Wednesday, March 04, 2009

Fjósið og barinn

Ég vesenaðist fram á miðjar nætur sem barn í heimavistarskóla. Þegar kom að háttatíma komst ég í essið mitt. Þá kjaftaði á mér hver tuska og ég reyndi eins og ég gat að halda vöku fyrir herbergisfélögunum. Ég talaði þær í svefn. Og hlustaði á kassettutækið mitt. Dótið sem eldri systur mínar voru að hlusta á. Dire Straits og Bruce Springsteen. Pink Floyd og Supertramp. Svo Bubbi minn. Bítlarnir og Elvis, Led Zeppelin, Doors og Janis Joplin. Svo kom glysrokkið Skid Row og Poison. Quireboys. Guns 'n' Roses. Metallica. Og svo síðasta árið yndin mín í Suede. Íþróttatýpurnar Hanna og Halldóra höfðu ágætis þolinmæði fyrir þessu næturbrölti mínu og óvenjulegum tónlistarsmekk. Sofnuðu bara. Og ég vakti. Þær ruku svo upp á morgnana. Oft áður en kennarinn náði að vekja okkur. Spenntar í kornfleksið og ævintýri dagsins. Oftast þurfti hins vegar að ítreka fyrir mér að kominn væri dagur. Mér var bara alveg sama. Kornfleks og hversdagsleg ævintýri frímínútna ekki nóg til að freysta mín úr hlýrri kojunni. Nema kannski ef vera skildi föstudagur. Þá var bærilegt að fara á fætur. Heima hjá mömmu beið eitthvað gott að gúffa í sig, nýbakaðar pönnukökur eða skúffukaka. Mjólk í lítravís með. Steiktar kótilettur, svikinn héri eða ofnbakaður fiskur. Mmmamma kann að gleðja stelpurnar sínar. Ef ég var heppin átti eftir að fara í Borgarnes þá vikuna. Í Kaupfélagið. Þar ráfaði ég um og skoðaði Barbídúkkur og Andrésblöð. Gerði mig stundum heimakomna í bókadeildinni. Fór úr úlpunni settist á gólfið og las. Mömmu til talsverðar armæðu. Oft keypti hún samt handa mér Andrésblað eða Æskuna. Seinna skipti ég Andrési út fyrir Bravo svo kom Vogue og The face. Barbídúkkurnar hurfu út fyrir föt og geisladiska. Ég hætti að vera búttuð stutthærð strákastelpa sem dreymdi um fjarlægar slóðir a la Andrés Önd, ætlaði að verða vörubílsstjóri eða flugmaður til að komast út í heiminn. Varð þess í stað dreymin hengilmæna sem langaði á sama tíma að verða módel, sjúklega klár feminísk framakona eða bara áhyggjulaus alvöru rokkari. Helst Axl Rose sjálfur. Svo hékk ég heima restina af helginni. Tróð í mig mat, las og hlustaði á tónlist. Fór af skyldurækni í fjósið en lét mig dreyma um ferðalög á fjarlægar slóðir meðan ég mjólkaði beljurnar og kenndi kálfunum að drekka úr fötu.
Það hefur lítið breyst. Nema kannski að ég er hætt að fara í fjósið og fer af skyldurækni á barinn í staðinn. Mjólka yfirdráttinn og kenni kálfunum að drekka. Og læt mig nú dreyma um að komast aftur heim í sveitina. Borða mömmumat og fara bara í fjósið. Um helgina ætla ég að hanga heima. Vaka fram á nótt. Sofa út. Lesa tímarit. Hlusta á tónlist sem enginn er líka að hlusta á. Gúffa í mig. Kannski ég baki pönnukökur eða steiki kótilettur. Maður kíkir eitthvað á barinn.

6 comments:

Anonymous said...

Já þetta voru ljúfir dagar í sveitinni í gamladaga og áhyggjulausir. Það var helsta áhyggjuefnið hvort að það væri komin röðin að manni sjálfum að fara í fjósið.

Anonymous said...

Aaahhh, thetta var skemmtileg lesning

Hrólfur S. said...

Já.

Anonymous said...

Já virkilega skemmtileg lesning:)

Kveðja frá Gautaborg
Inga

Anonymous said...

Þú ert svo skemmtileg.

Kv.
Joe

Anonymous said...

Skemmtileg lesning Gunnhildur.
Það var það skemmtilegasta í heimi í gamla daga að fá að fara upp í Eskiholt og vera með stelpunum helst í maaaaaaaarga daga. Hlægja og flissa og prjóna og slúðra og fara í fjósið og flissa meira og borða matinn og kökurnar hennar Gunnu. Þá varst þú nú bara pínu peð elskan mín :-)
Njóttu þess að vera til allt til enda veraldar.
Ása Björk