Friday, July 17, 2009

The new me

Nei andskotinn hafi það nú detta mér allar dauðar lýs úr höfði það eru aldeilis breyttir tímar. Ég átti rétt í þessu í samræðum við albanska stúlku búsetta í Stavanger í Noregi. Og mér finnst það bara svona líka sniðug hugmynd allt í einu að flytja til Noregs! Noregs, Gunnhildur, Noregs! Ef einhver hefði logið því að mér að mér ætti eftir að finnast Noregur sniðugt land til að búa í fyrir nokkrum árum síðan hefði ég skotið í mig þremur tekíla staupum, sprautað mig með heróíni og tekið fyrstu vél til New York eða Tokyo. Noregs! Stavanger! Ég hef aldeilis elst og þroskast og látið kreppuna hafa áhrif á mig. Núna finnst mér bara rosa sniðugt að flytja til Stavanger af því að þar er næga vinnu að fá og þar er svona kósí og fallegt. Ég gæti lært norsku á nótæm og sæi næstum því yfir til Íslands. Farið í fjallgöngur og dottið bara í það um helgar með norsurunum í staðinn fyrir dagdrykkjubjórsullið hérna niðri. Frændur vorir Norðmenn. Einu sinni fannst mér ekkert hallærislegra en Noregur og Norðmenn. Svo hræðilega púkó og sveitó og bara eitthvað. En jú jú konur eldast og breytast og brjóta odd af oflæti sínu. Það gengur svo. Ég ætla að fá mér ouzo til að melta og meta hina nýju mig.
Aaaah! gott. Ég er ágæt.
Það spáir rigningu í Amsterdam næstu dagana. Sem mér finnst gott. Því ég er að vinna á kaffihúsinu og þá er minna að gera. Nú vinn ég og vinn fyrir evrunum. Sörvera svöngum ferðalöngum salöt og samlokur í tugatali. Ber út ástarbréf, póstkort, tímarit og rukkanir. Pirra mig á vondum póstlúgum. Blóta íbúunum. En hlusta svo bara á eitthvað hresst með bítlunum og labba áfram. En svo fer ég til Íslands. Og ætli ég sé ekki bara komin í sumarfrí. Það er þó aldrei að vita.

5 comments:

Hrólfur S. said...

Já, svo er líka einmitt mjög mikið af heróíni í Osló.

Hrólfur S. said...

En svo er líka svo yndislega fallegt í Noregi.

Hrólfur S. said...

En svo eru Norðmenn svo trúaðir.

Bree said...

Góða ferð, Gunnhildur mín! Ég hlakka ekkert smá til að hitta þig.

Unknown said...

Mér líst vel á að heimsækja þig til Noregs. Það er vel hægt að finna þar trú- og heróínlausa vini en þeir reykja þó margir eins og strompar þótt þeir séu með bakpokann samvaxinn herðunum. Karlmennirnir eru líka upp til hópa spengilegir og skemmtilegir.