Tuesday, November 04, 2008

Spennandi sjénsar og pakk

Ég lenti á sjéns í síðustu viku. Tvisvar.
Fyrst með 67 ára leigusalanum, eða öllu heldur föður leigusalans. Hann kom hérna við til að sækja póst dótturinnar sem býr hér allajafna. Ég var á kafi í ritgerðarsmíð. Sveitt. Í múderingu. Klædd munstróttum pakistanabuxum sem ég keypti í herrafataverslun í Marokkósku hverfi í Utrecth og hnésíðri íslenskri lopapeysu með skræpóttan silkiklút um hálsinn. Hárið klílstrað í hnút í hnakkanum. Með maskara og varalit og ekkert mjög bólótt. Maðurinn ætlaði ekki að komast yfir það hvað honum fannst ég glæsileg. Tönnlaðist á því. Hann er mjög sjarmerandi þó gamall sé. Á tvö kornung börn með núverandi konu sinni. Hann dauðlangaði til að búa til fleiri með þessari skrautlegu skrítnu konu sem mætti honum í íbúð dóttur hans.
Svo lenti ég á heilmiklum sjéns með manninum sem seldi mér hjólið. Hjólgarmurinn var nebblega ekki eins fullkominn og í fyrstu var haldið. Eða jú jú, afturdekkið varð bara ítrekað flatt. Ég þurfti því að fara með það oftar en einu sinni til hasshaussins hressa sem seldi mér það. Einkar glæsilegur rauðbirkinn maður með svolítið brenndar tennur og jónuna í munnvikinu, alltaf. Hann hélt því fram að það væri sérstakt kemmistrí á milli okkar. Það hlyti að vera ástæða fyrir því að ég væri send ítrekað til hans. Hann stakk upp á því að við færum saman út að borða. Ég útilokaði það ekki.
Síðustu sjénsar hjá mér eru í tímaröð:
1. 21 árs gullfallegur persneskur metrómaður, hugsanlega, líklega samkynhneigður
2. 67 ára giftur sjarmerandi gamall kall sem er greinilega mikið fyrir yngri konur
3. Rauðbirkinn hasshaus á besta aldri (44) með traustar tekjur (það þurfa allir hjól í Hollandi) sem bauð mér út að borða
Ég er rosa spennt að sjá hvaða spennandi sjénsar bíða mín komandi daga og vikur. Kannski lendi ég á sjéns með kaþólskum presti eða dverg.

Nú er evran komin upp í 164. Það er helmingi hærra en fyrir ári síðan þegar ég flutti út. Mig langar mest að telja upp öll blótsyrði sem ég kann, hita þau upp í stórum potti og hella þeim sjóðandi yfir liðið sem stóð fyrir þessu öllu saman. Bæta út í til bragðbætingar dass af löðrungum. Bera þetta fram með salati af spörkum í pung, smá hártogi og poti í auga. Pakk pakk pakk. Pakk. Siðblint gráðugt pakk.

Annars er ég bara hress sko.

1 comment:

Anonymous said...

Gott að heyra að peysan kemur að góðum notum. Ekki lýst mér nú á piltana atarna. Og já það er með ólíkindum hvernig siðblinda liðið hefur hegðað sér og sennilega ekki helmingurinn kominn í ljós ennþá.
Sigrún