Monday, September 07, 2009

Cinder-Ella

Ég er öskubuska. Með svuntu í skítugum strigaskóm með gullna lokkana í hnút. Sveitt og rjóð en þó með maskara í ámátlegri tilraun minni til að halda í pæjuna. Vaskandi upp daginn út og inn og skúrandi eldhúsið. Skerandi niður hrátt kjötfarsvúrst og lifrarvúrst í ríka Hollendinga. Færandi túristunum illa lyktandi geitarost og dýrindis hráskinskusalat. Allir hressir nema ég sem er föst í minnsta eldhúsi í heimi í 9 tíma á dag. Ég veit ekki hvort samstarfsfólk mitt fær rétta mynd af mér. Pínulítið streitt og þreytt týpa. En ég er stundum hress og virðist hafa eignast mína aðdáendur í hópi starfsfólks og fastakúnna. Aðdáandi númer eitt er kall sem kemur stundum með banjóinn sinn og fær sér sjéníver og spjallar við hina fastakúnnana. Hann starfaði eitt sinn sem tannlæknir en er nú sestur í helgan stein af heilsufarsástæðum. Hans aðaláhugamál er stjörnuspeki og andleg málefni. Ég spjallaði eitt sinn við hann á þriðja glasi. Sagði honum frá náminu mínu og sýndi vott af áhuga en aðallega efasemdir um stjörnuspeki. Hann er nú búinn að koma og lána mér bókina Neo-Astrology og ljósrit úr annarri. Kall kvölin. Aðdáandi númer tvö er litli tyrkneski barþjónninn sem ég daðraði óspart við á sjöunda glasi um síðustu helgi. Blótandi Bakkus í miklu stuði. Hann vappar nú í kringum mig og vinnur verkin mín í laumi. Spyr mig hvort ég ætli að fá mér drykk eftir vaktina en segir fátt annað við mig. Ég er bara ánægð með athyglina enda orðin langþreytt á getuleysi hollenskra karlmanna. Þeir kunna ekki að meta mig bjánarnir. En ég held að öskubuska finni glerskóinn og gullvagninn í Hong Kong. Ég er búin að ákveða að taka borgina á sexappílinu. Vera bara í kjól og háhæluðum skóm. Fólk á bara eftir að ná mér upp að brjóstum í staðinn fyrir öxlum. Bara betra view held ég. Ég ætla að vera með hárið slegið, naglalakk og bleikan varalit. Ég ætla að mæta á fínustu bari borgarinnar og láta bjóða mér í glas. Slá um mig með reynslusögum frá París, New York og Amsterdam. Ég er að hugsa um að kalla mig Diönu þarna austurfrá. Princess Diana. Eða Ellu. Cinder-Ella.

4 comments:

Anonymous said...

Mér líst ótrúlega vel á þetta.

Brynja

Linda said...

Hvað er eiginlega að þessum Hollensku karlmönnum??? Líst ótrúlega vel á þetta plan ... hvað ætlar þú að vera lengi þarna í Hong Kong?

Hölt og hálfblind said...

Aeh teir eru bara ludar blessadir.
Eg aetla ad vera i 2 manudi. En er reyndar ad vonast til ad eyda svona eins og tveimur vikum af tessum tveimur manudum i Vietnam :) Stud og laeti.
Svo aetla eg ad stoppa i London a leidinni heim fyrir jol. Tad vaeri nu gaman ad hitta tig tar Linda studbolti ;)

Fanney said...

Líst vel á þig, Ella! Þetta minnir mig á að senda þér Víetnam-tips en efst í huga mér er Hanoi og Halong Bay (mjög nálægt Hanoi) þar sem er fínt að sigla um og jafnvel gista á bátnum. Svo gætirðu ferðast niður til Hoi-An og jafnvel alla leið niður til Hoh-Shi-Minh/Saigon en hún er þó ekkert möst.