Tuesday, December 30, 2008

Gvöð hvað ég hlakka til.

Ég skrifa á næsta ári. Ég lofa. Djöfull ætla ég annars að hrinjíða um áramótin. Þamba kampavín fram að hádegi fyrsta janúar. Skipti yfir í landa ef sjampóið þrýtur. Ekkert betra en að eyða fyrsta degi nýs árs í viðbjóðslegri þynnku og þunglyndi. Með líkamann þakinn sogblettum og marblettum, sálina þakta þykkum svörtum blettum og muna helst ekki neitt. Góða skemmtun ég sjálf.

Monday, December 15, 2008

Maður gerir margt gagnlegt í próflestri.

Heiðrún frænka er líka í prófum og fann þessa líka fínu mynd af mér. Tekin í L.A. 2006.


Nú og svo fann ég þessa mynd af henni á blogginu hans J.T.


Þessa fann ég í ókunnu myndaalbúmi á facebook.


Gamanaðessu!

Læra læra læra svo koma jólin

Ég hlakka svo til að fara heim og hitta alla. Byrjar vel. Partý, jólahlaðborð og afmælisboð innan 24 tíma frá því ég kem heim. Ég hlakka svo til að komast í sund. Jessúss minn. Synda, pottur, gufa. Fara í sveitina og borða hangikjet. Drekka kaffi og borða smákökur með mömmu. En fyrst þarf ég að læra fyrir próf og skrifa eina skýrslu. Nenni því ekki. Er þreytt, þurrausin. En bráðum koma blessuð jólin.

Saturday, December 13, 2008

The intellectual!

Ég skrifa ekkert. Ég bara nenni því ekki. Þarf að læra. En bráðum koma jólin og þá fer ég heim. Sem er gaman. Svo kemur nýtt ár. 2009. Þá lofa ég að skrifa meira. Mynd. Ég í síðasta tíamanum mínum.

Sunday, November 30, 2008

Hress. Hross.

Ég er massahress. Var á hestbaki á risahesti. Sjúklega gaman. Myndir.



Ógeðslega spennt á lestarstöð á leiðinni



Já ég er orðin borgardama sem fer á hestbak í pilsi!



Sokki, hesturinn minn. Hávaxinn og spengilegur. Pínulítið ógnvekjandi.



En á bak fór ég og fetaði og brokkaði og stökk með honum um holt og hæðir í tvo tíma.



Sokki minn kominn í básinn sinn. Huggulegt með teppi og svona. Við vorum mjög ánægð hvort með annað.

Sunday, November 23, 2008

Matarboð

Ég nenni ekkert að skrifa þessa dagana. Ætla þess vegna bara að birta myndir. Hér eru myndir frá jólakósí matarboði hjá Hrafnhildi og Thijs í Utrecht í gærkvöldi.


Gestgjafarnir



Sjampó og suðrænir ávextir



Moi



Sætu kisurnar þeirra


Jólastemmning

Saturday, November 22, 2008

Kósí við kanalinn

Jahá það er kósí við kanalinn. Ég drekk kaaaffi með keeerti og les Vogue. Borða síðbúinn morgunverð, kaffi, brauð, ost, sultu og appelsínusafa.


Morgunverður


Meyjarskemman


Strike a pose, Vogue

En nú þarf ég að fara að hrækja veglegri slummu í lófana. Nóg sem liggur fyrir áður en ég held heim á leið eftir fjórar vikur.

Monday, November 17, 2008

Sunday, November 16, 2008

Rólegt

Það hefur verið óvenju rólegt hjá mér undanfarið. Verið prjóna þema hjá mér. Kertaljós og rólegheit. Horft á stórslysamyndir í sjónvarpinu. Ísöld og eldgos. Lært það sem ég hef þurft að læra. Sleppt því að djamma. Bakað brauð, farið á markaðinn, borðað ost og súkkulaði. Stundum út að hlaupa. Ætli þetta verði ekki bara svona fram að jólum. Gott. Mikið hlakka ég annars til jólanna.

Monday, November 10, 2008

messa og sirkus

Já ég eyddi helginni heima. Lesa, læra, dást að Bruce Springsteen á Youtube. Passaði eitt barn. Keypti mér gular liljur. Bakaði brauð og bjó til pitsu. Mjög ljúft. En ég hitti auðvitað enga álitlega dverga þegar ég hangi bara heima. Hvað þá kaþólska presta. Kannski ég skelli mér í messu um næstu helgi og sirkus.

Thursday, November 06, 2008

Betra líf

Mér þykir fólk ekki vera sérstaklega áhugasamt um ástarlífið mitt. Það er kannski ekki nógu krassandi. Hversdagslífið er það hinsvegar. Í dag til dæmis vaknaði ég klukkan 10:00. Snúsaði til 10:30. Fór þá fram úr og bjó mér til espressó kaffi, eldaði hafragraut og hrærð egg. Horfði á euronews meðan ég borðaði þetta. Í fréttum var Obama. Nú svo settist ég í kósíhornið klukkan 12:00 og las grein um need to belong. Smabýliskonan kom fram klukkan 13:00. Ég spjallið við hana, hitaði vatn og fékk mér grænt te og las áfram. Klukkan 15:00 fór ég á barinn hinum meginn við kanalinn og drakk kaffi með þýska hommanum og serbnesku sambýliskonunni. Við ræddum skólann, óléttur, kynskiptiaðgerðir,síðustu helgi og komandi helgi. Kósí stund með krökkunum. Nú svo hjálpaði ég sambýliskonunni að setja keðjuna á hjólinu hennar aftur á sinn stað. Fór svo í búðina og keypti í matinn, ost, mandarínur, tvær gerðir af ávaxtasafa, rósavínsflösku, ferska basilíku, tómata, hafrakex, bíólógíska mjólk og jógúrt, túnfisk, ger. Fór heim og fékk mér heimabakaðar brauðbollur með osti og berjasafa. Tvær mandarínur í eftirrétt. Kveikti á kerti og setti Sonic Youth á fóninn. Las tvær vísindagreinar. Klukkan orðin 20:00. Út að skokka með Pál Óskar í eyrunum. Hann er alltaf jafn hress. Hljóp í Vondelpark. Hvaða fræga söngkona bjó aftur þar sem dópisti og útigangskona? Heim aftur. Lyfti handlóðum og gerði magaæfingar og teygði á. Hitaði upp pastaréttinn síðan í gær, bætti við ferskri basilíku og parmesanosti. Settist við tölvuna og skrifaði þessa æsispennandi lýsingu á deginum. Klukkan er nú 21:30. Þarf að lesa einn kafla um social identity motives in evolutionary perspective fyrir morgundaginn. Ætla að gera það og fá mér jógúrt í eftirmat. Svo þarf ég að baða mig, prjóna kannski smá fyrir háttin eða lesa mér til yndis. Hefði þurft að lesa miklu miklu meira í dag. En svona gengur þetta

Tuesday, November 04, 2008

Spennandi sjénsar og pakk

Ég lenti á sjéns í síðustu viku. Tvisvar.
Fyrst með 67 ára leigusalanum, eða öllu heldur föður leigusalans. Hann kom hérna við til að sækja póst dótturinnar sem býr hér allajafna. Ég var á kafi í ritgerðarsmíð. Sveitt. Í múderingu. Klædd munstróttum pakistanabuxum sem ég keypti í herrafataverslun í Marokkósku hverfi í Utrecth og hnésíðri íslenskri lopapeysu með skræpóttan silkiklút um hálsinn. Hárið klílstrað í hnút í hnakkanum. Með maskara og varalit og ekkert mjög bólótt. Maðurinn ætlaði ekki að komast yfir það hvað honum fannst ég glæsileg. Tönnlaðist á því. Hann er mjög sjarmerandi þó gamall sé. Á tvö kornung börn með núverandi konu sinni. Hann dauðlangaði til að búa til fleiri með þessari skrautlegu skrítnu konu sem mætti honum í íbúð dóttur hans.
Svo lenti ég á heilmiklum sjéns með manninum sem seldi mér hjólið. Hjólgarmurinn var nebblega ekki eins fullkominn og í fyrstu var haldið. Eða jú jú, afturdekkið varð bara ítrekað flatt. Ég þurfti því að fara með það oftar en einu sinni til hasshaussins hressa sem seldi mér það. Einkar glæsilegur rauðbirkinn maður með svolítið brenndar tennur og jónuna í munnvikinu, alltaf. Hann hélt því fram að það væri sérstakt kemmistrí á milli okkar. Það hlyti að vera ástæða fyrir því að ég væri send ítrekað til hans. Hann stakk upp á því að við færum saman út að borða. Ég útilokaði það ekki.
Síðustu sjénsar hjá mér eru í tímaröð:
1. 21 árs gullfallegur persneskur metrómaður, hugsanlega, líklega samkynhneigður
2. 67 ára giftur sjarmerandi gamall kall sem er greinilega mikið fyrir yngri konur
3. Rauðbirkinn hasshaus á besta aldri (44) með traustar tekjur (það þurfa allir hjól í Hollandi) sem bauð mér út að borða
Ég er rosa spennt að sjá hvaða spennandi sjénsar bíða mín komandi daga og vikur. Kannski lendi ég á sjéns með kaþólskum presti eða dverg.

Nú er evran komin upp í 164. Það er helmingi hærra en fyrir ári síðan þegar ég flutti út. Mig langar mest að telja upp öll blótsyrði sem ég kann, hita þau upp í stórum potti og hella þeim sjóðandi yfir liðið sem stóð fyrir þessu öllu saman. Bæta út í til bragðbætingar dass af löðrungum. Bera þetta fram með salati af spörkum í pung, smá hártogi og poti í auga. Pakk pakk pakk. Pakk. Siðblint gráðugt pakk.

Annars er ég bara hress sko.

Thursday, October 30, 2008

Sko...

stelpurnar okkar
vinstri græna
mig, sem prjónaði eins og vindurinn í dag

Tuesday, October 28, 2008

The show must go on

Ég byrjaði í nýjum kúrsi í dag,Group life, annar á morgun, Leadership. Hef tekið að mér tvö barnapíustörf. Passa tvö lítil tvo morgna í viku. Þau eru voða krúttleg og svakalega ánægð með mig. Mamman líka sem er kasólétt heimavinnandi ofurkona. Lítils hálf fransks drengs ætla ég svo að gæta eitt kvöld í viku. Ég þreif íbúðina hátt og lágt í kvöld. Er svo farin að taka við pöntunum á ullarpeysum. Þrjár búnar að panta. Mig vantar bara lopa. Gengur enn ekkert með markmið númer eitt. Ég gaf sæta post doc gaurnum sem lítur út alveg eins og Stuart Staples samt mjög djarft lúkk í skólanum í dag. Hann tjékkaði þokkalega á mér á móti. Honum finnst ég sæt. En hann á konu. Djöh. Þeir eru allir annaðhvort fráteknir, barnungir, ævafornir eða þrælöfugir. Spurning um að hætt að vera svona pikkí. Held ég reyni samt að láta þessa fráteknu og öfugu vera. Mér hefur nú svo sem ekki gengið sérstaklega vel með það hingað til. Hefur eiginlega verið mitt spesíalítet að falla fyrir fráteknum og hommum. Og þetta lið getur auðvitað ekki látið mig í friði. "Bara ef ég væri ekki samkynhneigður, Gunnhildur, þá.....þá værum við sko par...þú ert svo falleg og frábær" Jeh jeh jeh. "Ég vildi að kærastan mín væri jafn skemmtileg og þú Gunnhildur" Jeh jeh. "Þú ert miklu betri í rúminu en kærastan mín" WHAT!

Monday, October 27, 2008

Jibbí jóh jibbí jeih

Ég er kengbogin, bólótt, sveitt og föl en jibbícola jibbícola jibbícola. Var að skila inn lokaritgerð. Tveir kúrsar eftir í þessu prógrammi. Don't fucking believe it maaðuuur! Bráðum koma blessuð jólin og þá verð ég búin með alla mína kúrsa. Þá verður sko tilefni fyrir fjórfalt jibbícola og sjöfalt jólakóla. Ég fagnaði fyrirfram. Það var alveg svona gaman á föstudaginn. Ég skemmti mér vel í félagsskap barnungra sálfræðinörda. Þeir héldu fyrir mér vöku fram á rauðan morgun. Hvorki ástarmök né örvandi eiturlyf komu þar við sögu. Ég gleymdi að fara í flegnum kjól. Gaman engu að síður.

Thursday, October 23, 2008

Góður dagur, góða nótt.

Ég er dauðuppgefin. Það tekur á að passa börn og hjóla. Bæði gaman. Gaman að leika sér. Gaman að hjóla, hreyfa sig. Gott að vinna fyrir peningum, alvörupeningum, evrum. Snemma að sofa í kvöld. Barinn á morgun. Ég ætla í fleygnum bol. Eða stuttu pilsi. Eða bæði. Góða nótt.

Wednesday, October 22, 2008

Klár strákur og hjól

Ég keypti mér hjól í dag, jiihúú! Það er stórt, svart, með fótbremsu, engum gírum, körfu, traust, gamalt, fullkomið.
Á morgun byrja ég að passa börn, jiif......hú! Það verður bara fínt held ég. Ég kann vel við börn og þau kunna vel við mig. Litli 3 ára strákurinn kunni sérstaklega vel við mig þegar ég fór og hitti fjölskylduna. Hann spurði mig ekki síður út úr en móðirin. Hann spurði mig m.a. hvort ég ætti lítinn strák heima. Þegar ég sagði að svo væri ekki, ég ætti engin börn, spurði hann af hverju. Ég sagði að það væri af því að ég ætti engan eiginmann. Honum fannst ekki að það ætti að vera fyrirstaða fyrir því að eignast börn. Klár strákur. Svo spurði hann hvernig stæði á því að ég ætti ekki eiginmann. Fannst það mjög skrítið. Mjög klár strákur. Mig langaði svolítið að útskýra fyrir honum að mig langaði svo sem ekkert sérstaklega í eiginmann að svo stöddu, elskhugi væri alveg nóg í bili. Elskhugi væri líka alveg nóg ef mig langaði virkilega í barn. Ég sleppti því. Ég útskýri þetta kannski fyrir honum seinna, þegar foreldrarnir verða ekki viðstaddir.

Tuesday, October 21, 2008

Mér leiðist.

Ég geri samt ekkert í því. Ég læt mér leiðast. Það er ekki nógu gott.
Meira en nóg að gera svo sem. Ég er búin að ráða mig sem barnapíu. Byrja á fimmtudaginn.
Nóg að gera í skólanum, var með fyrirlestur í dag og annan í gær. Gekk vel. Þarf að skrifa eitt research proposal í þessari viku. Svo byrja ég í tveimur nýjum kúrsum í næstu viku. Þegar þeir klárast í desember verð ég búin með alla kúrsana mína. Ótrúlegt. Þarf svo að klára mastersverkefnið og gera aðara rannsókn sem intern. Þá verð ég búin. Mig grunar nú að þetta muni dragast eitthvað á langinn hjá mér. Ætti að klára í júní en stefni á næsta haust. Hvað gerir maður þá? Flytur til Tálknafjarðar eða Tokyo? Ég hef á hvorugum staðnum búið.

Sunday, October 19, 2008

Fúl kisukona

Ég lýsi því yfir að ég ætli sko að redda kynlífskreppunni einn tveir og bingó. Eyði svo helginni ein með köttum og amerískri þáttaröð um ungt fólk í makaleit. Ég var í Utrecht að passa kisur. Horfði á 30 þætti af How I met your mother. Kisukona. Sleppti meira að segja partý á laugardaginn og lærði mest lítið því ég þurfti svo mikið að horfa á sjónvarpið. Ég held þetta hafi samt gert mér gott. Ég var komin með ógeð á fólki í síðustu viku. Lét alla fara sjúklega í taugarnar á mér. Nei reyndar bara þýsku stelpuna sem heldur að hún sé miskunsami samverjinn en ráðskast svo með allt og alla eins og þýskur einræðisherra. Og svissneska kærasta sambýliskonunnar. Við skiljum ekki hvort annað. Hann skilur ekki húmorinn minn og við bara getum ekki talað saman. Þessar tvær manneskjur sanna að það er alltaf einhver sannleikur á bak við steríótýpur. Húmorslausi Svisslendingurinn og stjórnsami Þjóðverjinn. Þau eru samt ágæt greyin. Ég þurfti bara frí frá þeim og öðru fólki. Fúl kisukona. Ég ætla að lesa yfir markmiðin mín sem sneggvast.

Friday, October 17, 2008

Persneskur metrómaður

Ég stóð sjálfa mig að því að óska þess að ég væri tvítug í gær. 21, lítil og mjó ekki 31, há og þrýstin. Ég var að tala við svo sætan strák. Persneskan metrómann. Með hairdo dauðans, í tískuátfitti. En með fallegustu augu sem ég hef á ævi minni horft í. Honum fannst ég rosa sniðug. Brosti svo fallega og hló að bullinu sem rann upp úr mér. Þegar hann spurði hvað ég væri gömul og ég sagði honum að ég væri 31 sagði hann "VÁ" og svo að hann væri 21. En ætli hann sér hvort sem er ekki hommi. Það er ekki gott að segja með þessa ungu menn í dag. Með sína eyrnalokka, í bleikum skóm, með gelaðar hárgreiðslur og í þröngum buxum. Nett stelpulegir svona. Kallar með ýstru og skalla betri. Ég veit það ekki.

Wednesday, October 15, 2008

Ég óttast meira að ekkert muni breytast en að allt muni breytast

Mér finnst líklegt að ég kjósi Vinstri græna næst. Og það er ekki af því að mér finnst Ögmundur kynþokkafullur (það spillir hinsvegar ekkert fyrir).
Af hverju er Davíð ekki hættur? Rekinn? Hann er eins og þrjóskur einræðisherra. En af því við búum við lýðræði þá gat hann ekki verið forsætisráðherra endalaust. En hann þarf að fá að stjórna, pota sínum feitu illa lyktandi puttum í allt og allt. Og frjálshyggjuliðið mænir enn upp til hans. Af hverju er hann ekki rekinn. Hann myndi samt trúlega bara bregðast við eins og Fóstbræður. Ha, drekinn!
Annars er ég að spá hvað frjálshyggjuliðið er almennt að hugsa þessa dagana. Ég óttast að þessir ríku pabbastrákar og mömmustelpur haldi bara sínu striki. Finni blóraböggla. Bölvi Bretum. Velferðakerfið er í fínum málum eftir góðærið. Djöfull verð ég reið.

Fyrir Brynju (og okkur allar bara)

Tuesday, October 14, 2008

Woman on a mission

Ég er kona með skýr markmið. Það má jafnvel segja að ég sé on a mission.

1. Meiri ástarmök
2. Finna mér vinnu
3. Vera glöð
4. Vera massa dugleg í skólanum
5. Vera meira glöð og að sjálfsögðu svolítið gröð

Ég ýtreka enn og aftur að leit mín að vinnu og meira kynlíf þýðir ekki að ég sé að fara að selja mig.
Ég vann í þessu öllu í dag. Daðraði við mann í skólanum. Sótti um barnapíustarf. Var bara mjög glöð þrátt fyrir að hafa hóstað í alla nótt og því mest lítið sofið og vaknað grautfúl og þunglynd. Afrekaði margt og mikið í skólanum. Er glöð og gröð.

Maður þarf og á auðvitað ekkert að vera að blogga um ástandið þegar Dr.Gunni segir nákvæmlega allt sem segja þarf. Mér finnst að hann eigi að verða næsti forseti Íslands.

Monday, October 13, 2008

Átak: Skref 1

Ég er byrjuð í átakinu. Byrja rólega. Sat að sumbli og talaði um kynlíf við þá grísku og serbnesku í kvöld. Niðurstaða. Það er þjóðsaga að karlmenn hafi almennt meiri áhuga á kynlífi en konur. Ég var svo sem löngu búin að komast að þessu en fékk svona alþjóðlega staðfestingu núna. Ég þekki æði margar konur sem kvarta sáran yfir áhugaleysi kærastanna á kynlífi og þetta virðist ekki vera sér norrænt fyrirbæri. Konur eru almennt mjög áhugasamar um kynlíf, vilja mikið af því. Karlmenn eru líka almennt mjög áhugasamir um kynlíf en vilja oft og tíðum minna af því en konur. Ég segi oft og tíðum. Þetta er ekkert algilt. En er niðurstaða engu að síður.

Sunday, October 12, 2008

Sex and the university

Ég er að hugsa um að breyta nafninu á blogginu í: Sex and the university. Koma með eitthvað svona hressandi á þessum síðustu og verstu. Verst að það er hálfgerð kreppa í kynlífinu. Kynlífskreppa hljómar kannski ekkert betur en fjármálakreppukjaftæðið. Ég get þó allavegana gert eitthvað í kynlífskreppunni. Og það er án efa meira hressandi að skrifa um þær aðgerðir en hinar. Nú er stefnan sett á kynlíf fyrir lok vikunnar, njeh eða kannski mánaðar......, ársins kannski. Fullt af kynlífi fyrir árslok.

Friday, October 10, 2008

Fríkað út slakað á

Ég rembist eins og rjúpan við staurinn að fríka ekki út. En hvað getur maður gert. Auðvitað blótar maður, brjálast, hlær móðursýkislega, grætur, drekkur, er andvaka, slær þessu upp í kæruleysi, reynir að hugsa um eitthvað annað. Rembist og rembist við að einbeita sér bara að náminu. Breytir plönunum sínum. Núna er planið að finna mér vinnu með skólanum sem allra allra fyrst. Vonandi verð ég farin að skenkja bjór á bar um næstu helgi, flóa mjólk oní útúrtaugaða bankamenn, passa ameríska gríslinga, bera út póst eða bara whatever. Ég held ég leigi mér samt seint herbergi í rauða hverfinu. Ég útiloka þó ekki hasshús. Einhvernvegin þarf ég að fá eitthvað aðeins fleiri evrur í vasann til að þrauka. Annars á ég alveg fyrir mat og leigunni um næstu mánaðarmót. Maður hefur svo sem alltaf verið blankur. Tæpur. Reddað sér. Ég hef trú á að þetta reddist líka núna. Ég get unnið. Ég er ung og hress. Hver veit nema ég fari bara til Hong Kong næsta haust. Finni pínulítinn kínverskan draumaprins á hvítri Hondu. Ég ætla að uppfæra CVið mitt. Fara svo í bað. Slaka á.

Thursday, October 09, 2008

Tuesday, October 07, 2008

Þetta helst

Ég er að safna hári. Prjóna teppi. Þó ekki úr hárinu.
Ég er hætt við að fara til Hong Kong. Og þó. Sjáum hvað setur.
Litla kisa var með orma. Hún er búin að fá ormameðal. Grey kisa.
Ég drakk bjór á bát um síðustu helgi. Um næstu helgi ætla ég að horfa á landsleik í fótbolta. Ísland-Holland. Go Gudjohnsen!
Ég er ekki enn búin að fá mér hjól. Framtaksleysið gífurlegt.
Ég læri og læri. Er ekki næstum því eins stressuð og í fyrravetur. Er bara soldið streitt núna, ekki brjálæðislega streitt eins og í fyrra.
Ég kem heim um jólin. Ætli maður gefi ekki bara eitthvað matarkyns þetta árið. Ávexti handa börnunum og ólífuolíu, krydd og sojasósu handa þeim fullorðnu. Munaðarvöru sem ekki fæst á skerjum í kreppu.

Thursday, October 02, 2008

Og svo byrjaði að rigna

Hanna Lind móðir í Lundúnum bað mig um að svara þessum spurningum, klukkaði mig. Mér hefur alltaf þótt þetta klukk alveg megahallærislegt. En ég svara þessu engu að síður með glöðu geði.

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
+Bakarísdama
+Sörvetrína
+Næturvörður
+Nektardansmær (neeei ekki sko, passaði bara svo vel við hin störfin, ég hef aldrei komið nakin fram (opinberlega), verð því að segja Skrifstofublók)

Fjórar bíomyndir sem ég held upp á:
+Brokeback Mountain
+In the mood for love
+Annie Hall
+Sex and the city. The movie


Fjórir staðir sem ég hef búið á
+New York
+París
+Amsterdam
+Borgarfjörður eystri (og bráðum, kannski, vonandi, trúlega Hong Kong)

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar
+Little Britain
+Fóstbræður
+Beðmál í borginn
+Vinir

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríium:
+Suðursveitin
+Borgarfjörðurinn
+Hornstrandir
+Þórsmörk

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg
+ mbl.is
+ facebook
+ myspace (nú undanfarið FM Belfast, MGMT, CSS, Motion Boys, M.I.A., Of Montreal, Sebastien Tellier)
+ ordabok.is

Frent sem ég held upp á matarkyns:
+stroop waffles
+poffertjes
+oliebollen
+pönnukökur a la Gunna Gests

Fjórar bækur sme ég hef lesið oft:
+Óbærilegur léttleiki tilverunnar-Milan Kundera
+Englar alheimsins-Einar Már Guðmundsson
+New York Trilogy-Paul Auster
+Discovering statistics using SPSS-Andy Field

Fjórir bloggarar sem ég klukka:
+Óli Stef (reyndar löngu hættur að blogga en hann byrjar kannski bara aftur þegar hann sér að ég hef klukkað hann)
+Össur Skarphéðinsson
+Hrólfur Salieri
+Ögmundur Jónasson (bloggar nú trúlega ekki, en hann byrjar kannski til að geta orðið við klukkinu mínu, hvað með Óla R.G. ætli hann sé með blogg)

Tuesday, September 30, 2008

Sykur, rjómi, smjör


Í dag borðaði ég poffertjes. Guðdómlegar hollenskar mínípönnukökur með flórsykri og smjöri. Í gær borðaði ég sykurhúðaðar rjómafylltar vantsdeigsbollur. Í fyrradag borðaði ég glassúrhúðaða kleinuhringi. Daginn þar á undan borðaði ég gómsætar smjördeigs eplaskífur.................

Monday, September 29, 2008

Opal

Ég gleymdi nördaskapnum um stund á föstudaginn. Þambaði rauðvín eftir prófið mitt sem gekk bara vel held ég vona ég. Bauð fólki heim í kósíheitin, þambaði meira rauðvín og bauð upp á dansiball með nýjasta nýju í íslensku tölvupoppi, FM Belfast og Motion boys, bauð upp á Opalvodka. Hann fór misvel í fólk. Hafði ekki svo mikil áhrif á mig, læknaði suma af kvefi, hálsbólgu, magaverk og hausverk, aðrir höndluðu mjöðinn ekki vel og voru pikkaðir upp af löggunni á heimleiðinni. Bannað að hjóla fullur í Hollandi og við því eru ströng viðurlög. Samt hjóla hér allir fullir. Alltaf allir að hjóla. Nema ég sem er enn ekki búin að kaupa mér nýtt hjól. Sárvantar hjól.
Annars er bara ágætis stuð og stemmning. Búið að vera sól og blíða og sýkin enn á sínum stað, bátarnir, blómin og hjólin auðvitað. Ekki rekist á neina asna undanfarið. En kettirnir eru enn jafn spes. Var næstum búin að skjóta þann stóra í morgun þegar hann gerði allt sem í hans valdi stóð til að vekja mig klukkan hálf sjö. Ja allt nema mjálma. Hvorugur þeirra kann að mjálma. Gera sig líklega til að mjálma eru með það á vörunum en svo pípir bara svona rétt í þeim. Sérstakt.
Þessir voru ekki í partýinu en virðast fíla Opal.

Wednesday, September 24, 2008

Asni, jóna og feitur köttur

Amsterdam er svo mikið krútt. Ég fór út að labba áðan og mætti manni með asna. Já já hann var bara svona að labba með hann eins og ekkert væri eðlilegra. Heyrð elskan ég er farin út að labba með asnan. Svo sá ég voða krúttlega búð með notað dót. Fyrir utan voru meðal annars mjög sætar hálsfestar á eina evru. Þegar ég fór inn til að borga fyrir þær þá kom í ljós að búllan var ekki bara búð heldur líka coffee shop. Eina hálsfesti og jónu takk. Á heimleiðinni ákvað ég að fá mér kaffi á barnum hinum megin við kanalinn minn. Í stólnum við hliðina á mér lá þessi líka feiti og fíni köttur. Flestir barir hér hafa kött í vinnu. Það virtist hafa verið nóg að gera hjá þessum. Nóg að éta.

Tuesday, September 23, 2008

What have they done to my Synthia

Kisa litla er svolítið vitlaus. Hún drekkur með því að dýfa loppunni í vatnið og sleikja svo loppuna. Kann ekki að drekka vatn venjulega. Hún kann heldur ekki að draga inn klærnar ef hún festir þær í teppinu. Og hún er alltaf að festa sig. Litla skinnið. Hún er svolítið sérstök. Stóri kisi sefur bara og borðar. Vill helst sofa í stólnum við hliðina á manni. Maður má samt ekki klappa honum. Hann vill bara vera í félagsskap annarra manna. Er ekki mikið fyrir snertingu. Sumt fólk er þannig líka.
Ég er að læra fyrir próf. Og svo bara lesa allt hitt og vinna í rannsókn. Drekk kaffi og borða kex. Í næstu viku ætla ég að gera margt annað en að læra.
Í morgun labbaði ég í skólann í stuttu pilsi. Ruslastrákunum og verkamönnunum fannst ég fín svona í pilsi og blikkuðu mig. En Hollendingar flauta ekki á stelpurnar. Nei nei þeir kalla hressir hhgrrrúújeh daaghrrh (goed dag). Ef þeir eru í yngi kantinum segja þeir hhgrrrúújeh daaghrrh mæn frá. Hressandi.

Saturday, September 20, 2008

Friday, September 19, 2008

Ooooooh

hjólinu mínu var stolið. Aftur. Öðru.

Tuesday, September 16, 2008

Áhættuatriði

Það gerist ekki margt mjög spennandi hjá mér þessa dagana. Lífið snýst um að læra, læra og læra meira. Ég tók þó þátt í áhættuatriði um helgina. Þannig var mál með vexti að á sunnudaginn var ákaflega gott veður, sól og blíða. Ég ákvað að nota tækifærið, líta upp frá lestri fræðigreina og koma mér fyrir úti í garði með bók til yndislestrar. Ég plantaði mér niður með kaffibolla, kexköku og íslenska spennusögu undir gríðarstóru kasatníuhnetutré sem príðir garðinn miðjann. Hóf lesturinn og sötraði kaffið. Fékk mér bita af ljúffengri lífrænni kexkökunni. Og þá búmm! og aftur búmm! búmm! búmm! Yfir mig rigndi kastaníuhnetum og það af miklum krafti. þær þurfa nefninlega mikinn sprengikrafti til að sprengja utan af sér hýðið þegar þær koma til jarðar. Og þeim virðist vera nett sama um á hverju þær lenda. Mér leist ekki á blikuna. Fannst eins og þetta gæti verið hálfgert drápstól. En ég ákvað að taka sjensinn. Taka áhættu í annars tilbreytingasnauðu lífi mínu. Sitja undir trénu og halda áfram að lesa. Ég slapp með skrekkinn, ég er hér enn, engin þeirra lenti á höfði mínu, stútfullu af bulli og vitleysu um félagssálfræði, huldu grásprengdu hári. Já maður verður víst að taka einhverja sjensa í þessu lífi, annars hefur maður ekkert að blogga um.

Saturday, September 13, 2008

Thursday, September 11, 2008

Soldið gaman að nördast

Ég sit núna og drekk myntute.
Er að hugsa um að kveikja á kertum.
Ætla að setja Chet Baker á fóninn eða kannski hlust á nýja Sigur Rósar diskinn.
Keypti mér 500 GB harðan disk í dag.
Sótti hjólið á Amstel station.
Önnur kisan ældi á gólfið þegar ég var að borða hádegismatinn.
Mig langaði í allt í ritfangaversluninni í gær. Keypti mér tréliti og skrifborðsmottu með mynd af jörðinni í pastellitunum.
Ég er soldið hrædd um að þetta blogg verði bara um tedrykkju, kisur og lestur sálfræðigreina í vetur.
Ég verð að muna eftir rokkinu. Drekka bjór og tjékka á strákunum. Skrifa það í minnisbókina mína.
Bæ ðe vei var að klára Minnisbók Sigurðar Pálssonar. Úrvalslesning þar á ferð.

Wednesday, September 10, 2008

Hverfið, garðurinn, Piepje og Kobus

Kvefpestin ætlar eitthvað að ílengjast hjá mér. Helvítið á henni. Ég hef að mestu haldið mig heima við síðan við fluttum. Og er enn jafn obbosslega hrifin af nýja heimilinu. Í dag rölti ég aðeins um hverfið og verð bara meira og meira hrifin. Hérna í næstu götu er bakarí, lífrænn slátrari, ostabúð, stórmarkaður, hárgreiðslustofa, dótabúð (fyrir börnin, ekki kynlífið), stórmarkaður með lífrænar vörur, sólbaðsstofa, antíkbúð, fataviðgerðir, koffíshop, kaffihús, búð með skrifstofu og myndlistarvörum, og æðislegt thai takeaway. Allt er þetta mátuleg blanda af gamaldsags og trendí. Ekki of mikið af fólki, mikið af gömlu fólki, börna að spila badminton við feður sína á götunum, trendí listaspírur á vappi. Æ lovv it. Litli krúttlegi garðurinn okkar er hálfgerð órækt en sjarmerandi órækt, með tómataplöntum, fíkjutré, rósarunnum og brómberjarunna. Úr garðinum okkar er svo gengið inn í stærri garð sem er sameiginlegur fólkinu sem á hús hér. Þar gnæfir yfir risastórt hnetutré og svo eru þar bekkir og fínerí. Æ lovv it. Kisurnar er kúl. Þær heita Piepje og Kobus. Kobus er svolítið eins og tígrisdýr. Röltir hér um íbúðina og skiptir sér lítið af okkur nýju íbúunum. Stór og bröndóttur. Elskar mat en ekki fólk. Piepje er lítil og ljúf. Líka bröndótt, en með hvíta blesu. Hún vill láta knúsa sig og kjassa. Liggur núna á rúminu mínu og malar. Fleiri fréttir hef ég ekki.

Tuesday, September 09, 2008

Flutt og kvefuð

Nú er ég loksins flutt í þessa blessuðu íbúð í Jordan hverfi í Amsterdam. Með tveimur köttum, garði og serbneskri nördavinkonu minni. Ég sef í stofunni. Hef hólfað mig þar af, nóg rými, stórir gluggar og almenn kósíheit. Við fluttum í gær. Leigðum bíl og fluttum báðar okkar hafurtask frá guðdómlega góðhjörtuðum vinum okkar í Utrecht sem hýstu draslið okkar í sumar. Allt hafurtask vinkonunnar fólst í tveimur töskum, litlum bakpoka og prentara. Mitt hafurtask fólst í heilu fjalli af töskum, kössum og pokum. Já allir þessir skór og prjónapeysur taka sitt pláss. Mér telst til að ég sé hér með 16 pör af skóm. Það er nú svo sem ekki neitt. Annars gerði ég næstum því út af við mig í þessum flutningum. Var búin að vera eitthvað lasin alla helgina. Viðbjóðsleg kvefpest og slappleiki. Ég ákvað nú að vera ekkert að fresta flutningum þrátt fyrir smá kvef. Tók bara verkjalyf og dreif mig í geimið. Ég var bókstaflega búin á því í gærkvöldi og tilkynnti mig veika í skólann í dag. En svo er þetta bara búið held ég, vona ég. Þarf að fara að spýta í lófana varðandi námið og svo þarf ég drífa mig að njóta þessa yndislega hverfis sem ég er flutt í, morandi af kúrekum, bjór og mat. Sest la ví mæ frend, sest la ví!

Saturday, September 06, 2008

Gunnhildibrandur Ari Timberlake

Jú ég byrjaði í skólanum á mánudaginn. Í fyrsta tíma er venjan að fólk kynni sig, segi til nafns og stuttlega frá bakgrunni sínum. Það er nú orðinn fastur liður að fólk fái lítið skemmtiatriði í þessum tíma. Það bíða sem sagt allir spenntir efitir að ég segi til nafns. Fólk horfir á mig með bros á vör og svo er beðið eftir viðbrögðum kennarans. Hann setur upp undarlegan svip, skellir létt upp úr og biður mig að endurtaka nafnið og stafa það loks. Allir hrista höfuðið og flissa mikið, þeir sem þekkja mig senda mér samúðarblik en þeir sem ekki þekkja mig horfa á mig eins og ég komi frá annari plánetu. Ef ég eignast einhverntíman son ætla ég vissulega að skíra hann Gunnhildibrand en ég er að hugsa um að gera honum greiða og skíra hann kannski Gunnhildibrand Ara eða jafnvel bara Gunnhildibrand Svein. Gunnhildibrandur Ari Petterson. Gunnhildibrandur Sveinn Timberlake. Gunnhildibrandur Benjamín Del Toro. Drengurinn getur þá kannski bara kallað sig Ara, Sven eða Ben í útlöndum. Þetta er svolítið þreytandi til lengdar.
Annars sit ég nú kvefuð heima hjá Hrafnhildi og horfi á eurovision dance festival. Stórkostlegt sjónvarpsefni og undarlegt að Ísland eigi þar ekki þátttakendur. Við sem erum næst best í handbolta í heimi. Það er sameignilegt þema með söngvakeppninni að rífa sig úr fötunum. Fíla það og einhvernvegin er það öllu eðlilegra í þessari keppni. Ég held að sjálfsögðu með Danmörku. Finnarnir voru líka góðir og frændur vorir og vinir Pólverjar sjarmerandi mjög. Hollendingar skilja bara engan veginn svona keppnir. Alltaf allt off og svolítið mikið glatað hjá þeim. En eins og einhver sagði gott silfur er jú gulli betra.
Á morgun þarf ég að læra helvíti mikið. Gaman að þessu.

Friday, September 05, 2008

Tuesday, September 02, 2008

Ekki fríkað út


Það var yndislegt í Normandy. Frakkland er svo fínt. Oui oui. Ég borðaði snigla, ostrur, osta, bökur og kökur. Drakk síder, mikið rauðvín og espresso með sykri. Ráfaði um Rúðuborg og sprangaði um ströndina undir stórkostlegum hvítum klettabjörgum. Týndi epli og perur í klausturgarði, sólaði mig í kirkjurústum.
Mánudagur og þriðjudagur hafa verið strembnir dagar fullir af streitu og örlitlum kvíða. Miðvikudagur verður líka erfiður og næstu dagar, vikur og mánuðir. Ég reyni eins og ég get að fríka ekki út. Ég flyt í íbúðina á mánudaginn. Ég hlakka til. Það verður notalegt að sitja þar og lesa og lesa, skrifa, klappa kisunum og drekka te. Ekkert stress. Nei nei.

Wednesday, August 27, 2008

Normandy

Ég ælta til Frakklands um helgina. Ég og ástvina mín ætlum að sötra í Normandy rauðvín, lesa heimsbókmenntir og fá okkur hressingargöngur í sumarkjólum. Skellum okkur jafnvel til Rúðuborgar og skálum í kampavíni fyrir Hrólfi góðvini mínum heimsborgara og lífskúnstner. Keyrum yfir á morgun. Höfum pantað okkur gistinu á huggulegu gistiheimili í sveitinni ekki langt frá ströndinni. Lífið er ljúft. En á mánudaginn tekur helvítis alvara lífsins við. Skólinn skellur á með miklum þunga. Hef þegar fengið hnausþykkar og óskiljanlega vísindagreinar í hendur sem mér ber að lesa fyrir þriðjudag. En ég ætla ekki að vera með neinn bölmóð. þetta hefst alltaf alltsaman einhvernveginn. Ég segi bara í anda Óla míns Stef: ég veit ekki en ég meina ég er bara ógisslega glöð að hafa fengið þá gjöf að vera Íslendingur og ætla bara að halda áfram að vera svona æðislega creative og breyta heiminum og bara vera glöð og pínu gröð (ok hann sagði kannski ekki að við værum gröð en mér finnst það bara passa:).

Monday, August 25, 2008

Andinn

Ég er komin til Hollands. Nú er tími andans genginn í garð. Við Hrafnhildur eyddum kvöldinu við lestur biblíunnar. Þetta er úr 28 bók Jesaja. Hressandi: En einnig hérna reika menn af víni og skjögra af áfengum drykkjum. Prestar og spámenn reika af áfengum drykkjum, eru ruglaðir af víni, skjögra af áfengum drykkjum. Þá svimar í vitrunum sínum og allt hringsnýst fyrir þeim í úrskurðum þeirra. Því að öll borð eru full af viðbjóðslegri spýju, enginn blettur hreinn eftir.

Monday, August 18, 2008

Sunday, August 17, 2008

Þessir hasarkroppar böðuðu sig í Breiðavík

guðirnir og mennirnir

Nú líður að leikslokum. Ég fer burt af skeri eftir viku og Íslendingar voru að jafna gegn Egyptunum. 10 mínútur eftir af leiknum. Ég þori ekki að horfa. Og mig langar ekki í burtu. Það er gott að vera á Íslandi þrátt fyrir alla geðveikina. Ég á auðvitað svo gott fólk hérna og flestir sæmilega heilir á geði. Hef ekki heyrt vini mína eða fjölskyldu fagna borgarstjórnarsirkusnum eða olíuhreinusunarstöð. Ég veit svei mér ekki hvar allir þessir brjáluðu sjálfstæðismenn leynast. En einhversstaðar eru þeir. Dansa trúlega stíðsdans í kringum jeppana sína nú og hylla Hönnu Birnu. Stinga síðan vúdúdúkkur í líki Dags B. og Svandísar með títuprjónum í magann. Drekkja svartfugli í olíubaði í fjörunni til fórnar olíurisanum, skilja eftir áldósir fullar af kóka kóla á víð og dreif á hálendinu fyrir álguðina góðu. Það er nú einu sinni lúxuskreppa í aðsigi og það viljum við ekki. Við viljum áfram jeppa og flatskjái. Stætó nei takk það er sko ekki fyrir Íslendinga. Hér er svo vont veður. Fólk hefur sinn rétt til að horfa á sína raunveruleikaþætti á bíóskjám. Bókasöfn eru fyrir bjána.
Annars þarf ég að játa svolítið. Ég er skotnari í Alexander en Óla. Sko Óli minn er ennþá æði en jessúss minn Alexander er guð.

Friday, August 08, 2008

Ég er siðvönd ung kona

Myndirnar frá helginni eru bara því miður of djarfar til að birta þær hér. Of mikil nekt og brjálæði í gangi sko. Ég ætla hinsvegar að birta þessa settlegu siðsömu mynd af mér og nýfæddum syni Jónínu og Viðars. Ákaflega fínn drengur það. Ég er að pæla í að fara út um helgina og búa til eitt svona barn. Þetta fer mér eitthvað svo vel.

Tuesday, August 05, 2008

Krassandi helgi

Ég var skýjum ofar um helgina. Lá í sólbaði á Stálfjalli og horfði niður á skýin sem lágu yfir Breiðafirði. Það var yndisleg tilfinning. Svo baðaði ég mig berbrjósta í Sjöundaá. Það var ákaflega hressandi. Ég stakk mér líka til sunds í jökulköldum sjónum í Breiðavík. Hrrrresssssandi. Sat og dinglaði fótunum niður af Látrabjargi og horfði á lundana, hrafnana, mávana og svartfuglinn fljúga fyrir neðan mig. Hvað fæ ég fyrir að birta myndir frá helginni hér?

Tuesday, July 29, 2008

Nei ég geng ekki út ef ég held þessu áfram

Það er allt að gerast. Ég sit á næturvakt í vinnunni og er að gúffa í mig örbylgjupoppi. Ég er að hugsa um að fá mér aðra samloku með rækjusalati. Í dag fór ég í Vesturbæjarlaugina og synti þúsund. Átti að sjálfsögðu skilið þeyting úr gamla með jarðaberjum snikkers og bántí á eftir. Himneskt. Himneskt alveg hreint. Ég er næstum til í að hætta við að fara aftur til Amsterdam bara til að upplifa þetta reglulega. En hvað um það, í gær slysaðist ég á útsölumarkað í 17. Verslaði mér þar þrennar peysur, tvo boli og einar buxur á einu bretti. Allt á 80% afslætti. Maður er alltaf að spara og ég er svona líka gaasalega ánægð með kaupin. Nema hvað ég hef lengi haft það á stefnuskránni að fara að klæðast meira þröngu stuttu og flegnu. Ég gleymi því hinsvegar alltaf þegar ég fer að versla. Peysurnar og bolirnir voru semsagt úr herradeildinni, í XL. Buxurnar langt frá því að vera þröngar og kynþokkafullar. Og svo er ég að furða mig á því að ég gangi ekki út. Gangandi um í XL karlmannsfötum og gúffandi í mig hvítlauk í tíma og ótíma, hellandi í mig bjór. Ég lenti reyndar á nettum sjéns á laugardaginn. Þrátt fyrir að vera bara í jússu blússu og strigaskóm (já og í pilsi að neðan, ég er hætt að spranga um ber að neðan, hætti því þegar ég flutti af Baldursgötunni). En ég var með slaufu í hárinu og með bleikan varalit. Ungur og sætur kaffibarsdrengur bað sem sagt góðfúslega um leyfi til að reyna við mig. Ég veitti honum að sjálfsögðu leyfið. Ég beið átekta, dansaði og reyndi að vera sæt og kvenleg (þrátt fyrir jússu blússuna). Ekkert gerðist og ég fór á endanum bara heim. Sá það auðvitað eftir á að ég hefði auðvitað bara átt að reyna massíft við hann, skella í mig vískí og biðja hann um að koma í sleik. En ég er orðin svo ryðguð í þessum bransa. Þarf að fara að rifja upp gamla takta, hella aðeins betur í mig og vera hress. Ég ætla að vera hress um helgina. Spranga um Rauðasand og Látrabjarg í flís og gorítex. Eða bara á bikiníinu. Við sjáum til. Hlakka sjúklega til. Svo er það bara vinna vinna, vaka á nóttunni og sofa á daginn. Verð að fara að hitta á fólk. Styttist í að ég fari bara út aftur. Ef fólk hefur áhuga á að hitta mig má það fara að panta tíma. Það fer hver að verða síðastur.
Ást og kossar, mök, friður og fullnægja um verslunarmannahelgina, ykkar einlæg, bombe sexuelle.

Sunday, July 27, 2008


Heilinn minn er í sumarfríi. Ég hugsa bara um kúreka, mat, föt og fjallaferðir. Gott og ákaflega gaman.

Saturday, July 19, 2008

Dansaði á diskóbar frá sirka tólf til sjö, bara ef það væri svo gott!

Nei ég fór ekkert í sund í dag. En ég tók hinsvegar strætó úr Grafarvoginum í morgun og aftur íann í kvöld. Lá svo í svefnmóki í sólbaði á svölunum og hlustaði á Pál Óskar syngja um ástina með teknó takti því ástin er international úú jeeee. Já ég lifi æsispennandi lífi in da city. Stefni á sveitina eftir helgina. Langar að fara í göngutúr með mömmu minni, baka kanilsnúða, drekka mikið kaffi og hlusta á rás 1.

Friday, July 18, 2008

Jú jú synda

Í dag hjólaði ég í Laugardalinn og synti þar 1000. Það er gaman að synda í 50 metra lauginni.

Thursday, July 17, 2008

Sumarið er tíminn

Í gær fór ég í göngu og baðaði mig í heitum læk. Rauluðum Sigurrósar lög á leiðinni og hlupum um nakin. Það var mjög gaman. Í dag fór ég í Seltjarnarneslaugina og synti þúsund í saltvatni. Orðin rosa brún og massinn er allur að koma. Var svo í sakleysi mínu að labba í Bankastrætinu áðan þegar ég mætti Óla Stef með nýtt barn á handleggnum og konuna sér við hlið. Ég fékk sting í hjartað og tár í augun. Ég get bara ekki skilið af hverju ég er ekki konan hans. Annars er bara gott stuð á Íslandi. Ég er samt ansi hrædd um að sumarið líði án þess að ég komist nokkuð á almennilegt djamm, reyni blindfull við einhvern 23 ára rauðbirkinn kaffibarsstrák og drekki viskí í morgunsárið. Nei það gengur auðvitað ekki. Ég þarf að plana vinnulausa helgi í bænum.

Tuesday, July 15, 2008

Við erum ekki fullkomin, neehei!

Nei þessi leti gengur auðvitað ekki. Ég ætla að blogga þegar ég er í borginni. Fræða fróðleiksfúsa lesendur mína um hvað drífur á daga mína on the ice island. Ekki það að ég sé sérlega stolt af því að vera frá eyjunni góðu um þessar mundir. Mér finnst svolítið eins og fólk sé að missa vitið hér, tapa sér, fríka út. Byggja bara álver og olíuhreinsunarstöðvar svo að allir geti nú haldið áfram að keyra um á jeppum og kaupa hjólhýsi. Reka svarta fólkið bara úr landi því að ekki viljum við deila þessu stórkostlega skeri með því aumingjans fólki sem er tilbúið að húka hér í rokinu með okkur. Svo hakka bara allir í sig nammi og drekka kók, henda rusli um borg og bara út um allt, allt í drasli, unglingarnir kolruglaðir, svo er kvartað undan kreppu. Ég held í alvöru talað að við hefðum bara nokkuð gott af smá kreppu. Þurfum að komast aftur niður á jörðina. Drekka vatnið úr krananum og taka strætó. Grilla á kolagrilli og spyrja útlendingana hvernig þeim líki við Ísland. Ef einhver missir vinnuna er ég sannfærð um að það vantar allstaðar fólk í umönnunarstörf, á elliheimili, sambýli og leikskóla. Það ætti að skylda allt nýríka nú gjaldþrota pakkið til að vinna í ár á geðdeild. Ég er ekki að grínast.
En hvað um það, í dag fór ég í sund og synti áttahundruð, fór í gufuna og var lengi í sturtu. Við getum allavegana verið ánægð með vatnið okkar. Ég tel það vera einn helsta kost þessa lands. Það er svo mikið og gott og heitt vatn hérna. Kannski eitthvað sem maður áttar sig ekki almennilega á hvað er mikill lúxus fyrr en maður hefur búið í úglöndum.

Monday, July 14, 2008

leti

Ég er löt, nenni ekki að blogga. Er bara út í sveit, í sólbaði, í heyskap, drekk kaffi, borða kökur, knúsa börn, fer í sund, les á íslensku, ligg, er. Er í borginni núna. Nenni ekki að hugsa. Nenni ekki að reyna að vera sniðug. Nenni heldur ekki að vinna. Þarf samt að vinna. Andskotans peníngar sem maður þarf alltaf. Farin í sund.

Wednesday, June 25, 2008

Það styttist

Jú jú Þjóðverjar áfram. Djöfull á ég erfitt með að samgleðjast þeim þó ég eigi þarna tvo menn (mína eigin-menn). Fúlt að sjá ekki Tyrki í úrslitaleiknum. Ekki það að ég komi til með að sjá leikinn, ég verð í flugvélinni á leiðinni heim í heiða dalinn. Núna er það bara multilevel analysis, jibbicola, próf eftir 9 klukkutíma. Síðasta tölfræðiprófið mitt. Svo þarf ég að ákveða hvaða skó ég ætla að taka með mér heim, hvaða eyrnalokka, hvaða lopapeysu, sumarkjól, föðurland, húfu, vettlinga, hlýrabol, úlpu, bikiní. Það er ekki auðvelt að pakka fyrir tveggja mánaða dvöl á Íslandi yfir hásumar. Er ekki yfirleitt komið háhaust í lok ágúst. Kannski ég geri bara eins og túristarnir og verði í gönguskónum, flísinu og gorítexinu bara alltaf allstaðar. Það er óvitlaust ef maður pælir í því.

Saturday, June 21, 2008

Þannig fór þá það

Ég held með Tyrkjum núna. Svei mér þá. Þeir eru svo hressir. Það varð allt vitlaust á föstudagskvöldið þegar þeir unnu Króatana. Bílflautum var þeytt um alla borg og allir af tyrkenskum uppruna (sem eru ófáir hér) þustu út á götu með tyrkneska fánann á lofti lofandi Allah með bros á vör. Ég var í partý í hverfi þar sem mikið er um Tyrki og þeir voru margir hressir út á götu þegar ég var að hjóla heim. Ég var líka hress og hrópaði gó turkí og gaf þeim fæv. Þeir voru svo ánægðir með mig að einn þeirra ákvað að koma bara með mér heim og hoppaði á bögglaberann hjá mér á ferð. Ég missti stjórn á hjólinu og blótaði á íslensku. Maðurinn treysti mér greinilega ekki fyrir lífi sínu og hoppaði af aftur. Þó ég hefði vissulega orðið svolítið skelkuð þegar hann hoppaði á varð ég soldið svekkt líka þegar hann hoppaði af. Það hefði kannski bara verið góð hugmynd að kippa honum með heim. Ég hefði getað rænt honum með heim til Íslands. Tyrkjaránið 2008. En já nei nei. Annars er ég alveg hissa á sjálfri mér hvað ég er svakalega spennt yfir fótboltanum. Ég er búin að setja heimasíðu keppninnar í favorites hjá mér og kíki nú oftar þangað en á facebook og mbl. En nei ætli maður róist ekki aðeins núna og einbeiti sér að náminu og flutningum næstu daga. Skila síðasta tölfræðiverkefninu í þessu námi á mánudaginn, próf á fimmtudaginn. Flyt líka á fimmtudaginn, fer svo til Maastricht á föstudaginn og heim á sunnudaginn. Nóg að gera þó maður sé ekki tilneyddur að þamba bjór í lítravís íklæddur appelsínugulu, hrópandi Van der sar og Boulahrouz í takt við allt hitt appelsínugula fólkið í þokkabót. Annar er Engelaar minn maður í hollenska liðinu. Allah mallah hvað hann er fagur. Tæpir tveir metrar, 29 á árinu. Ég held að börnin okkar verði sérlega myndarleg.

Thursday, June 19, 2008

Ég er feministi.

Það eru 93 ár síðan íslenskar konur, eldri en 40 ára, fengu kosningarétt. Árið 1920 fá konur sama rétt og karlar til að kjósa. Merkilegt. Merkilegt alveg hreint.

Wednesday, June 18, 2008

Tuborg er vinsæll á Íslandi.

Ó já og til hamingju með þjóðhátíðardaginn. Ég fagnaði honum með því að klæða mig í hvítt, blátt og rautt, hlusta svolítið á Bubba, horfa á fótbolta, fá mér bjór og ostalúmpjur úti í sólinni, dýrindis eplapæ og kaffi, mozzarella salat, ólífur, rósavín. Komst líka að því að Indónesía fagnaði sjálfstæði sínu frá Hollandi eftir 350 ára undirokun þann 17. ágúst 1945. Hollendingar viðukenndu ekki sjálfstæðið fyrr en 1949. Hollendingar eru víst ekkert sérlega vinsælir í Indónesíu. Indónesískur matur er mjög vinsæll í Hollandi. Danir eru ekkert sérlega vinsælir á Íslandi. Eða hvað. Helvítis fullu sveitó nýríku snobbuðu Íslendingarnir eru kannski óvinsælli í Danmörku en Danir á Íslandi. Tuborg er vinsæll á Íslandi.

Monday, June 16, 2008

Mr.3 og Mr.21

Fyrir ekki svo löngu síðan, segju svona 9 mánuðum, hafði ég ekki svo lúmskt gaman af því þegar ég fann grátt hár í höfði mínu. Ég naut þess að einangra þetta einstaka hvíta hár sem ég fann á hálfsárs fresti, kippa því upp með rótum og bera það saman við öll hin glansandi heilbrigðu dökkbrúnu hárin mín. Ef ég held áfram að kippa hvítu hárunum úr höfði mínu mun ég trúlega enda eins og konan á geðdeildinni sem var búin að plokka öll hárin af höfði sér nema einhver tíu og talaði stöðugt við sjónvarpið. Ég fann held ég 5 hvít hár í dag, án þess að vera sérstakleg að leita, þau bara blöstu við mér. Ég kippti þeim öllum úr og er nú 5 höfuðhárum fátækari og 5 höfuðhárum nær geðdeildarkonunni. Ég sat áðan ein í eldhúsinu og bað leikmann nr.21 í þýska liðinu um að giftast mér fullum hálsi og í fullri einlægni. Ekki nóg með það heldur bað ég leikmann nr.3 í þýska liðinu um að verða eiginmaður nr.2. Þeir þáðu þetta góða boð báðir með þökkum. Ætli ég verði kyrrsett á 32C.


Mr.3


Mr.21

Sunday, June 15, 2008

Sykurbolla

Gleðin yfir fótboltanum var svo mikil á föstudaginn að ég gerði nákvæmlega ekki neitt í gær nema að borða, sofa og horfa á sjónvarpið. Já íslensk kona, ekkert hölt og með fína sjón séu Chanel gleraugun á nefinu, kann sko að fagna með þeim appelsínugulu. Það varð allt vitlaust og ég líka. Dansaði fram á morgun með appelsínugulan fótbotahatt á höfði. Mjög töff. Í dag sat ég svo yfir tölfræði en megnaði nú að skokka hringinn minn og lyfta lóðunum mínum. Það fer þó eitthvað lítið fyrir því að ég sé að verða mössuð eins og Madonna. Held það séu allar rjóma, marsipan, smjör, sykur bollurnar sem ég læt alltaf freistast af. Í dag voru það viðbjóðslegir kremfylltir, súkkulaðihjúpaðir marsipanbitar. Hressandi.
Verð á skeri eftir 2 vikur, jibbicola.

Thursday, June 12, 2008

Þingholtin, Jordan, Kowloon

Nú sit ég löðursveitt (lathersweaty) svona um það bil 12 tíma á dag í skólanum að massa allt sem eftir er fyrir sumarfrí. Þessi síðasti áfangi minn á þessu skólaári er ákaflega strembinn og brjáluð vinna. En mér tókst að grafa upp úr fylgsnum mínum áður óþekktan metnað og áhuga á tölfræði. Að þessu sinni er um að ræða the linear multilevel model. Ég er bara frekar spennt fyrir því jafnvel þó að allri matrix algebru sé sleppt. En mun spenntari er ég þó fyrir íbúðinni sem ég ætla að deila með serbneskri vinkonu minni næsta vetur. Íbúðin er hvorki meira né minna en fullkomlega staðsett í Amsterdam. Nákvæmlega á uppáhaldsstaðnum mínum við fagrann kanal í Jordan. Hér er mynd af horni Prinsengracht og Looiersgracht sem er sem sagt kanallinn minn frá og með 7. September.

íbúðinni fylgir rósum prýddur garður sem gengið er í beint úr huggulegu eldhúsinu og tveir kettir. Ég læt mér nægja að sinni að passa kisulórur því of rótlaus er ég til að eignast mína eigin. Beint fyrir utan innganginn okkar er göngubrú yfir kanalinn. Við hinn enda brúarinnar er besti bar sem ég hef komið á í langan tíma. Við hliðina á barnum er líkamsræktarstöð sem ég hyggst ekki nota en vappa föl og feit fyrir utan í leit að fögrum folum. Leigan er ekki há og íbúðin rúmgóð og fín. Þarna hyggst ég sofa, lesa, læra, drekka te í eldhúsinu og bjór í garðinum þar til ég fer til Hong Kong í lok febrúar. Já ég ætla til Hong Kong. Fröken-frú-prófessor Cecilia Cheng hefur nú endanlega staðfest að hún búist við mér í rannsóknarstofuna sína í byrjun mars á næsta ári. Þar ætla ég að rannsaka eitthvað í fjóra mánuði. Já lengra er ég ekki komin með þau plön. En já það virðast vera spennandi tímar framundan. Eða allavegana spennandi staðsetningar, Skólavörðustígur, Jordan, Hong Kong. En já nei nei núna þarf ég bara að læra og læra horfa kannski smá á fótbolta drekka nokkra hollenska bjóra til að fagna með liðinu mínu. Það var að sjálfsögðu aldrei spurning með hverjum held oranje oranje oranje oranje!

Þessi piltur virðist vera staddur á leiguhjólinu sínu beint fyrir utan barinn sem er við hinn endar brúarinnar sem er beint fyrir framan húsið mitt. Samkvæmt mínum útreikningum er þetta því verðandi heimili mitt þarna í bakgrunni (eins og ég sagði maður er ekki að taka alla þessa reikningsáfanga fyrir ekki neitt).

Monday, June 02, 2008

Auglysi eftir motivation

Dagur er ad kveldi kominn. Eg er treytt og mig langar heim. Sofa, horfa a dvd, drekka graent te, borda fisk og kartoflur, synda, fara i heita pottinn. En eg tarf vist ad vera afram i studi. Er ad byrja i nyjum manadarlongum tolfraedi kursi a morgun. Fer lika i prof a morgun og a fund med leidbeinendunum minum. Og svo er bara aetlast til ad madur maeti hress til vinnu tegar heim er komid og vinni fyrir yfirdrattaskuldum namsmannsins. Island er agaett en alls ekki best i heimi. Tad eru allir ad fara i fri nema eg og hinir Islendingarnir. Taeland i manud, lestarferd um evropu, grisk strond, unglingaheimili i Grafarvoginum. Daes!

Saturday, May 31, 2008

Öfugsnúið

Ég er ein heima að læra á laugardagskvöldi. Ég er að drekka lífræna mjólk og borða Oreo kökur. Hlusta á Pink Floyd. Úti eru brjálaðar þrumur og eldingar en engin rigning. Það er eitthvað hérna sem passar ekki.

Friday, May 30, 2008

Thursday, May 29, 2008

Það er ekki sjálfgefið...

...með hverjum ég held

Hollendingum af því Hollendingar eru svo ágætir og myndarlegir upp til hópa.



Ítölum af því að þeir eru alltaf sætastir í flottustu búningunum.



Frökkum af því að Frakkar (hvaðan úr veröldinni sem þeir koma) eru mínir menn.

Ætli ég sjái ekki bara til hverjir komast upp úr riðlinum.

Monday, May 26, 2008

Synda Synda Synda

Mánudaginn 30. júní ætla ég að rölta niður í Bankastræti og fá mér kaffi latte og croissant á Kaffitári og "lesa" Fréttablaðið og Moggann. Skunda svo í Vesturbæjarlaugina og synda 800 metra, fara aðeins í pottinn og vera lengi í gufunni. Fara svo í ísbúðina og fá mér þeyting með jarðaberjum, snikkers og bántý. Labba til baka niður í bæ og kíkja í Eymundsson, fá mér kannski cappuccino. Vona svo að einhver elskuleg systir mín bjóði mér í kvöldmat og eldi handa mér fisk. Þær verða kannski allar á Spáni bara. Ég googlaði upp orðinu synda og þá birtist þessi fríða snót:

Hún heitir Synda Lockard og er 2007 Miss National Federation of Professional Bullriders. Töff.

Sunday, May 25, 2008

DIVINE

Djöfull var þetta slæm júróvisjón keppni. Ég eyddi þó evru í að kjósa íslenska júrótrashið. Fíla Sebastian Tellier. Ákaflega gott lag. Ætla út að skokka með það á rípíd í spilaranum.

Tuesday, May 20, 2008

Áfram Ísland

Mikið er ég stolt að vera Evrópubúi í dag. Lágmenningin er svo mikil og góð að mann svíður í sál og hjarta, eyru og augu. Ég er viss um að af keppendum var líka stæk fíla af mjög ódýru súru ilmvatni og sætu hárspreyi í bland við svitafíluna. Frábært alveg frábært. Hlakka til að sjá framlag Íslands á fimmtudaginn. Held samt með Frakklandi.
Ég keypti mér flug heim til Íslands sunnudaginn 29.júní. Ég hlakka mikið til að koma heim en er líka pínu kvíðin. Svolítið skerí tilhugsun að koma skítblönk heim í kreppuna, taka strætó klukkan sjö í rigningunni í vinnuna, borga sjöhundruðkall fyrir bjór og fjögurhundruð fyrir kaffibolla. En það þýðir víst ekki að vera með neinn bölmóð. Maður hellir bara upp á kaffi frá europrice og laumar með sér eins og einni stórri flösku af absinthe frá meginlandinu. Eins og lóan segir þá þarf ég víst að vaka og vinna, ég hef sofið of mikið og vinn ekki nóg, einhver annar sagði að enginn væri verri þótt hann vökni. Þetta verður örugglega helvíti fínt bara. Maður reynir kannski að staulast upp eitthvert fallegt fjall, fer í sund, fær sér snúning á gömlum traktor í heyskap, heilsar upp á liðið og svona. Almenn gleði bara.

Friday, May 16, 2008

Nánar um Hong Kong

Og svo byrjaði að rigna. Ég get þó allavegana hangið inni með góðri samvisku, reynt að læra kannski svolítið. Já og einhver spurði hvað málið með Hong Kong væri. Þannig er mál með vexti að í þessu námi mínu á ég að gera tvær rannsóknir, mastersverkefni og svo annað sem má vera smærra í sniðum. Ég er nú að rembast við að vinna í mastersverkefninu mínu. Datt svo í hug að það væri gaman að fara til Hong Kong til að gera hina rannsóknina. Ég fann því prófessor við Hong Kong háskóla sem mér fannst áhugaverð, skrifaði henni meil, spurði hvort ég mætti koma til Hong Kong, vinna rannsókn hjá henni og hvort hún gæti leiðbeint mér. Hún var til í það. Fólki hér við skólann finnst þetta sniðug hugmynd og ég fæ jafnvel einhverja styrki fyrir flugi og svona. Nú þarf ég bara að finna eitthvað sniðugt til að rannsaka. Ef af þessu verður geri ég ráð fyrir að vera í fjóra mánuði að ári, kannski mars, apríl, maí og júní. Já já þetta er ekki flóknara en þetta. Engir jarðskjálftar í Hong Kong nei ne. Þar eru lífslíkur 81.68 ár, þær sjöttu bestu í heiminum árið 2007 (80.43 ár á Íslandi, 13 sæti). Þar þykir menntun grunnskólabarna sú önnur besta í heiminu (Finnar tróndu á toppnum árið 2006, sko þá). Hong Kong háskóli (HKU) þykir sá 18 besti í heimi. Hong Kong er eitt þéttbýlasta svæði jarðarinnar, 6200 manns á ferkílómeter. Þar er meðalhiti 25 gráður yfir árið. Hong Kong var "sjálfstæð bresk nýlenda" frá 1842 til 1997 þegar það varð partur af Kína, Hong Kong hefur þó mikið sjálftæði allavegana til 2047. Þar er afar kapítalískt hagkerfi sem vex og dafnar (engin íslensk króna þar nei nei Hong Kong dollar). Enska er þar annað opinbert mál. Þegar ég var þar á ferð fyrir nokkrum árum með henni Brynju minni (Brynja ég elska þig) þá hugsaði ég og nefndi að mig langaði að fara þangað í framhalsdnám. Ég lét ekki verða af því en kannski læt ég verða af þessu. Góða helgi, lifið heil.

Thursday, May 15, 2008

Æðislega frábært alveg!

Æh ég elska Amsterdam svo mikið. Hún er svo mikið krútt. Ég er að hugsa um að vera hér í nokkur ár. Ég ætla bara að vera einn af þessum óþolandi bloggurum í útlöndum. Ég reyni þó að tuða eitthvað inn á milli. Hér eru nokkrar myndir sem sýna hvað það er rosalega æðislega frábært hjá mér.


Hrafnhildur við Canalinn í Den Bosch


Fyrsti bjórinn á drottningardaginn


Fanney fagnaði drottningunni memm


Grillað í garðinum (þetta eru vinir mínir sko, ekki bara eitthvað fólk sem ég tók mynd af)


Dagur á hollenskri strönd


Dagur að kveldi kominn, þetta líf er ekkert grín


Útsýnið af þakinu mínu


Ég á þakinu, afsakið höfuðbúnaðinn


Prinsessur út að borða á arabískum veitingastað


Tvær mjög kynþokkafullar ungar konur út að borða á asískum veitingastað


Í gærkvöldi borðaði ég flatkökur með hangikjöti og nóa súkkulaði og horfði á Mannaveiðar. Góð stemmning það.