Saturday, April 04, 2009

Erlendis og international.

Lífið er svona eins og það er. Ég er flutt í nýja íbúð, búin að skila inn fyrsta drafti af masters skýrslunni minni, er blönk en hamingjusöm. Það er búið að vera nóg að gera og spennandi tímar framundan. En það sem skiptir auðvitað mestu máli er að ég átti afmæli í gær. Og guðirnir ákváðu að vera svo almennilegar að gefa mér þvílíka sumarblíðu og gleði í afmælisgjöf. Ég átti hreint út sagt frábæran afmælisdag. Byrjaði á að sofa út (sem er nú svo sem ekkert nýtt) og fór svo í klippingu (sem er mjög nýtt því ég hef ekki farið í ár). Hjólaði svo nýklippt í sumarkjól á markaðinn í nýja hverfinu mínu. Spókaði mig þar um í einhverri brjálæislegri hamingjuvímu þrjátíuogtveggja ára konan. Ein. Keypti tvö kíló af jarðaberjum og nokkrar flöskur af freyðivíni. Bakaði svo franska súkkulaðiköku og skar jarðaber í sólinni á svölunum. Vinir komu í heimsókn og drukku bubblí og borðuðu súkkulaðiköku og jarðaber. Ég á orðið marga og góða vini í Hollandi. Það er gaman. Gott að eiga gott fólk. En já já jú jú ég er flutt í nýja íbúð í nýtt hverfi. Það er sjúklega fínt. Fín íbúð í fínu hverfi. Íslendingar myndu kannski margir ekki kunna að meta hverfið eða íbúðina. Ekkert upphengt klósett eða náttúruflísar á baðinu, eldhúsinnrétting úr plasti síðan 1989, þriðja hæð og engin lyfta. Í hverfinu eru töluð 100 tungumál. 101 núna. Mikið af konum sem hylja hár sitt og hverfisbúðin selur bara tyrkneskar vörur og halal kjöt. En ég er svo mikið erlendis orðin. Meginlands svona!

2 comments:

Hrólfur S. said...

mmmm...

Anonymous said...

Til hamingju með nýja íbúð, nýtt hverfi, nýja klippingu og ekki sýst til hamingju með afmælið mín kæra. Á hjóli í góðu veðri í fallegri borg. Ég skil hamingjuvímuna vel.
Afmælis og hamingjukossar til þín
Fríða