Tuesday, August 11, 2009

Góðir dagar

Ég átti góða daga á Íslandi. Of fáa en vissulega mjög góða. Ég ferðaðist víða og át mikið. Drakk slatta. Prjónaði ekki neitt og hugsaði mest lítið. Hitti marga en þó ekki nógu marga. Fjölskyldan fékk athygli mína nánast óskipta. Þessar elskur.






Ég lifði eins og prinsessa. Borðaði humar og andabringur og unaðslegt íslenskt lambakjöt í flest mál. Það voru bakaðar ofaní mig margar vöfflur og ég þambaði ótrúlegt magn af kaffi. Cappuccino í 101 og uppáhelt í heimahúsum. Ég kom í öll þorp sem nöfnum tjáir að nefna á Vestfjörðum. Merkileg lítill pláss. Sum eins og á hjara veraldar. Ég er ekki hissa á að það hafi fækkað í þorpunum en vona þó innilega að einhverjar hræður tóri áfram þarna útfrá. Það er svo fallegt þarna og náttúran svo mikil. Ég hafði sérstaklega gaman af því að fara í Selárdal. Þar er barasta held ég hjari veraldar. Þar bjó Gísli á Uppsölum og Samúel í Selárdal. Töff kallar. Selárdalur er við Arnarfjörð sem mér finnst sérstaklega fagur. Fjöllinn svo tignarleg og sjórinn svo tær og fallegur. Ég segi það enn og aftur ef þeir reisa olíuhreinsunarstöð þarna þá afneita ég þjóðerni mínu og flyt til Finnlands. Væri jafnvel til í að sletta jógúrt og handjárna mig við vinnuvél. Sjáum hvað setur.




Nú er ég aftur komin til Hollands. Nóg að gera. Ég er að vinna mikið. Alla daga. 2 frídagar sem það sem eftir lifir ágústmánaðar. Það var nú svo sem ekki planið að vinna svona mikið en einhvernvegin endaði þetta svona. Kona verður nú að vinna í kreppu. Afla evra. Og fólkið í Amsterdam fær allavegana póstinn sinn og samlokurnar sínar á meðan. Allir glaðir. Ég svolítið þreytt kannski en allavegana ekki mjög feit og minna blönk.
Best að fara að sofa að þessu sinni. Mín bíður krefjandi dagur við póstútburð.

2 comments:

Unknown said...

Svona myndir frá Íslandi eru frábært vítamín. Hlakka til að anda að mér fersku fjalla- og fjarðalofti einhvern tímann í framtíðinni. Sem ég sit og safna bólum á bókasafninu, sé ég þig líka í hyllingum bera út póst í Amsterdam og fá þér einn kaldan að loknu verki. Njóttu þess að afla evra og vera kúl kona í kreppu.

Anonymous said...

Takk fyrir síðast mín kæra. Það var svo gaman að hitta þig aðeins. Er svo algjörlega sammála með Arnarfjörðinn. Fór í Selárdal um daginn líka, ótrúleg náttúrufegurð þarna á hjara veraldar.

Njóttu lífsins, hlakka til að lesa um ævintýri þín áfram!

Kv. Elín.