Tuesday, September 09, 2008

Flutt og kvefuð

Nú er ég loksins flutt í þessa blessuðu íbúð í Jordan hverfi í Amsterdam. Með tveimur köttum, garði og serbneskri nördavinkonu minni. Ég sef í stofunni. Hef hólfað mig þar af, nóg rými, stórir gluggar og almenn kósíheit. Við fluttum í gær. Leigðum bíl og fluttum báðar okkar hafurtask frá guðdómlega góðhjörtuðum vinum okkar í Utrecht sem hýstu draslið okkar í sumar. Allt hafurtask vinkonunnar fólst í tveimur töskum, litlum bakpoka og prentara. Mitt hafurtask fólst í heilu fjalli af töskum, kössum og pokum. Já allir þessir skór og prjónapeysur taka sitt pláss. Mér telst til að ég sé hér með 16 pör af skóm. Það er nú svo sem ekki neitt. Annars gerði ég næstum því út af við mig í þessum flutningum. Var búin að vera eitthvað lasin alla helgina. Viðbjóðsleg kvefpest og slappleiki. Ég ákvað nú að vera ekkert að fresta flutningum þrátt fyrir smá kvef. Tók bara verkjalyf og dreif mig í geimið. Ég var bókstaflega búin á því í gærkvöldi og tilkynnti mig veika í skólann í dag. En svo er þetta bara búið held ég, vona ég. Þarf að fara að spýta í lófana varðandi námið og svo þarf ég drífa mig að njóta þessa yndislega hverfis sem ég er flutt í, morandi af kúrekum, bjór og mat. Sest la ví mæ frend, sest la ví!

No comments: