Thursday, March 30, 2006

Myndir

Ég keypti mér myndavél um daginn. Hef svona aðallega verið að taka myndir af sjálfri mér....



...en líka af vinum og kunningjum




Monday, March 27, 2006

Ég átti góða helgi í sveitinni minni. Borðaði lambakjet, hnjónabandssælu og þambaði pepsímax, svaf, svaf og svaf, skoðiði tískublöð og horfði á rómantískar gamanmyndir. Yndislegt, þrátt fyrir skort á hrútspungum og hundasúrum. Henti bara súrheyi í hrútana og reyndi að forðast súran andardrátt hundanna. Lítils að sakna úr Rvk city. Þó alltaf gott að koma heim á Baldursgötuna. Alltaf stuð þar. Sérstaklega hérna á móti. Lögreglan er nú orðin daglegur gestur hjá dópsalanum sem virðist vera duglegur við að kveikja í hjá sér, selja eiturlyf, áreita nágrannana (m.a. einstæða föðurinn síreykjandi, greyið), læsa sig úti og fleira hressandi. Gaman að þessu. Ég hef þó enn ekki orðið vör við Del Toro, hann hlýtur að fara að sýna sig þegar þetta verður rannsakað sem fíkniefnamál.
Við sambýliskonurnar erum nú farnar að ræða það í alvöru að fá okkur kött eða jafnvel ketti :) Ooooh tvo litla sæta kettlinga, mússí, mússí, mússí. Hver þarf kærasta þegar maður hefur Joe9 og mjúkan loðinn kettling sem hægt er að kalla Benicio, Joaqim, Johnny eða Jude. Kem svo bara við í Amor og redda því sem upp á vantar, kkkknnnrrrmmm, djísús!

Thursday, March 23, 2006

Bless, bless þroskahefta sörvetrina


Jibbí jóh, jibbí jeih! hef nú lokið sörvetrínu ferli mínum fyrir fullt og allt. Jessúss minn hvað það er mikill léttir. Þjáist nú af beinkröm, vöðvabólgu, liðagigt og bakverk, er komin með æðahnúta, herðakistil, grátt hár og heilaæxli af álagi. Það er auðvitað ekki mönnum bjóðandi að vinna hverja 14 tíma vaktina af fætur annarri á harðahlaupum að sleikja upp nýríka fólk. Held ég sé eitthvað þroskaheft (það hefur svo sem löngum verið vitað) að láta hafa mig í þetta í heila sex mánuði. Þetta er svo sem búið að vera stuð og læti, en hversu dýru verði er maður tilbúinn að kaupa stuðið í lífinu, ég bara spyr. Og svo kunna vinnuveitendurnir ekki einu sinni gott að meta og þakka ekki svo mikið sem fyrir vel unnin störf heldur skammar mig fyrir að taka 1000 kall af 8000 kr þjórfé sem átti að fara í starfsmannabauk. Þetta fólk ætti að skammast sín, segi ekki annað.
Vona að herðakistillinn verði kominn niðurfyrir hnakka fyrir sumarið, beinkrömin lagist á næstu tíu árum og að heilaæxlið sé ekki illkynja.
Ég hef ákveðið að láta mig hverfa af leiksviðinu yfir helgina. Verð að öllum líkindum net og símasambandslaus upp í sveit að borða hundasúrur, hrútspunga, súrdeigsbrauð, ábrystir og mysu.
Lifið heil og gangið hægt um gleðinnar dyr (passið ykkur að detta ekki á kíki!)

Tuesday, March 21, 2006

Mig langar í kettling eða kærasta. Kostir og gallar við hvorttveggja.
Auðveldara að verða sér úti um kettling held ég. Maður getur fengið einn gefins án mikillar fyrirhafnar. Erfiðara að redda sér kærasta, tala af biturri reynslu. Hinsvegar er auðveldara að losa sig við kærasta en kött. Maður gæti lent í vanda með kött ef maður ákveður til dæmis að flytja eða fara erlendis í einhvern tíma. Ekki hægt að skilja köttinn bara eftir heima. Það er hinsvegar hægt með kærasta. Maður gæti líka kannski bara tekið kærastann með sér í nýja húsnæðið eða til útlanda en ekki köttinn.
Hmmm hvað skal gera!

Friday, March 17, 2006

Thursday, March 16, 2006

Astarpungar

Hvernig í ósköpunum getur það komið fyrir unga og sérlega siðprúða stúlku að þrír fyrrum elskhugar labbi inn á vinnustaðinn hennar sama daginn? Ekki bara einn eða tveir heldur þrír, þrír! Kræst þetta kom fyrir mig um daginn. Og ég sem er næstum því ennþá hrein mey.
Það var nú svona mis vandræðalegt að hitta þá alla blessaða mennina. Einn þeirra er mér nú alveg sérlega minnisstæður þar sem hann er með það allra minnsta tippi sem ég hef á ævi minni séð. Hann á það eiginlega ekki skilið að það sé einu sinni skrifað með i það er svo lítið. Frekar bara t.ppi. Aumingjans blessaður maðurinn. Verð alltaf mjög vandræðaleg þegar ég hitti hann.
Annan þeirra dissaði ég frekar mikið þegar hann reyndi að hafa samband við mig eftir okkar fyrstu kynni. Alveg búin að ákveða að hann væri ekki mín típa þó að hann væri nú alveg með typpi. Hann daðraði núna alveg heilan helling við mig. Þurfti svo voða mikið að faðma mig þegar hann yfirgaf staðinn. Hann mætti svo aftur á staðinn alveg á eyrnasneplunum í úthverfum Hugo Boss frakkanum sínum að leita að Gunnhildi. Ég var þá farin heim að sofa. Einhvernveginn held ég að hann hafi ekki ætlað að biðja mig um að giftast sér.
Þvílík sjarmatröll og ástarpungar sem ég lendi í, ég segi ekki annað.
Dagurinn endaði svo á því að lögreglan og slökkviliðið mætti til dópsalans á móti því það virtist vera kviknað í hjá honum. Sá ekki Benicio Del Toro á staðnum. Enda er hann í fíkniefnalögreglunni.

Ég vona að mamma lesi aldrei þessi hjásvæfu og tippa skrif mín. Og ekki heldur minn verðandi eigin maður. Ég sem er í einlægri leit að ástinni ætti auðvitað ekkert að vera að blaðra þetta. En þar sem ég er svona einlæg þessa dagana verð ég auðvitað að viðurkenna að ég er ekki hrein mey og segja satt og rétt frá. Þetta eru auðvitað þeir einu sem ég hef sængað hjá. Ég var með slökkt ljósin allan tímann og undir sænginni. Fór aldrei úr brjóstahaldaranum og hárgreiðslan og meiköppið var óaðfinnanlegt allan tímann.

Friday, March 10, 2006

Nyr litur

Ég var að hugsa um að hætta að vera rauðhærð og lita hárið á mér dökkbrúnt. En neeei ég tími ekki að hætta að vera rauðhærð alveg strax. Keypti mér því rauðan hárlit í apótekinu eftir að hafa staðið og starað ýmist út í loftið eða á sjálfa mig í speglinum í u.þ.b. 25 mínútur. Var sem sagt mjög skrítin kona í apótekinu.
Ég ákvað þess í stað að lita bloggið mitt brúnt. How do you like my new look?
Ég er ánægð með það. Það er líka meira í stíl við einlægnina mína. The new me!

Aumingja aumingjans Sayid!

Tuesday, March 07, 2006

Skoh ég vissi að það borgar sig ekki að vera einlægi persónulegi bloggarinn. Það er bara gert grín að mér. Fólk höndlar ekki ljóðaskrifandi, sjálfsskoðandi La bombe sexuelle. Ég er að hugsa um að eyða þessum færslum mínum bara út.
Eða bara að halda þessu áfram. Hér kemur eitt.

Lífið hefur mörg andlit
Ljósið er bjart
Börnin leika sér
Aldraðir hvíla lúin bein
Ég horfi út um gluggann
á nágrannann síreykjandi
og dópsalann með fatlann

Skoh þetta bara kemur sjálfkrafa þegar ég legg fingurna á lyklaborðið. Natural born talent.

Er búin að ráða mig í vinnu sem ráðgjafi á meðferðarheimili fyrir unglinga. Spennt yfir því.

Monday, March 06, 2006

Hætt þessu rugli

Jesússs minn ég er að missa mig í einlægninni. Ég biðst afsökunar og lofa að rífa mig upp úr ruglinu. Héðan í frá verða skrif mín hlaðin kaldhæðni, gríni, töffaraskap, bulli og vitleysu. Ekkert svona tilfinninga rugl og væl. Bara bull um beðmál, dans, trans, dóp, drykkju og rock n'roll. Jesss!
Er annars að hugsa um að hætta að drekka, hef ekki farið í sleik í háa herrans tíð, hvað þá fengið eitthvað í beðinu, aldrei dópað og dansa bara þessa dagana í stofunni heima þegar ég er að þrífa. Rock n'roll.

Skritið

Úbbs hvarf!

Svona er lífið skrítið.

Friday, March 03, 2006

Dopdrama

Ég er orðin sannfærð um að fólkið á móti séu dópdílerar. Þó ekki stórreykingamaðurinn á tröppunum. Hann er svo mikill lúði að hann hefði ekki þor eða dugnað í að fara að díla með dóp. Held reyndar að hann sé kominn með vinnu blessaður. Alveg hætt að sjá hann á tröppunum bara. Er annars að hugsa um að vera samviskusami borgarinn og gera lögreglunni viðvart, ekki af því að lúðinn er kominn með vinnu heldur út af dópinu. Hressandi að fá smá traffic drama í hverfið. Svo getur maður beðið til guðs um að sendar verði fjallmyndarlegar löggur á svæðið til að taka viðtöl við nágrannana. Jess ég er starx farin að hlakka til :)

Thursday, March 02, 2006

I framhaldi af mer

Fólk virðist hafa einhverjar áhyggjur af að það sé eitthvað confusion, angist, premature crises í gangi hjá mér eftir persónulega bloggið. Ég held nú að það sé ekkert mikið meiri krísa í gangi hjá mér núna frekar en venjulega. Ég var bara svona að pæla í þessu í sambandi við það sem er í gangi í lífinu hjá mér núna, þ.e. atvinnuleit. Þegar maður gerir CV, skrifar umsóknir og fer í viðtöl þarf maður svolítið að skilgreina sjálfan sig. Þessi skilgreining felst að miklu leiti í því við hvað maður hefur unnið og hvaða menntun maður hefur. Sem mér hefur alltaf fundist hálf skrítin skilgreining. Mér hefur sjaldnast fundist vinnan mín eða nám lýsa mér best. Ég vil ekki taka þátt í því að flokka sjálfa mig eftir því við hvað ég vinn, sem mér finnst ótrúlega algengt að fólk geri. En í CV tilgreini ég líka helstu kosti og áhugamál. Þetta má ekki vera nein langloka og því þarf maður að pikka út einhver orð sem maður vill að veki upp ákveðin hughrif hjá fólki. Fólk hugsi aahh já, hún er þessi típa, hún er þessum kostum gædd. Maður er jafnvel beðinn um að nefna eigin galla í atvinnuviðtölum. Þá þarf maður nú aðeins að vera búinn að pæla í sjálfum sér. Ég get nú reyndar yfirleitt ekkert nefnt neina galla!!!
Jamm og já já.
Annars komu nokkrir athyglsiverðir punktar í kommentunum. Eitt er um blessaða behavioristana. Sko ég get bara ekki verið sammála behavioristunum. Ég er víst líka það sem ég hugsa, tilfinningar og drasl sem er í gangi inn í mér þó að ég sé kannski ekkert alltaf með það á útopnu, að "gera" þessar hugsanir og tilfinningar. Auðvitað er maður líka það sem maður hugsar, annað er út í hött.
Þetta með premature gráa fiðringinn er fyndið. Ég held ég sé nefninglega löngu kominn með það fyrirbæri. Hef ekki orðið skotin í gaur sem er eldri en ég í háa herrans tíð. Þeir verða bara sífellt yngri, vhúppa!
Spjaldhryggsmeðferðarfulltrúinn finnst mér bara mjög merkilegt fyrirbæri út af fyrir sig. Hvað í andsk... er það!
Takk fyrir kommentin, Ég met þau mikils.
Ykkar einlæg
Hölt og hálfblind

Wednesday, March 01, 2006

EG

Ég hef eitthvað verið að velta típunni mér fyrir mér undanfarið. Átta mig ekki alveg á henni. Finnst eins og ég sé eitthvað frekar klofin og tvískipt típa. Ég átta mig til að mynda ekki á því hvort ég er lífsglöð og jákvæð típa eða frekar þunglynd og neikvæð. Mér finnst ákaflega gaman að lifa og elska lífið. Tími yfirleitt ekki að fara að sofa á kvöldin því mér finnst svo gaman og tími ekki að eyða tímanum í svefn. Á Morgnana hata ég yfirleitt lífið. Langar bara að sofa endalaust. Ég elska reyndar að sofa. Svefn er yndislegt fyrirbæri. Ég elska að sofa.
Ég átta mig heldur ekki á því hvort ég sé kærulausa og hirðulausa típan eða samviskusama konan sem klikkar ekki á hlutunum. Ég er frekar kærulaus ok en ég er líka mjög samviskussöm. Í vinnu til dæmis er ég mjög samviskusöm en á sama tíma frekar kærulaus. Djísús þetta er snúið. Í skóla hef ég alltaf verið mjög samviskusöm og staðið mig mjög vel. En á sama tíma mætt frekar illa og djammað djöfulli mikið. Einu man ég alltaf eftir. Ég var einhverntíman að þvo hvítu handklæðin mín og þá hafði slæðst með rauðar nærbuxur eða eitthvað þannig að handklæðin urðu öll bleik. Vinkona mín var hjá mér þegar ég var að taka úr vélinni og sagði að þetta væri nú alveg dæmigert fyrir mig og mitt kæruleysi. Á þessu varð ég mjög hissa og er enn því að þetta er í eina skiptið á ævinni sem mér hefur tekist að lita þvott á þennan hátt (og ég er nú búin að þvo af mér sjálf í ansi mörg ár skal ég segja ykkur) Hmmmm já þetta er snúið!
Ég veit heldur ekki hvort ég er típan sem aðhyllist og lifir heilbrigðum lífstíl eða típan sem sukkar og aðhyllist svínarí. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á heilsunni. Bæði andlegu og líkamlegu. Hef alltaf hugsað um það hvað ég læt ofan í mig og reyni að stunda útiveru og hreyfa mig reglulega. Hef aldrei reykt og eiturlyf forðast ég eins og heitan eldinn. Á sama tíma er ég einn mesti djammbolti og drykkjusvín sem ég þekki. Verð blindfull og geri skandala eins og mér sé borgað fyrir það. Verð svo sjúklega þunglynd í þynnkunni, borða viðbjóð og er nákvæmlega sama um eigin heilsu. Borða reyndar oft viðbjóð. Er til dæmis að gúffa í mig núna ristuðu brauði með crunchy hnetusmjöri og súkkulaði og skola því niður með kóki, uhhmmmm það besta sem ég fæ. En ég er búin að fara út að labba í dag og borðaði mjög hollan morgunmat.
Ég veit ekki hvort ég er jarðbundna fræðilega sálfræðitípan eða jógaiðkandi, stjörnuspálesandi andlega típan. Ég get ekki trúað á Guð því ég hef ekkert í höndunum sem sýnir mér að hann sé til, mér finnst trúarbögð þó afar spennandi og eitthvað hlýtur það að vera sem fær mannin til að iðka þau og trúa. Allt svona hottintott eins og tal um drauga og aðra heima og þriðja augað finnst mér kjaftæði. Á sama tíma er eitthvað voða heillandi við þetta, ég les stjörnuspánna mína á hverjum degi og hef farið á mörg jóganámskeið.
Ég veit heldur ekki hvort ég er heimakæra innhverfa handavinnukonan eða félagsveran á útopnu. Ég elska að vera heima hjá mér og hafa það huggulegt með prjónana, góðan mat og videóspólu. Ég fríka út ef ég sé ekki fram á að geta eitt tíma heima hjá mér í rólegheitunum á næstunni. Þoli ekki að hafa öll kvöld vikunnar plönuð í eitthvað útstáelsi. Ég er þó yfirleitt ekki í rónni fyrr en ég kemst eitthvað út að sýna mig og sjá aðra. Fara eitthvað, gera eitthvað, hitta einhvern.
Að sama skapi veit ég ekki hvort ég þrái að eignast mann, börn og heimili eða að vera áfram ein og frjáls. Mig langar auðvitað í mann, ég viðurkenni það en tilhugsunin um skuldbindinguna hræðir mig líka svakalega. Mig langar að geta ferðast meira, búið í útlöndum, djammað, menntað mig og bara gert það sem mig dettur í hug. Get ég það með lúða mér við hlið, það er stóra spurningin (eða nei það er nú svo sem ekkert mjög stór spurning þar sem annar kosturinn er bara í boði þessa stundina og varla neitt útlit fyrir að það eigi eftir að breytast á næstunni!).
Og til að toppa þetta þá veit ég alls ekki hvernig á að lýsa típunni í útliti. Er ég há og grönn, með stutt dökkt slétt hár, frekar dökka húð og brún augu eða er ég meðalmanneskja á hæð, frekar þrýstin, með sítt rautt liðað hár, ljósa húð og freknur og græn augu?
Er nema von að ég átti mig ekki á típunni? Ég veit þó að típan elskar að lifa þó ég sé stundum svolítið þunglynd, elskar að borða, elskar að sofa, og vera heima hjá mér. Elskar tónlist, bækur og bíó. Elskar fjölskylduna mína og vinina. Vill láta gott af mér leiða í þessu lífi. Veit að peningar eru til að eyða þeim. Elskar að hlæja og hafa gaman. Ég vil vera góð við fólk og að öðrum líði vel. Mér finnst gaman að kynnast allskonar ólíku fólki þó að ég sé kannski sein til þess að hleypa fólki að mér.
Ég er víst bara eins og ég er.

Með kærri kveðju
Persónulegi bloggarinn
Ég er að fara í atvinnuviðtal. Ætla svo að fara og kaupa mér garn í peysu. Ég er svo spennt yfir garninu að ég get eiginlega ekki einbeitt mér að þessu viðtali. Hef held ég meiri metnað fyrir prjónaskap en starfsframanum.