Wednesday, May 27, 2009

Pósthús

Ég er að leita mér að vinnu í Amsterdam fyrir sumarið. Leitin hefur ekki gengið vel hingað til. Ég kann ekki hollensku og fólki finnst það vandamál. Vitleysingar. En nú bind ég miklar vonir við að fá vinnu við að bera út póst. Eins og er væri það draumastaðan. Vera bara úti að hjóla með póst og þurfa ekki að tala við neinn. Mig hefur alltaf langað að vinna hjá póstinum eftir að ég las Post Office Bukowskis á mínum yngri árum. Góð bók. Fyrir þá sem ekki vita er bókin um Bukowski sjálfan þegar hann vann hjá póstinum í fjöldamörg ár. Hann hefur engan metnað, drekkur eins og svín og sefur hjá eins og enginn sé morgundagurinn. Alltaf blankur og óhamingjusamur. Ástin í lífi hans er 11 árum eldri ekkja sem drekkur líka eins og svín. Hann hættir loks hjá póstinum og skrifar þessa stórkostlegu sögu og margar fleiri. Verður ódauðlega hetja. Ég sé mig alveg fyrir mér metnaðarlausa og fulla í sumar. Snilldin kemur seinna. Ég hef áður tekið svona metnaðarleysisköst. Þau eru hressandi. Einu sinni réð ég mig til starfa í nærfataverslun í Kringlunni. Þá var minn eini metnaður að vera alltaf í samstæðum nærfötum. Það gekk vel enda tók ég launin mín út í rándýrum lúxussettum. Entist í 3 mánuði. Bakaríið var ógleymanlegt. Við vinkonurnar nýskriðnar úr menntaskóla og höfðum mikinn metnað fyrir því að vera fullar. Mættum á Grand Rokk á mánudagskvöldum með ostaslaufur í poka, staðráðnar í að fá að djamma í miðri viku. Mættum svo þunnar í háskólabakaríið og tístum yfir sætu fastagestunum. Hættum eftir 2 mánuði af því að við þurftum að vera í svo ljótum svuntum og máttum ekki hlusta á útvarpið. Mánuðirnir á Tryggingastofnun eru líka sérlega eftirminnilegir. Ég get enn þann dag í dag ekki almennilega útskýrt hvert hlutverk mitt var. Þetta var bara svona skrifstofuvinna. Ég sat á bás með græna skilrúmsveggi í kringum mig og vann svona eitthvað í tölvunni. Svaraði stundum í símann. Oftast var ég búin að öllum mínum verkefnum fyrir hádegi en ríkisstarfsmanninum bar að sitja við borðið sitt í 8 tíma á dag. Stimpla sig inn og út. Þá byrjaði ég að blogga. Og borðaði skyndibitamat á Hlemmi. Góðir tímar. Ég er bara farin að hlakka til að vinna eftir þessa upprifjun. Vinnan göfgar manninn já já.

5 comments:

Breezer said...

Ú-je!

Fanney said...

Rokkhetja! Get ekki bedid eftir bokinni.

Dísa said...

hahahah.... þú ert alveg algjör snillingur kæra systir;-)

Dísa said...

Ertu nokkuð byrjuð hjá póstinum?
Móðirsystir Rúnars var nefnilega að fá jólakort frá Amsterdam sem er dagsett 1935 frá pabba sínum sem dó 1956. Það komst sem sagt til skila í gær. Hélt kannski að þú værir byrjuð og værir í því að rusla út gömlum pósti sem hefði dagað uppi:-) svo rösk alltaf

Sjúl said...

Mér líst vel á þetta plan, bera út póst á daginn, og jafnvel skrifa á kvöldin semi skáldaða sjálfsævisögu. Ég myndi kaupa bókina, hiklaust.