Sunday, December 30, 2007

Annáll 2007

Jæja jæja kæru vinir þá er þetta góða ár 2007 senn á enda. Ég ætla að gera upp árið. Sem hefur verið sérlega viðburðaríkt og skemmtilegt hjá mér, mikið partý og ég stóð við áramótaheitið um að drekka meira kampavín en ekki við að drekka minni bjór. Drakk bara meira af báðu. Og bætti vodka við.
Hmmm tökum þetta bara í tímaröð.
Árið byrjaði vel.

Janúar og febrúar voru hressir mánuðir. Mikið um djamm og læti. Vann mikið og afrekaði að sækja um í framhaldsnámi á erlendri grundu. Var dugleg að blogga og naut þess að hanga líka svolítið heima með kertaljós á Baldursgötunni. Plön um ferð til Karabíska hafsins tóku hamskiptum og urðu plön um ferð til Manchester og Kraká. Ég fór í matarboð og reyndi að vera sæt með klippingu.


Mars: Ákvað Las Vegas þema fyrir þrítugsafmælið og var orðin rosa spennt. Keypti mér tvö ný skópör í þessum góða mánuði. Og skellti mér svo yfir til Englands. Hitti Rögnu þar í Manchester og fór með henni og Jónínu á Dolly Parton tónleika. Fannst ég geta mætt dauðanum sátt eftir að hafa séð goðið. En nei nei dauðinn beið mín ekkert heldur stórskemmtileg ferð til Kraká í Póllandi. Djöfull er það skemmtileg borg. Góður bjór og góður vodki og mikið stuð.

Já og svo dansaði Dani (gæti líka hafa verið Hollendingur) nakinn á Sirkus á meðan ég og Hrólfur reyndum að drekkja sorgum okkar með bjórdrykkju á sunnudagskvöldi. Það var hressandi lífsreynsla.

Apríl: Besti mánuður ársins, öll ár. Þá á ég afmæli. Og hélt að þessu sinni upp á þrítugsafmælið með Las Vegas partý. Sjitt hvað var gaman. Og ég var svo ánægð með fólk. Allir svo hressir og skemmtilegir. Í Las Vegas dressum og sólgnir í bolluna og hnallþórurnar sem systur mínar og móðir bökuðu. Já mikið var gaman.

Komst seinna í mánuðinum að því að ég er ólétt og á að eiga núna í byrjun janúar. Eða ekki. Komst inn í skóla í Utrecht, Maastricht og tvo í Amsterdam. Já ég ætlaði mér til Hollands.


Í maí slakaði ég á. Slökkti aðeins á heilanum og horfði mikið á Friends. Góð vinkona mín bauð mér á San Fransisco ballettinn. Það var mannbætandi eins og einhver listagagnrýnandinn orðaði það. Kíkti líka aðeins í sauðburð. Það er alltaf mannbætandi. Maður reynir bara að forðast að hugsa um að maður étur litlu greyin nokkrum mánuðum seinna.

Í júni var mesta spennan yfir því að orkídeurnar mínar voru að byrja að blómstra aftur. Börnin mín. Ein þeirra stendur enn. Ég gekk líka Fimmvörðuhálsinn og tók nokkrar svona styttri göngur í sumarblíðunni. Glymur og Esjan.

Í júlí bloggaði ég ekkert og veit því ekkert hvað ég gerði. Minnir að ég hafi aðallega verið í Vesturbæjarlauginni og í Grafarvoginum. Ég þakki guði enn í bænum mínum fyrir þá ljúfu stund er ég sá Óla Stef spila körfubolta í lauginni, mamma mía! Já jú jú svo gekk ég Laugaveginn með systrum mínum. Það var frábært. Gott veður, ákaflega góður félagsskapur og rosa falleg leið. Jeminn eini langar að fara að plana gönguferð fyrir næsta sumar, Langisjór, Hornstrandir, Borgarfjörður eystri.

Í ágúst lét ég svo verða af því að flytja af landi brott. Er ekki búin að vera nema 5 ár á leiðinni. Endaði í Amsterdam. Ég var rosa hress með þessa ákvörðun.

Byrjaði á því að slaka á hjá Hrafnhildi í Utrect og svo skelltum við vinkonurnar okkur til Berlínar. Það var mikið gaman og ég var líka rosa hress með það.

Flutti í lok mánaðarins í herbergið mitt á Weesperstraat. Var nett sjokkeruð í upphafi. Ekkert nýtt og fínt eða gamalt og huggulegt eins og við eigum að venjast hér á skeri. Herbergið mitt lillafjólublátt og sturtan eins og í gettóinu. En ég er með eindæmum jákvæð kona og hóf strax handa við að koma mér vel fyrir. Nú er svo komið að ég er ofboðslega ánægð með húsakostinn. Finnst hressandi að hafa fjólubláann vegg og gettósturtan virkar vel. Ég er tvær mínútur að labba í skólann og þrjár í miðborgina. Búin að kaupa mér blóm og púða. Og svo hef ég svo fínt útsýni.


Í september byrjaði ég svo í skólanum, í rannsóknarmaster í félags og vinnusálfræði við University of Amsterdam. Og skólinn byrjaði sko bara alveg strax. Ég var í nettu stresskasti í upphafi. Rosa mikið að gera og ég ekki alveg sjor á eigin getu. Flestir sem eru í prógramminu með mér hafa verið stöðugt í skóla undanfarin ár. Margir búnir með aðra mastersgráðu og allir rosa klárir. En ég komst nú fljótlega að því að ég er bara ekkert mikið vitlausari en hinir og fell vel í hópinn.

Í október hélt brjálæðið áfam. Nóg að gera bæði í náminu og félagslífinu. Gaman gaman. Og ég hélt áfram að koma mér fyrir í herberginu mínu. Kynntist fullt af góðu fólki, Íslendingum og Hollendingum, Grikkjum, Þjóðverjum, einni stúlku frá Serbíu og annarri frá Indónesíu. Og svo eru það þessar frá Ungverjalandi og USA, þær eru spes. Æh það er svo gaman að kynnast fólki. Sannaði mig í náminu og vann þar að auki alla í keilu og pool. Maður var ekki að vinna með unglingum í öll þessi ár fyrir ekki neitt!


Í byrjun Nóvember komu systur mínar og foreldrar í heimsókn. Það var mikið gaman. Gott að hitta fólkið sitt. Svo hélt stuðið bara áfram og ég var umvafin góðu fólki.


Ég kláraði fyrstu tvo kúrsana með miklum ágætum. Var hæðst í öðrum þeirra (þetta er mitt blogg og ég má alveg grobba mig). Ákvað að gera mína eigin rannsókn um slúður á næstu önn. Jibbícola.

Og svo og svo kom desember. Viðburðaríkur mánuður. Fór til Antwerpen og verslaði jólagjafir. það var stuð. Lærði svo eins og mó fó. Tölfræði tölfræði tölfræði. Gerði ótal verkefni og tók mitt fyrsta próf við skólann. Held ég hafi klúðrað því. En andskotinn hafi það ég hlýt að ná því. Og svo kom maður bara heim. Beint í partý og svo í sveitina. Mikið um knús og kossa frá börnunum. Meira partý. Og svo koma áramót. Á morgun er síðasti dagur ársins sem ég hef nú farið yfir á hundavaði.

Ég vil nú nota tækifærið og þakka þeim sem hafa dröslast í gegnum þessa færslu alla kærlega fyrir allt á þessu ári sem er að líða. Þetta er búið að vera gott ár. Og ég hef átt margar góðar stundir með öllu mússí mússí fólkinu mínu. Takk fyrir allt, rokkið og rólið, súkkulaðið, bjórinn, matinn og vínið. Allan hláturinn, ferðalögin, kaffiþambið og hangsið. Þrítugsafmælin öll. Sundferðir, gönguferðir og sveitaferðir. Heimboð. Kommentin, mér þykir alltaf jafn vænt um þau.
Og svo er bara spurning hvort ég óska fólki góðs nýs árs líka eða bíð með það fram á nýársdag. Ég óska allavegana öllum góðra áramóta, megi stuðið vera með ykkur. Ást og friður.

Sunday, December 23, 2007

Ást og friður

Gleðileg jól gott fólk

Friday, December 21, 2007

Jólin eru að koma

Ég var eitthvað að kvarta yfir því í gær að vera ekki komin í jólafíling. Búin að húka heima yfir tölfræðinni síðustu daga. Tók svo prófið í gær. Smá jólafílingur að klára próf. Fór svo og fékk mér bjór og fór að versla. Verslaði of mikið. Á kredit. Veit ekki hvernig ég á að borga það til baka. Mikill jólafílingur. Ekta. Datt svo í það í gær. Það er jóla. Bað svo æðri máttarvöld um snjó í Amsterdam. Fólki fannst ekki líklegt að sú ósk mín mundi rætast. En þegar ég skreið fram úr í hádeginu og leit út um gluggann. Þá blasti þetta við mér.

Og nú hlusta ég á Wham syngja um síðustu jól á repeat. Á morgun flýg ég heim á leið. Og svo koma jólin.

Thursday, December 20, 2007

jackson 5

Æh það er eitthvað svo gott að vera svona frjáls í líkamanum sínum. Þó að ég hafi bætt á mig einhverjum tugum kílóa. Who cares, eins og við segjum hérna í útlöndum. A kilo or two or a ten, twenty even. I don't care. As long as i have my brains and sex drive. hmmmmm gekk ekki svo vel í tölfræðiprófinu í dag. Þannig að eins og staðan er núna þá treysti ég á kynhvötina 107%. ekki hef ég útlitið eða gáfurnar til að bakka hana upp!
Ég vona að allir séu í jóla stemmningu í the Rvk city því ekki hef ég fundið hina einu sönnu í hérna í Amserdam. nema kannski helst með þvi að hlusta á jackson 5

Wednesday, December 19, 2007

Jibbíjólacola

Ég er að koma heim


Æh ég hlakka svo til að knúsa börnin. Ef þau þekkja þá þessa gráhærðu feitlögnu kengbognu og vitru konu sem þá frænku sína sem eitt sinn var með glansandi hár, há og grönn og vissi ekki neitt.

Tuesday, December 18, 2007

Áhyggjur

Ég fæ öðru hvoru áhyggjur af því að fólk haldi að ég meini það sem ég segi. Það væri nú ekki gott.

Saturday, December 15, 2007

þetta hár þessi augu þessi líkami

Ég þakka þeim sem tóku þátt í vali á álitlegasta mannsefninu fyrir mig. Það olli mér þó vonbrigðum hversu fáir tóku þátt. Ég álykta sem svo að það séu bara fjórir sem stendur ekki á sama hverjum ég eyði restinni af lífi mínu með. Hrólfur, Jóhanna, Fanney og Ágústa þið eruð sannir vinir og mjög elskuleg öllsömul. Ég tók vissulega til vandlegrar umhugsunar það sem þið höfðuð um menn þessa að segja og var mjög ánægð með keppanda númer 7. Bros hans er mjög sjarmerandi, hann virkar mjög hress og höfuðbúnaðurinn er statement, hann er ekki hræddur við að taka sjénsa og vekja eftirtekt. Maðurinn í fangabúningnum er örugglega vænsta skinn. Ég verð þó að viðurkenna að ég hef komist að annarri niðurstöðu en þið. Ég hef valið þátttakanda númer 5. Þennan með síðu ljósu lokkana, ber að ofan með hálsmen. Ég stenst sjarma hans engan veginn. Svo exótískur og þó svo norrænn. Er ekki feiminn við að sýna hversu föngulegur hann er með því að fækka fötum. Hálsmenin eru plús. Og þetta seiðandi augnaráð, svolítið eins og hvolpur, eða lítill hræddur kínverskur strákur. Skeggrótin svo karlmannleg. Ef guð lofar tek ég hann með mér heim um jólin.

Friday, December 14, 2007

Wednesday, December 12, 2007

Match made in heaven

Það er brjálað að gera hjá mér í skólanum. Ég þarf að skila 40% verkefni í tölfræðinni á mánudaginn og kynna rannsóknarhugmynd fyrir bekknum. Á fimmtudaginn í næstu viku er svo lokapróf í tölfræðinni. Ég er búin að eyða deginum í vitleysu. The true match application á facebookinni er nýja hobbíið mitt, þvílík og önnur eins skemmtun. Hérna eru mínir menn.










Hvern líst ykkur best á fyrir mig?

Afmæli


Úbbs vantar einn

Pabbi töff

Pabbi minn og þríburarnir eiga afmæli í dag. Af því tilefni ætla ég að fá mér eitthvað bakkelsi með kaffinu mínu.

Tuesday, December 11, 2007

Yes yes yes I'll be home for christmassss


Áfram með sama þema


"Flott gott að heyra"

Monday, December 10, 2007

Heima

Ég verð heima eftir 12 daga. Heima í sveitinni eftir 13. Er heima í Amsterdam núna, að fara að sofa. Góða nótt.

Sunday, December 09, 2007

The Bonferroni correction


"Carlo Bonferroni before the celebrity of his correction led to drink, drugs and statistics groupies"


Jú jú ég eyði sunnudeginum líka við tölfræðilestur sem er bærilegt þegar maður getur rölt út og keypt sér oliebollen og mandarínur. Og þegar höfundur tölfræðibókarinnar er svona mikill spaugari.

Saturday, December 08, 2007

Tölfræði, Jens Lekman og oliebollen

Ég er sorgleg kona, sorgleg. Sit ein heima á laugardagskvöldi og les tölfræði. Hlusta á Jens Ekman og hugsa um að fá mér oliebollen á morgun. Jens er krúttlegur sænskur söngvari sem er í uppáhaldi þessa dagana. Í myndbandinu flýgur hann um suðurlandið og syngur. Oliebollen er hollenskt jólagóðgæti ættað frá djöflinum sjálfum. Djúpsteiktar deigbollur með flórsykri. Einhversstaðar á milli ástarpungs og amerísks kleinuhrings. Óþolandi gómsætt. Ég gúffaði tveimur í mig í dag. Einni á leiðinni heim af markaðnum og annari með góðum espresso yfir tölfræðinni. Já svona er lífið spennandi í stórborginni þessa helgina.


Thursday, December 06, 2007

Södd og sæl prinsipesa nei súkkulaðihæna



Við Hrafnhildur slógum öllu upp í kæruleysi í gær og fórum í bjór og súkkulaði leiðangur til Antverpen. Ég vaknaði fyrir allar aldir, huldi þrýstinn líkamann með svörtum alklæðnað og púðraði nett nefið, setti svartan lit á þétt augnhárin, smá hárlakk í kastaníubrúnt hárið og toppaði verknaðinn með litlausu glossi á rósrauðar varirnar. Voða elegant. Strunsaði svo á brautarstöðina þar sem ég hef ekki enn komið því í verk að gera við dekkið á hjólinu mínu. Strax úfin og sveitt þegar ég hitti Hrafnhildi á sporinu. Gúffaði í mig samloku og svolgraði í mig þunnu kaffi í plastmáli í lestinni. Elegansinn sem ég hafði svo mikið fyrir strax fokinn út í veður og vind. Eftir tveggja tíma lestarferðalag vorum við komnar til útlanda.
Ég var mjög fegin að hafa hætt við að vera í stuttbuxum eins og túrista er siður þar sem það var ekki sól og hiti en Hrafnhildur var nú með derhúfuna og kortið á lofti og ég með mydavélina hangandi framan á framsettum kviðnum. Við versluðum slatta af jólagjöfum og ég verslaði mér eitt nærfatasett á sjálfa mig. Svo stikuðum við um borgina þvera og endilanga og skoðuðum það markverðasta, kastalann og ráðhúsið og kirkjuna og torgin og þið vitið svona þetta helsta. Falleg borg og fín. Það kom á óvart hvað ég fann fyrir því að Belgía er annað land en Holland. Bjóst eiginlega við að það væri eins nema bara betri bjór og súkkulaði. En þar er allt afslappaðra, húsin eru öðruvísi og það er allt svolítið skítugra (Antverpen er víst ein mest mengaða borg Evrópu) og eldra. Fannst jafnvel eins og það svifi örlítill austur-Evrópu fílingur yfir vötnum. Sem í mínum huga er hið besta mál. Eitt nei reyndar þrennt verð ég að segja er einstakt við Belgíu. Bjórinn, frönsku kartöflurnar og súkkulaðið, ó guð minn góður súkkulaðið. Við borðuðum mikið af frönskum kartöflum með mæjónesu, aaagghhh, drukkum ófá glös af belgískum eðalbjór uuuhmmm og splæstum á okkur nokkrum súkkulaði molum, aaaaaaahhh himneskt. Náðum svo að gúffa í okkur vöfflu með heitu súkkulaði áður en við hlömmuðum okkur í síðustu lest aftur til baka til Amsterdam.
Og þá og já þá fyrst hefst það sem ég segja vildi um þetta ferðalag. Veskinu var stolið af Hrafnhildi á lestarstöðinni. Algjörlega óþolandi og ömurlegt. Eeeen! Það var löggumaður í lestinni sem Hrafnhildur var svo sniðug að stoppa og ræða þetta grafalvarlega mál við. Og þvílíikur löggumaður. Þvílíkar herðar og brjóstkassi, þvílíkir leggir og þvílíkur afturendi. Við Hrafnhildur héldum þarna á tímapunkti að við værum fyrir tóma tilviljun lentar í erótískri mynd fyrir konur. Bjuggumst við píparanum í smekkbuxunum og sjóliðanum þá og þegar. En nei nei ekkert dónalegt gerðist en hann (rassinn) var hin besta sárabót eftir bömmerinn með veskið.
Í dag ætlaði ég svo að byrja í megrun eftir ofát gærdagsins og fyrir ofát jólanna. Þau plön fóru fyrir lítið þegar hollensk stúlka bauð mér í ekta hollenskan kvöldverð. Wurst og margar gerðir af kartöflustöppum og tvær tegundir af undarlegum eftirréttum. Þetta var bara alveg ótrúelga ljúffengt hjá henni. Hver hefði giskað á að wurst með kartöflustöppu, spínati, beikoni og eplamauki gæti bragðast svona vel. Hmmm ekki ég.
Bendi áhugasömum á myndir á facebookinni.
Já og elsku bestu ljúflingar, gerið mér nú greiða og skiljið eftir komment. Mér þykir svoo vænt um að fá komment.

Sunday, December 02, 2007

Góð sunnudags melankólía í rigningunni


Góðan og blessaðan sunnudaginn. Ég er búin að eiga góða helgi. Afslöppun á föstudagskvöldið. Las smásögur Anton Tsjekhov. Afar skemmtileg lesning. Í gær hitti ég 4 íslenskar stúlkur á markaðnum. Við drukkum kakó og ég keypti mér örborð. Svo fór ég í ostafondú til þýskrar skólasystur minnar. Það var nokkuð merkilegt boð. Talsvert rætt um helförina, Ísrael og Palestínu. Svo fór ég og hitti aðra skólafélaga á grísku menningarkvöldi. Sat þar að drykkju fram á morgun. Fékk svo far heim á bögglabera þar sem sprungið var á mínu hjóli. Í dag rignir mikið í Amsterdam og það virðist ekkert ætla að birta til. Og mér dettur ekki einu sinni í hug að fara út úr húsi. Þarf að lesa svolítið fyrir morgundaginn og þarf að fara að koma mér í það.
Vil benda fólki á nýjar slóðir sem ég hef verið að bæta hér inn. Fyrst ber að nefna The Sartorialist sem er götutískublogg, aðallega frá París og New York. Ég er mjög hrifin af því eftir að hafa fengið hálfgert ógeð á öllu LondonReykjavíkflippfólkinu hjá Facehunter. Svo var ég að uppgötva alveg frábært ferðablogg. Par sem verið hefur að ferðast um Butan en er nú komið til Indlands. Þau taka alveg ofboðslega fallegar myndir og það er áhugavert að lesa ferðasöguna. Svo bætti ég DD við sem er hressandi slúðurblogg. Að lokum vil ég benda fólki á Dr.Gunna, hann er klassík.