Tuesday, September 30, 2008

Sykur, rjómi, smjör


Í dag borðaði ég poffertjes. Guðdómlegar hollenskar mínípönnukökur með flórsykri og smjöri. Í gær borðaði ég sykurhúðaðar rjómafylltar vantsdeigsbollur. Í fyrradag borðaði ég glassúrhúðaða kleinuhringi. Daginn þar á undan borðaði ég gómsætar smjördeigs eplaskífur.................

Monday, September 29, 2008

Opal

Ég gleymdi nördaskapnum um stund á föstudaginn. Þambaði rauðvín eftir prófið mitt sem gekk bara vel held ég vona ég. Bauð fólki heim í kósíheitin, þambaði meira rauðvín og bauð upp á dansiball með nýjasta nýju í íslensku tölvupoppi, FM Belfast og Motion boys, bauð upp á Opalvodka. Hann fór misvel í fólk. Hafði ekki svo mikil áhrif á mig, læknaði suma af kvefi, hálsbólgu, magaverk og hausverk, aðrir höndluðu mjöðinn ekki vel og voru pikkaðir upp af löggunni á heimleiðinni. Bannað að hjóla fullur í Hollandi og við því eru ströng viðurlög. Samt hjóla hér allir fullir. Alltaf allir að hjóla. Nema ég sem er enn ekki búin að kaupa mér nýtt hjól. Sárvantar hjól.
Annars er bara ágætis stuð og stemmning. Búið að vera sól og blíða og sýkin enn á sínum stað, bátarnir, blómin og hjólin auðvitað. Ekki rekist á neina asna undanfarið. En kettirnir eru enn jafn spes. Var næstum búin að skjóta þann stóra í morgun þegar hann gerði allt sem í hans valdi stóð til að vekja mig klukkan hálf sjö. Ja allt nema mjálma. Hvorugur þeirra kann að mjálma. Gera sig líklega til að mjálma eru með það á vörunum en svo pípir bara svona rétt í þeim. Sérstakt.
Þessir voru ekki í partýinu en virðast fíla Opal.

Wednesday, September 24, 2008

Asni, jóna og feitur köttur

Amsterdam er svo mikið krútt. Ég fór út að labba áðan og mætti manni með asna. Já já hann var bara svona að labba með hann eins og ekkert væri eðlilegra. Heyrð elskan ég er farin út að labba með asnan. Svo sá ég voða krúttlega búð með notað dót. Fyrir utan voru meðal annars mjög sætar hálsfestar á eina evru. Þegar ég fór inn til að borga fyrir þær þá kom í ljós að búllan var ekki bara búð heldur líka coffee shop. Eina hálsfesti og jónu takk. Á heimleiðinni ákvað ég að fá mér kaffi á barnum hinum megin við kanalinn minn. Í stólnum við hliðina á mér lá þessi líka feiti og fíni köttur. Flestir barir hér hafa kött í vinnu. Það virtist hafa verið nóg að gera hjá þessum. Nóg að éta.

Tuesday, September 23, 2008

What have they done to my Synthia

Kisa litla er svolítið vitlaus. Hún drekkur með því að dýfa loppunni í vatnið og sleikja svo loppuna. Kann ekki að drekka vatn venjulega. Hún kann heldur ekki að draga inn klærnar ef hún festir þær í teppinu. Og hún er alltaf að festa sig. Litla skinnið. Hún er svolítið sérstök. Stóri kisi sefur bara og borðar. Vill helst sofa í stólnum við hliðina á manni. Maður má samt ekki klappa honum. Hann vill bara vera í félagsskap annarra manna. Er ekki mikið fyrir snertingu. Sumt fólk er þannig líka.
Ég er að læra fyrir próf. Og svo bara lesa allt hitt og vinna í rannsókn. Drekk kaffi og borða kex. Í næstu viku ætla ég að gera margt annað en að læra.
Í morgun labbaði ég í skólann í stuttu pilsi. Ruslastrákunum og verkamönnunum fannst ég fín svona í pilsi og blikkuðu mig. En Hollendingar flauta ekki á stelpurnar. Nei nei þeir kalla hressir hhgrrrúújeh daaghrrh (goed dag). Ef þeir eru í yngi kantinum segja þeir hhgrrrúújeh daaghrrh mæn frá. Hressandi.

Saturday, September 20, 2008

Friday, September 19, 2008

Ooooooh

hjólinu mínu var stolið. Aftur. Öðru.

Tuesday, September 16, 2008

Áhættuatriði

Það gerist ekki margt mjög spennandi hjá mér þessa dagana. Lífið snýst um að læra, læra og læra meira. Ég tók þó þátt í áhættuatriði um helgina. Þannig var mál með vexti að á sunnudaginn var ákaflega gott veður, sól og blíða. Ég ákvað að nota tækifærið, líta upp frá lestri fræðigreina og koma mér fyrir úti í garði með bók til yndislestrar. Ég plantaði mér niður með kaffibolla, kexköku og íslenska spennusögu undir gríðarstóru kasatníuhnetutré sem príðir garðinn miðjann. Hóf lesturinn og sötraði kaffið. Fékk mér bita af ljúffengri lífrænni kexkökunni. Og þá búmm! og aftur búmm! búmm! búmm! Yfir mig rigndi kastaníuhnetum og það af miklum krafti. þær þurfa nefninlega mikinn sprengikrafti til að sprengja utan af sér hýðið þegar þær koma til jarðar. Og þeim virðist vera nett sama um á hverju þær lenda. Mér leist ekki á blikuna. Fannst eins og þetta gæti verið hálfgert drápstól. En ég ákvað að taka sjensinn. Taka áhættu í annars tilbreytingasnauðu lífi mínu. Sitja undir trénu og halda áfram að lesa. Ég slapp með skrekkinn, ég er hér enn, engin þeirra lenti á höfði mínu, stútfullu af bulli og vitleysu um félagssálfræði, huldu grásprengdu hári. Já maður verður víst að taka einhverja sjensa í þessu lífi, annars hefur maður ekkert að blogga um.

Saturday, September 13, 2008

Thursday, September 11, 2008

Soldið gaman að nördast

Ég sit núna og drekk myntute.
Er að hugsa um að kveikja á kertum.
Ætla að setja Chet Baker á fóninn eða kannski hlust á nýja Sigur Rósar diskinn.
Keypti mér 500 GB harðan disk í dag.
Sótti hjólið á Amstel station.
Önnur kisan ældi á gólfið þegar ég var að borða hádegismatinn.
Mig langaði í allt í ritfangaversluninni í gær. Keypti mér tréliti og skrifborðsmottu með mynd af jörðinni í pastellitunum.
Ég er soldið hrædd um að þetta blogg verði bara um tedrykkju, kisur og lestur sálfræðigreina í vetur.
Ég verð að muna eftir rokkinu. Drekka bjór og tjékka á strákunum. Skrifa það í minnisbókina mína.
Bæ ðe vei var að klára Minnisbók Sigurðar Pálssonar. Úrvalslesning þar á ferð.

Wednesday, September 10, 2008

Hverfið, garðurinn, Piepje og Kobus

Kvefpestin ætlar eitthvað að ílengjast hjá mér. Helvítið á henni. Ég hef að mestu haldið mig heima við síðan við fluttum. Og er enn jafn obbosslega hrifin af nýja heimilinu. Í dag rölti ég aðeins um hverfið og verð bara meira og meira hrifin. Hérna í næstu götu er bakarí, lífrænn slátrari, ostabúð, stórmarkaður, hárgreiðslustofa, dótabúð (fyrir börnin, ekki kynlífið), stórmarkaður með lífrænar vörur, sólbaðsstofa, antíkbúð, fataviðgerðir, koffíshop, kaffihús, búð með skrifstofu og myndlistarvörum, og æðislegt thai takeaway. Allt er þetta mátuleg blanda af gamaldsags og trendí. Ekki of mikið af fólki, mikið af gömlu fólki, börna að spila badminton við feður sína á götunum, trendí listaspírur á vappi. Æ lovv it. Litli krúttlegi garðurinn okkar er hálfgerð órækt en sjarmerandi órækt, með tómataplöntum, fíkjutré, rósarunnum og brómberjarunna. Úr garðinum okkar er svo gengið inn í stærri garð sem er sameiginlegur fólkinu sem á hús hér. Þar gnæfir yfir risastórt hnetutré og svo eru þar bekkir og fínerí. Æ lovv it. Kisurnar er kúl. Þær heita Piepje og Kobus. Kobus er svolítið eins og tígrisdýr. Röltir hér um íbúðina og skiptir sér lítið af okkur nýju íbúunum. Stór og bröndóttur. Elskar mat en ekki fólk. Piepje er lítil og ljúf. Líka bröndótt, en með hvíta blesu. Hún vill láta knúsa sig og kjassa. Liggur núna á rúminu mínu og malar. Fleiri fréttir hef ég ekki.

Tuesday, September 09, 2008

Flutt og kvefuð

Nú er ég loksins flutt í þessa blessuðu íbúð í Jordan hverfi í Amsterdam. Með tveimur köttum, garði og serbneskri nördavinkonu minni. Ég sef í stofunni. Hef hólfað mig þar af, nóg rými, stórir gluggar og almenn kósíheit. Við fluttum í gær. Leigðum bíl og fluttum báðar okkar hafurtask frá guðdómlega góðhjörtuðum vinum okkar í Utrecht sem hýstu draslið okkar í sumar. Allt hafurtask vinkonunnar fólst í tveimur töskum, litlum bakpoka og prentara. Mitt hafurtask fólst í heilu fjalli af töskum, kössum og pokum. Já allir þessir skór og prjónapeysur taka sitt pláss. Mér telst til að ég sé hér með 16 pör af skóm. Það er nú svo sem ekki neitt. Annars gerði ég næstum því út af við mig í þessum flutningum. Var búin að vera eitthvað lasin alla helgina. Viðbjóðsleg kvefpest og slappleiki. Ég ákvað nú að vera ekkert að fresta flutningum þrátt fyrir smá kvef. Tók bara verkjalyf og dreif mig í geimið. Ég var bókstaflega búin á því í gærkvöldi og tilkynnti mig veika í skólann í dag. En svo er þetta bara búið held ég, vona ég. Þarf að fara að spýta í lófana varðandi námið og svo þarf ég drífa mig að njóta þessa yndislega hverfis sem ég er flutt í, morandi af kúrekum, bjór og mat. Sest la ví mæ frend, sest la ví!

Saturday, September 06, 2008

Gunnhildibrandur Ari Timberlake

Jú ég byrjaði í skólanum á mánudaginn. Í fyrsta tíma er venjan að fólk kynni sig, segi til nafns og stuttlega frá bakgrunni sínum. Það er nú orðinn fastur liður að fólk fái lítið skemmtiatriði í þessum tíma. Það bíða sem sagt allir spenntir efitir að ég segi til nafns. Fólk horfir á mig með bros á vör og svo er beðið eftir viðbrögðum kennarans. Hann setur upp undarlegan svip, skellir létt upp úr og biður mig að endurtaka nafnið og stafa það loks. Allir hrista höfuðið og flissa mikið, þeir sem þekkja mig senda mér samúðarblik en þeir sem ekki þekkja mig horfa á mig eins og ég komi frá annari plánetu. Ef ég eignast einhverntíman son ætla ég vissulega að skíra hann Gunnhildibrand en ég er að hugsa um að gera honum greiða og skíra hann kannski Gunnhildibrand Ara eða jafnvel bara Gunnhildibrand Svein. Gunnhildibrandur Ari Petterson. Gunnhildibrandur Sveinn Timberlake. Gunnhildibrandur Benjamín Del Toro. Drengurinn getur þá kannski bara kallað sig Ara, Sven eða Ben í útlöndum. Þetta er svolítið þreytandi til lengdar.
Annars sit ég nú kvefuð heima hjá Hrafnhildi og horfi á eurovision dance festival. Stórkostlegt sjónvarpsefni og undarlegt að Ísland eigi þar ekki þátttakendur. Við sem erum næst best í handbolta í heimi. Það er sameignilegt þema með söngvakeppninni að rífa sig úr fötunum. Fíla það og einhvernvegin er það öllu eðlilegra í þessari keppni. Ég held að sjálfsögðu með Danmörku. Finnarnir voru líka góðir og frændur vorir og vinir Pólverjar sjarmerandi mjög. Hollendingar skilja bara engan veginn svona keppnir. Alltaf allt off og svolítið mikið glatað hjá þeim. En eins og einhver sagði gott silfur er jú gulli betra.
Á morgun þarf ég að læra helvíti mikið. Gaman að þessu.

Friday, September 05, 2008

Tuesday, September 02, 2008

Ekki fríkað út


Það var yndislegt í Normandy. Frakkland er svo fínt. Oui oui. Ég borðaði snigla, ostrur, osta, bökur og kökur. Drakk síder, mikið rauðvín og espresso með sykri. Ráfaði um Rúðuborg og sprangaði um ströndina undir stórkostlegum hvítum klettabjörgum. Týndi epli og perur í klausturgarði, sólaði mig í kirkjurústum.
Mánudagur og þriðjudagur hafa verið strembnir dagar fullir af streitu og örlitlum kvíða. Miðvikudagur verður líka erfiður og næstu dagar, vikur og mánuðir. Ég reyni eins og ég get að fríka ekki út. Ég flyt í íbúðina á mánudaginn. Ég hlakka til. Það verður notalegt að sitja þar og lesa og lesa, skrifa, klappa kisunum og drekka te. Ekkert stress. Nei nei.