Monday, August 07, 2006

Hjákonusyndromið

Við sambýliskonurnar höfum báðar fundið okkur sæta ljúfa menn sem við teljum sérlega heppilega til undaneldis. Þeir eru báðir af arabísku bergi brotnir. Jónína fór alla leið til Ítalíu til að finna sinn brúneygða gæðing en ég leitaði ekki langt yfir skammt og fann minn á bar í miðbæ Reykjavíkur. Þeir eru nú báðir örlítið gallaðir greyin (aðeins of litlir, aðeins of feitir, aðeins fatlaðir á líkama og geði, aðeins of hallærislegir) en það splittar ekki diff. Þeir eru skemmtilegir og það er bókað mál að börnin eiga eftir að verða yndislega brúneygð og bjútífúl og það þykir okkur stöllum afar mikilvægt í þessu máli. Það sem er hinsvegar mikilvægast af öllu er að þessir menn eru ekki lofaðir öðrum konum. En slíkir menn virðast ítrekað elta okkur uppi. Lofaðir eða giftir menn sem virðist þykja sjálfsagt að ungar siðprúðar konur sem sitja heima á kvöldin og prjóna gerist hjákonur þeirra. Þetta hjákonusyndrom er óskiljanlegt, óþolandi og auðvitað algjörlega ósæmandi kvenkostunum mér og Jónínu. Það má deila um það hvor okkar stendur verr að vígi varðandi hjákonusyndromið en það er hinsvegar nokkuð ljóst að Jónína stendur nokkuð betur að vígi varðandi hina nýfundnu barnsfeður okkar. Hennar er rosa hrifinn af henni og keypti handa henni blómakjól og súkkulaði. Hún þekkir hann nokkuð vel og hefur eytt talsverðum tíma með honum. Ég hef hinsvegar einu sinni hitt minn kandídat og ég tók það mjög skýrt fram við hann að ég hefði engan þannig áhuga á honum. Ég efast líka um að hann hafi mikinn þannig áhuga á mér (enda ólofaður maðurinn!). En engu að síður er ég með símanúmerið hans og lofaði að bjóða honum í pizzupartý. Aldrei að vita nema ég geti sannfært hann um barneignir með mér ef pizzan verður nógu djöfulli góð.
Kannski ég bjóði bara hinum morgunhressa og síhjólandi Mr.Zhu líka í pizzupartýið og slái þannig tvær flugur í einu höggi (sjá færslu frá 6.september 2005) .

Mér finnst Steve Buscemi svo svalur að ég gæti svei mér þá hugsað mér að vera hjákonan hans. Og þó.

4 comments:

Anonymous said...

hvað er að gerast?

Tinna said...

Þetta er full ónákvæm færsla fyrir minn smekk.

Hölt og hálfblind said...

Þetta er auðvitað með vilja gert. Skilja lesendur eftir í lausu lofti svo ímyndunaraflið geti leikið lausum hala.
Giftir menn og arabískir, hjólandi kínverjar og Hollywoodstjörnur.
Er þetta kannski allt tilbúningur eða sannara en allt satt.
Spennandi ha?

Anonymous said...

ég sat við hliðina á Steve Buchemi á jazzbar í Dubrovnik (rass við rass, ekkert minna en það). Hann er óneitanlega svalur en útlitið er á mjög gráu svæði. hann var alveg konulaus (var að chilla með Aidian Quinn) þannig að ég gæti trúað að hann vanti frekar konu en hjákonu...