Thursday, October 30, 2008

Sko...

stelpurnar okkar
vinstri græna
mig, sem prjónaði eins og vindurinn í dag

Tuesday, October 28, 2008

The show must go on

Ég byrjaði í nýjum kúrsi í dag,Group life, annar á morgun, Leadership. Hef tekið að mér tvö barnapíustörf. Passa tvö lítil tvo morgna í viku. Þau eru voða krúttleg og svakalega ánægð með mig. Mamman líka sem er kasólétt heimavinnandi ofurkona. Lítils hálf fransks drengs ætla ég svo að gæta eitt kvöld í viku. Ég þreif íbúðina hátt og lágt í kvöld. Er svo farin að taka við pöntunum á ullarpeysum. Þrjár búnar að panta. Mig vantar bara lopa. Gengur enn ekkert með markmið númer eitt. Ég gaf sæta post doc gaurnum sem lítur út alveg eins og Stuart Staples samt mjög djarft lúkk í skólanum í dag. Hann tjékkaði þokkalega á mér á móti. Honum finnst ég sæt. En hann á konu. Djöh. Þeir eru allir annaðhvort fráteknir, barnungir, ævafornir eða þrælöfugir. Spurning um að hætt að vera svona pikkí. Held ég reyni samt að láta þessa fráteknu og öfugu vera. Mér hefur nú svo sem ekki gengið sérstaklega vel með það hingað til. Hefur eiginlega verið mitt spesíalítet að falla fyrir fráteknum og hommum. Og þetta lið getur auðvitað ekki látið mig í friði. "Bara ef ég væri ekki samkynhneigður, Gunnhildur, þá.....þá værum við sko par...þú ert svo falleg og frábær" Jeh jeh jeh. "Ég vildi að kærastan mín væri jafn skemmtileg og þú Gunnhildur" Jeh jeh. "Þú ert miklu betri í rúminu en kærastan mín" WHAT!

Monday, October 27, 2008

Jibbí jóh jibbí jeih

Ég er kengbogin, bólótt, sveitt og föl en jibbícola jibbícola jibbícola. Var að skila inn lokaritgerð. Tveir kúrsar eftir í þessu prógrammi. Don't fucking believe it maaðuuur! Bráðum koma blessuð jólin og þá verð ég búin með alla mína kúrsa. Þá verður sko tilefni fyrir fjórfalt jibbícola og sjöfalt jólakóla. Ég fagnaði fyrirfram. Það var alveg svona gaman á föstudaginn. Ég skemmti mér vel í félagsskap barnungra sálfræðinörda. Þeir héldu fyrir mér vöku fram á rauðan morgun. Hvorki ástarmök né örvandi eiturlyf komu þar við sögu. Ég gleymdi að fara í flegnum kjól. Gaman engu að síður.

Thursday, October 23, 2008

Góður dagur, góða nótt.

Ég er dauðuppgefin. Það tekur á að passa börn og hjóla. Bæði gaman. Gaman að leika sér. Gaman að hjóla, hreyfa sig. Gott að vinna fyrir peningum, alvörupeningum, evrum. Snemma að sofa í kvöld. Barinn á morgun. Ég ætla í fleygnum bol. Eða stuttu pilsi. Eða bæði. Góða nótt.

Wednesday, October 22, 2008

Klár strákur og hjól

Ég keypti mér hjól í dag, jiihúú! Það er stórt, svart, með fótbremsu, engum gírum, körfu, traust, gamalt, fullkomið.
Á morgun byrja ég að passa börn, jiif......hú! Það verður bara fínt held ég. Ég kann vel við börn og þau kunna vel við mig. Litli 3 ára strákurinn kunni sérstaklega vel við mig þegar ég fór og hitti fjölskylduna. Hann spurði mig ekki síður út úr en móðirin. Hann spurði mig m.a. hvort ég ætti lítinn strák heima. Þegar ég sagði að svo væri ekki, ég ætti engin börn, spurði hann af hverju. Ég sagði að það væri af því að ég ætti engan eiginmann. Honum fannst ekki að það ætti að vera fyrirstaða fyrir því að eignast börn. Klár strákur. Svo spurði hann hvernig stæði á því að ég ætti ekki eiginmann. Fannst það mjög skrítið. Mjög klár strákur. Mig langaði svolítið að útskýra fyrir honum að mig langaði svo sem ekkert sérstaklega í eiginmann að svo stöddu, elskhugi væri alveg nóg í bili. Elskhugi væri líka alveg nóg ef mig langaði virkilega í barn. Ég sleppti því. Ég útskýri þetta kannski fyrir honum seinna, þegar foreldrarnir verða ekki viðstaddir.

Tuesday, October 21, 2008

Mér leiðist.

Ég geri samt ekkert í því. Ég læt mér leiðast. Það er ekki nógu gott.
Meira en nóg að gera svo sem. Ég er búin að ráða mig sem barnapíu. Byrja á fimmtudaginn.
Nóg að gera í skólanum, var með fyrirlestur í dag og annan í gær. Gekk vel. Þarf að skrifa eitt research proposal í þessari viku. Svo byrja ég í tveimur nýjum kúrsum í næstu viku. Þegar þeir klárast í desember verð ég búin með alla kúrsana mína. Ótrúlegt. Þarf svo að klára mastersverkefnið og gera aðara rannsókn sem intern. Þá verð ég búin. Mig grunar nú að þetta muni dragast eitthvað á langinn hjá mér. Ætti að klára í júní en stefni á næsta haust. Hvað gerir maður þá? Flytur til Tálknafjarðar eða Tokyo? Ég hef á hvorugum staðnum búið.

Sunday, October 19, 2008

Fúl kisukona

Ég lýsi því yfir að ég ætli sko að redda kynlífskreppunni einn tveir og bingó. Eyði svo helginni ein með köttum og amerískri þáttaröð um ungt fólk í makaleit. Ég var í Utrecht að passa kisur. Horfði á 30 þætti af How I met your mother. Kisukona. Sleppti meira að segja partý á laugardaginn og lærði mest lítið því ég þurfti svo mikið að horfa á sjónvarpið. Ég held þetta hafi samt gert mér gott. Ég var komin með ógeð á fólki í síðustu viku. Lét alla fara sjúklega í taugarnar á mér. Nei reyndar bara þýsku stelpuna sem heldur að hún sé miskunsami samverjinn en ráðskast svo með allt og alla eins og þýskur einræðisherra. Og svissneska kærasta sambýliskonunnar. Við skiljum ekki hvort annað. Hann skilur ekki húmorinn minn og við bara getum ekki talað saman. Þessar tvær manneskjur sanna að það er alltaf einhver sannleikur á bak við steríótýpur. Húmorslausi Svisslendingurinn og stjórnsami Þjóðverjinn. Þau eru samt ágæt greyin. Ég þurfti bara frí frá þeim og öðru fólki. Fúl kisukona. Ég ætla að lesa yfir markmiðin mín sem sneggvast.

Friday, October 17, 2008

Persneskur metrómaður

Ég stóð sjálfa mig að því að óska þess að ég væri tvítug í gær. 21, lítil og mjó ekki 31, há og þrýstin. Ég var að tala við svo sætan strák. Persneskan metrómann. Með hairdo dauðans, í tískuátfitti. En með fallegustu augu sem ég hef á ævi minni horft í. Honum fannst ég rosa sniðug. Brosti svo fallega og hló að bullinu sem rann upp úr mér. Þegar hann spurði hvað ég væri gömul og ég sagði honum að ég væri 31 sagði hann "VÁ" og svo að hann væri 21. En ætli hann sér hvort sem er ekki hommi. Það er ekki gott að segja með þessa ungu menn í dag. Með sína eyrnalokka, í bleikum skóm, með gelaðar hárgreiðslur og í þröngum buxum. Nett stelpulegir svona. Kallar með ýstru og skalla betri. Ég veit það ekki.

Wednesday, October 15, 2008

Ég óttast meira að ekkert muni breytast en að allt muni breytast

Mér finnst líklegt að ég kjósi Vinstri græna næst. Og það er ekki af því að mér finnst Ögmundur kynþokkafullur (það spillir hinsvegar ekkert fyrir).
Af hverju er Davíð ekki hættur? Rekinn? Hann er eins og þrjóskur einræðisherra. En af því við búum við lýðræði þá gat hann ekki verið forsætisráðherra endalaust. En hann þarf að fá að stjórna, pota sínum feitu illa lyktandi puttum í allt og allt. Og frjálshyggjuliðið mænir enn upp til hans. Af hverju er hann ekki rekinn. Hann myndi samt trúlega bara bregðast við eins og Fóstbræður. Ha, drekinn!
Annars er ég að spá hvað frjálshyggjuliðið er almennt að hugsa þessa dagana. Ég óttast að þessir ríku pabbastrákar og mömmustelpur haldi bara sínu striki. Finni blóraböggla. Bölvi Bretum. Velferðakerfið er í fínum málum eftir góðærið. Djöfull verð ég reið.

Fyrir Brynju (og okkur allar bara)

Tuesday, October 14, 2008

Woman on a mission

Ég er kona með skýr markmið. Það má jafnvel segja að ég sé on a mission.

1. Meiri ástarmök
2. Finna mér vinnu
3. Vera glöð
4. Vera massa dugleg í skólanum
5. Vera meira glöð og að sjálfsögðu svolítið gröð

Ég ýtreka enn og aftur að leit mín að vinnu og meira kynlíf þýðir ekki að ég sé að fara að selja mig.
Ég vann í þessu öllu í dag. Daðraði við mann í skólanum. Sótti um barnapíustarf. Var bara mjög glöð þrátt fyrir að hafa hóstað í alla nótt og því mest lítið sofið og vaknað grautfúl og þunglynd. Afrekaði margt og mikið í skólanum. Er glöð og gröð.

Maður þarf og á auðvitað ekkert að vera að blogga um ástandið þegar Dr.Gunni segir nákvæmlega allt sem segja þarf. Mér finnst að hann eigi að verða næsti forseti Íslands.

Monday, October 13, 2008

Átak: Skref 1

Ég er byrjuð í átakinu. Byrja rólega. Sat að sumbli og talaði um kynlíf við þá grísku og serbnesku í kvöld. Niðurstaða. Það er þjóðsaga að karlmenn hafi almennt meiri áhuga á kynlífi en konur. Ég var svo sem löngu búin að komast að þessu en fékk svona alþjóðlega staðfestingu núna. Ég þekki æði margar konur sem kvarta sáran yfir áhugaleysi kærastanna á kynlífi og þetta virðist ekki vera sér norrænt fyrirbæri. Konur eru almennt mjög áhugasamar um kynlíf, vilja mikið af því. Karlmenn eru líka almennt mjög áhugasamir um kynlíf en vilja oft og tíðum minna af því en konur. Ég segi oft og tíðum. Þetta er ekkert algilt. En er niðurstaða engu að síður.

Sunday, October 12, 2008

Sex and the university

Ég er að hugsa um að breyta nafninu á blogginu í: Sex and the university. Koma með eitthvað svona hressandi á þessum síðustu og verstu. Verst að það er hálfgerð kreppa í kynlífinu. Kynlífskreppa hljómar kannski ekkert betur en fjármálakreppukjaftæðið. Ég get þó allavegana gert eitthvað í kynlífskreppunni. Og það er án efa meira hressandi að skrifa um þær aðgerðir en hinar. Nú er stefnan sett á kynlíf fyrir lok vikunnar, njeh eða kannski mánaðar......, ársins kannski. Fullt af kynlífi fyrir árslok.

Friday, October 10, 2008

Fríkað út slakað á

Ég rembist eins og rjúpan við staurinn að fríka ekki út. En hvað getur maður gert. Auðvitað blótar maður, brjálast, hlær móðursýkislega, grætur, drekkur, er andvaka, slær þessu upp í kæruleysi, reynir að hugsa um eitthvað annað. Rembist og rembist við að einbeita sér bara að náminu. Breytir plönunum sínum. Núna er planið að finna mér vinnu með skólanum sem allra allra fyrst. Vonandi verð ég farin að skenkja bjór á bar um næstu helgi, flóa mjólk oní útúrtaugaða bankamenn, passa ameríska gríslinga, bera út póst eða bara whatever. Ég held ég leigi mér samt seint herbergi í rauða hverfinu. Ég útiloka þó ekki hasshús. Einhvernvegin þarf ég að fá eitthvað aðeins fleiri evrur í vasann til að þrauka. Annars á ég alveg fyrir mat og leigunni um næstu mánaðarmót. Maður hefur svo sem alltaf verið blankur. Tæpur. Reddað sér. Ég hef trú á að þetta reddist líka núna. Ég get unnið. Ég er ung og hress. Hver veit nema ég fari bara til Hong Kong næsta haust. Finni pínulítinn kínverskan draumaprins á hvítri Hondu. Ég ætla að uppfæra CVið mitt. Fara svo í bað. Slaka á.

Thursday, October 09, 2008

Tuesday, October 07, 2008

Þetta helst

Ég er að safna hári. Prjóna teppi. Þó ekki úr hárinu.
Ég er hætt við að fara til Hong Kong. Og þó. Sjáum hvað setur.
Litla kisa var með orma. Hún er búin að fá ormameðal. Grey kisa.
Ég drakk bjór á bát um síðustu helgi. Um næstu helgi ætla ég að horfa á landsleik í fótbolta. Ísland-Holland. Go Gudjohnsen!
Ég er ekki enn búin að fá mér hjól. Framtaksleysið gífurlegt.
Ég læri og læri. Er ekki næstum því eins stressuð og í fyrravetur. Er bara soldið streitt núna, ekki brjálæðislega streitt eins og í fyrra.
Ég kem heim um jólin. Ætli maður gefi ekki bara eitthvað matarkyns þetta árið. Ávexti handa börnunum og ólífuolíu, krydd og sojasósu handa þeim fullorðnu. Munaðarvöru sem ekki fæst á skerjum í kreppu.

Thursday, October 02, 2008

Og svo byrjaði að rigna

Hanna Lind móðir í Lundúnum bað mig um að svara þessum spurningum, klukkaði mig. Mér hefur alltaf þótt þetta klukk alveg megahallærislegt. En ég svara þessu engu að síður með glöðu geði.

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
+Bakarísdama
+Sörvetrína
+Næturvörður
+Nektardansmær (neeei ekki sko, passaði bara svo vel við hin störfin, ég hef aldrei komið nakin fram (opinberlega), verð því að segja Skrifstofublók)

Fjórar bíomyndir sem ég held upp á:
+Brokeback Mountain
+In the mood for love
+Annie Hall
+Sex and the city. The movie


Fjórir staðir sem ég hef búið á
+New York
+París
+Amsterdam
+Borgarfjörður eystri (og bráðum, kannski, vonandi, trúlega Hong Kong)

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar
+Little Britain
+Fóstbræður
+Beðmál í borginn
+Vinir

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríium:
+Suðursveitin
+Borgarfjörðurinn
+Hornstrandir
+Þórsmörk

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg
+ mbl.is
+ facebook
+ myspace (nú undanfarið FM Belfast, MGMT, CSS, Motion Boys, M.I.A., Of Montreal, Sebastien Tellier)
+ ordabok.is

Frent sem ég held upp á matarkyns:
+stroop waffles
+poffertjes
+oliebollen
+pönnukökur a la Gunna Gests

Fjórar bækur sme ég hef lesið oft:
+Óbærilegur léttleiki tilverunnar-Milan Kundera
+Englar alheimsins-Einar Már Guðmundsson
+New York Trilogy-Paul Auster
+Discovering statistics using SPSS-Andy Field

Fjórir bloggarar sem ég klukka:
+Óli Stef (reyndar löngu hættur að blogga en hann byrjar kannski bara aftur þegar hann sér að ég hef klukkað hann)
+Össur Skarphéðinsson
+Hrólfur Salieri
+Ögmundur Jónasson (bloggar nú trúlega ekki, en hann byrjar kannski til að geta orðið við klukkinu mínu, hvað með Óla R.G. ætli hann sé með blogg)