Sunday, September 27, 2009

Tímamót

Í dag var síðasti dagurinn minn sem smurbrauðsdama í Amsterdam. Það var með nokkrum trega sem ég kvaddi þennan vinnustað minn til þriggja mánaða. Gott fólk og góður andinn. Góður bjórinn. Fallegur staður á besta stað. Voðalega mikið Amsterdam. Æh og svo er það bara svo erfitt fyrir strákana að sjá á eftir mér. Lífið er stundum ekki sanngjarnt. Framundan eru miklar breytingar. Ég flyt út úr íbúðinni eftir 2 daga. Þarf að pakka lífi mínu undanfarin tvö ár í kassa og koma fyrir í geymslu. Það verður erfitt. Hvaða skó á ég að taka með mér til Hong Kong. Djísúss. Á miðvikudaginn ætla ég að fara til Kölnar og gerast grúppía hjá Gus Gus í 3 daga. Köln Berlín Amsterdam. Svo ætlar Linda að verða eftir hjá mér í 3 daga. Vika í skólanum og svo Hong Kong. Þetta:


Baaaaah ég fæ aðeins í magann!

Thursday, September 17, 2009

Bob Dylan Johnny Cash-Girl from the North Country

Jessúss minn maginn á mér herpist saman ég roðna og svitna fæ gæsahúð þeir eru svo æðislegir og lagið svo fallegt

Tuesday, September 15, 2009

Allt að gerast á lokasprettinum

Nei ég sit ekki við skriftir á interneti mér og þér til yndisauka þessa dagana. Það er nóg að gera. Minna en mánuður í brottför. Ég held áfram að smyrja og er auk þess að undirbúa rannsókn og Asíuför, passa líka stundum börn. Fer í partý og hitti fólk. Ég borða á hlaupum en sest niður til að drekka bjórinn minn. Strákarnir eru að tryllast yfir mér á lokasprettinum. Bjóðandi mér í bíó og biðjandi um kjöltudans. Lýsandi yfir feimni sinni og yfirheyrandi mig um framtíðarplönin. Suma lýst mér vel á, aðra ekki. Allt í einu er ég ekki svo viss um að það sé besta hugmynd í heimi að yfirgefa Holland. Kannski ég gerist bara hollensk húsmóðir. Annars er nýjasta hugmyndin að sækja um doktorsnám í Hong Kong háskóla. Það liti allavegana vel út á ferilskránni.

Monday, September 07, 2009

Cinder-Ella

Ég er öskubuska. Með svuntu í skítugum strigaskóm með gullna lokkana í hnút. Sveitt og rjóð en þó með maskara í ámátlegri tilraun minni til að halda í pæjuna. Vaskandi upp daginn út og inn og skúrandi eldhúsið. Skerandi niður hrátt kjötfarsvúrst og lifrarvúrst í ríka Hollendinga. Færandi túristunum illa lyktandi geitarost og dýrindis hráskinskusalat. Allir hressir nema ég sem er föst í minnsta eldhúsi í heimi í 9 tíma á dag. Ég veit ekki hvort samstarfsfólk mitt fær rétta mynd af mér. Pínulítið streitt og þreytt týpa. En ég er stundum hress og virðist hafa eignast mína aðdáendur í hópi starfsfólks og fastakúnna. Aðdáandi númer eitt er kall sem kemur stundum með banjóinn sinn og fær sér sjéníver og spjallar við hina fastakúnnana. Hann starfaði eitt sinn sem tannlæknir en er nú sestur í helgan stein af heilsufarsástæðum. Hans aðaláhugamál er stjörnuspeki og andleg málefni. Ég spjallaði eitt sinn við hann á þriðja glasi. Sagði honum frá náminu mínu og sýndi vott af áhuga en aðallega efasemdir um stjörnuspeki. Hann er nú búinn að koma og lána mér bókina Neo-Astrology og ljósrit úr annarri. Kall kvölin. Aðdáandi númer tvö er litli tyrkneski barþjónninn sem ég daðraði óspart við á sjöunda glasi um síðustu helgi. Blótandi Bakkus í miklu stuði. Hann vappar nú í kringum mig og vinnur verkin mín í laumi. Spyr mig hvort ég ætli að fá mér drykk eftir vaktina en segir fátt annað við mig. Ég er bara ánægð með athyglina enda orðin langþreytt á getuleysi hollenskra karlmanna. Þeir kunna ekki að meta mig bjánarnir. En ég held að öskubuska finni glerskóinn og gullvagninn í Hong Kong. Ég er búin að ákveða að taka borgina á sexappílinu. Vera bara í kjól og háhæluðum skóm. Fólk á bara eftir að ná mér upp að brjóstum í staðinn fyrir öxlum. Bara betra view held ég. Ég ætla að vera með hárið slegið, naglalakk og bleikan varalit. Ég ætla að mæta á fínustu bari borgarinnar og láta bjóða mér í glas. Slá um mig með reynslusögum frá París, New York og Amsterdam. Ég er að hugsa um að kalla mig Diönu þarna austurfrá. Princess Diana. Eða Ellu. Cinder-Ella.

Tuesday, September 01, 2009

Farewell Amsterdam

Ég lét verða af því. Ég keypti mér miða til Hong Kong. Loksins. Ég flýg í gegnum Helsinki af öllum stöðum. Þrettánda október. Flýg til London þrettánda desember og svo þarf ég að koma mér til Íslands frá London fyrir jólin. Fram að brottför þarf ég að vinna og sinna skólanum. Ég ætla líka að reyna að sinna vinum mínum hér og borginni. Því ég er víst að flytja frá Amsterdam.