur nokkrum súkkulaði molum, aaaaaaahhh himneskt. Náðum svo að gúffa í okkur vöfflu með heitu súkkulaði áður en við hlömmuðum okkur í síðustu lest aftur til baka til Amsterdam.
Og þá og já þá fyrst hefst það sem ég segja vildi um þetta ferðalag. Veskinu var stolið af Hrafnhildi á lestarstöðinni. Algjörlega óþolandi og ömurlegt. Eeeen! Það var löggumaður í lestinni sem Hrafnhildur var svo sniðug að stoppa og ræða þetta grafalvarlega mál við. Og þvílíikur löggumaður. Þvílíkar herðar og brjóstkassi, þvílíkir leggir og þvílíkur afturendi. Við Hrafnhildur héldum þarna á tímapunkti að við værum fyrir tóma tilviljun lentar í erótískri mynd fyrir konur. Bjuggumst við píparanum í smekkbuxunum og sjóliðanum þá og þegar. En nei nei ekkert dónalegt gerðist en hann (rassinn) var hin besta sárabót eftir bömmerinn með veskið.
Í dag ætlaði ég svo að byrja í megrun eftir ofát gærdagsins og fyrir ofát jólanna. Þau plön fóru fyrir lítið þegar hollensk stúlka bauð mér í ekta hollenskan kvöldverð. Wurst og margar gerðir af kartöflustöppum og tvær tegundir af undarlegum eftirréttum. Þetta var bara alveg ótrúelga ljúffengt hjá henni. Hver hefði giskað á að wurst með kartöflustöppu, spínati, beikoni og eplamauki gæti bragðast svona vel. Hmmm ekki ég.
Bendi áhugasömum á myndir á facebookinni.
Já og elsku bestu ljúflingar, gerið mér nú greiða og skiljið eftir komment. Mér þykir svoo vænt um að fá komment.

9 comments:

Anonymous said...

Þú ert æði :)
Mig langar til Belgíu eftir þessa lýsingu...gott súkkulaði og góður bjór og sætir löggukallar...hver þarf meira?

Hrólfur S. said...

Mikið eru þetta góðar lýsingar. Minnir svei mér þá á stíl Ponge.

Anonymous said...

Mer finnst svo gaman ad thu buir i Hollandi, thvi tha ertu svo dugleg ad blogga!

Anonymous said...

ææææ... það er svo erfitt að hlægja þessa dagana, það rífur í saumana. en þetta er ótrúlega fyndið blogg hjá þér kæra systir

Anonymous said...

Guðdómlegt belgískt súkkulaði, helst handgert. Guð hvað er gaman hjá ykkur vinkonunum. Maður er nett öfundsjúkur.
Aumingja maðurinn sem var að gæða sér á Tuborg jólabjórnum(sem ég drakk í ómældu magni um helgina í Köben)og fékk pöddu upp í sig og önnur beið á botninum. Fór á Carlsberg safnið og er mjög fróð um framleiðsluferlið.Mjög gaman.
kveðja Áshildur

Anonymous said...

SLEF....þú hafðir mig nú alveg á súkkulaðilýsingunum en wow...sá svo fyrir mér mann í einkennisbúning.... og til varð ljóslifandi í huga mér súkkulaðihúðaður karlmaður í einkennisbúning...ahhhh dagdraumarnir verða ekki betri en þetta!!! Þú ert alltaf flottust sætust! Vona að ég fái að hitta þig eitthvað um jólin...knús&koss Gullan

Anonymous said...

Alltaf gaman að lesa lýsingarnar þínar en nú fórstu á virkilega gott flug. Það gera sennilega allar kartöflustöppurnar. En aumingja Hrafnhildur að tapa veskinu sínu. Eins gott að passa sig. Bestu kveðjur í tölfræðilesturinn. Sigrún

Hölt og hálfblind said...

Takk kærlega fyrir kommentin kæru konur og Hrólfur. Ég sé að þessi færsla hefur glatt ykkur og örvað!

Anonymous said...

Gunnhildur, þú ert á rangri hillu í lífinu, þú átt að verða rithöfundur!
Þú hefur svo ótrúlega skemmtilega frásagnargáfu :)
xx
Ágústa