Friday, October 30, 2009

Dagur 17 - spurt og svarað

Skóladagur. Ég er skólastelpa í stuttu pilsi í Hong Kong eða öllu heldur virðuleg rannsóknarkona í stuttu pilsi við einn virtasta háskóla heims. Það er búið að ganga frábærlega að fá þátttakendur, ég er búin að fá rúmlega 10 þátttakendur á dag þá sjö daga sem ég hef verið að. Í næstu viku tekur alvaran við þegar ég byrja á tölfræðinni og skýrslugerð. Takmarkið er að klára þetta í nóvember. Það ætti að vera vel gerlegt.
Ég er búin að fá mörg skemmtileg komment síðan ég byrjaði á þessari HK dagbók. Ég gleðst alltaf alveg hrikalega mikið þegar ég fæ komment og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka kærlega fyrir mig. Ég vil einnig nota þetta tækifæri til að svara nokkrum spurningum sem mér hafa borist.
SPURT OG SVARAÐ 1
Dísa systir spyr: Eru allar Gucci töskurnar ekta? Líka þessi sem amman með sex fingur á hægri hendi var með á öxlinni í rútunni? Nei trúlega eru nú fæstar Gucci töskurnar og fæstir CK bolirnir ekta. En maður sér samt ótrúlega mikið af fólki vera að versla í alvöru búðunum sem eru æði víða. Ég held að fólk hér og víðar í Asíu leggi mikið uppúr að eiga dýrustu og fínustu merkin, þó ekki sé nema kannski einn bol eða eina tösku. Vinkona mín frá Taiwan fræddi mig einu sinni um þetta. Hún var að spyrja mig hvaða merki væri vinsælast á Íslandi. Ég sagðist halda að það væri bara Diesel eða eitthvað svoleiðis. Henni fannst skrítið að það væri ekki Chanel eða Prada. Hún var í París að gera heila vísindarannsókn um þetta. Merkileg fræði þar.
Ása (Ása Björk eða?) spyr: Hvað ertu að rannsaka? Nú, það sem ég er að skoða er niðurlæging. Tilgátan er að fólk í Hong Kong finni til meiri niðurlægingar og meiri neikvæðra tilfinninga þegar hópurinn þeirra verður fyrir niðurlægingu en fólk í Hollandi. Hópurinn, merkir í minni rannsókn fjölskyldan eða þjóðin. Ég býst við þessu af því að fólk hér á að vera meira collectivistic en fólk í Hollandi. Þetta tengist því að fólki hér fyrir austan er meira umhugað um heiður hópsins á meðan fólki fyrir vestan er meira umhugað um eigin heiður. Það kemur í ljós á næstu vikum hvort eitthvað sé til í þessu.
Sigrún spyr: Ert ekki orðin sjúklega brún? Neei ég læt það nú vera. Ég hef ekki legið það marga klukkutíma í sólinni og hef þá verið þakin þykku lagi sólarvarnar í síðdeigissólinni. Enginn alvöru brúnkumetnaður í gangi þannig.
Sigrún spyr: Er ekki dýrt að vera þarna? Jú það er dýrt. Aðallega vegna af því að það eru svo miklar freistingar til að losa sig við penginga allsstaðar. Á hverju götuhorni er hægt að kaupa sér ferskan ávaxtasafa, vöfflur og fiskibollur, ískaffi, núðluhús og veitingastaðir. Fatabúðir og ekki minnast einu sinni á skóbúðirnar. Útivistarbúðir, bókabúðir, dvd búðir, blaðasalar, bakarí, markaðir. Gleraugnabúðir. Myndavélabúðir. Allt er þetta þó nokkuð ódýrara en í Amsterdam eða Reykjavík. Verð á húsnæði og áfengi er himinhátt. Matur og almenningssamgöngur eru á mjög góðu verði.
Sigrún spyr: Ertu búin að tala við einhvern í meira en 5 mínútur? Já já ég er allavegana búin að eiga í svona fimm samræðum. Aðstoðarkona leiðbeinandans er hress stúlka sem ég er búin að spjalla aðeins við. Ég þarf þó að fara að troða mér meira upp á hana. Hún er að plana gönguferð með mér og fleirum um næstu helgi. Ég er rosa spennt fyrir því.
Ég var búin að segja frá litla manninum á prammanum. Í sömu ferð spjallaði ég líka við hressa barstelpu á surfarabarnum. Ég sagðist vera að spá í að fara til Víetnam og hún mælti með því. Gaf mér góð ráð. Varðandi Víetnam þá er ég sjúklega spennt fyrir að fara þangað. Stefni á viku til tvær áður en ég held heim í Desember. Einhver memm?
Nú og svo hitti ég þrjá litla sæta gaura frá Filippseyjum á hostelinu. Þeir töluðu smá ensku og þeir buðu mér bjór sem ég þáði. Það var einn sá alversti bjór sem ég hef smakkað. Þeir voru hressir að horfa á einhver dansatriði á youtube. Þegar þeir sögðust vera hér til að taka þátt í keppni þá gerði ég ráð fyrir að þeir væru að taka þátt í so you think you can dance eða Asia's got talent og spurði þá hvort þeir væru mikið fyrir að dansa. Þeir sögðust nú dansa aðeins. Seinna kom í ljós að þeir voru hér í alþjóðlegri siglingakeppni sem þeir hvorki meira né minna en unnu. Mínir menn. Aðstoðarkona leiðbeiandans var að vinna á þessari sömu keppni og hitti þessa gaura líka, sömu helgina! Hong Kong er pínulítið pleis. Heimurinn er pínulítið pleis.
Nú og svo hitti ég auðvitað Peter. Ýkt hressan Kanadamann sem byrjaði að spjalla í lyftunni á hostelinu. Góð týpa með gullkeðju sem þambaði diet kók úr tveggja lítra brúsa á meðan við spjölluðum. Hann er Kínaáhugamaður sem hefur verið með annan fótinn á meginlandinu í þrjú ár að læra kínversku. Sagðist vera í Hong Kong í atvinnuviðtölum. Væri að leita sér að vinnu sem einhverskonar consultant í fjármálaheiminum. Gangi honum vel, ég myndi ekki ráða Peter kallinn. En hann gaf mér allavegana góð ráð varðandi símakaup og lét mig svo hafa símanúmerið sitt. Mitt fyrsta símanúmer í Hong Kong, júhú!
Fleira var það ekki í bili heillin.

7 comments:

Anonymous said...

Spennandi rannsókn!

Kv
Lára

Unknown said...

Samviskusöm að svara! Skemmtileg færsla. Gangi þér rosa vel með rannsóknina.

Unknown said...

Skemmtileg lesning, gaman að fylgjast með ;) Kveðja, Gerða

Anonymous said...

Ótrúlegt hvað þetta er lítill heimur, gaman af þessari frásögn og ég hlæ alltaf jafn mikið. Þú ert svo skemmtilegur penni (ég segi þetta ekki bara af því þú ert systir mín) Gagni þér vel að blanda geði og vandaðu valið á vinum. kv Áshildur

Anonymous said...

Jú, jú, Það var Ása Björk sem spurði um rannsóknina....ég er með rannsóknir á heilanum þessa dagana. Asía er engu lík, matur og menning sem bragð er að. Gangi þér vel í þessu öllu saman
Ása Björk

Hölt og hálfblind said...

Og hvad ert tu svo ad rannsaka Asa Bjork?

Anonymous said...

Upplifun kennara í HÍ á því að takast á við nýja kennsluhætti og nota upplýsingatækni í kennslu.... Eeeeendalaus viðtöl, lyklun og greining :-)
Ása Björk