Ég keypti mér hjól í dag, jiihúú! Það er stórt, svart, með fótbremsu, engum gírum, körfu, traust, gamalt, fullkomið.
Á morgun byrja ég að passa börn, jiif......hú! Það verður bara fínt held ég. Ég kann vel við börn og þau kunna vel við mig. Litli 3 ára strákurinn kunni sérstaklega vel við mig þegar ég fór og hitti fjölskylduna. Hann spurði mig ekki síður út úr en móðirin. Hann spurði mig m.a. hvort ég ætti lítinn strák heima. Þegar ég sagði að svo væri ekki, ég ætti engin börn, spurði hann af hverju. Ég sagði að það væri af því að ég ætti engan eiginmann. Honum fannst ekki að það ætti að vera fyrirstaða fyrir því að eignast börn. Klár strákur. Svo spurði hann hvernig stæði á því að ég ætti ekki eiginmann. Fannst það mjög skrítið. Mjög klár strákur. Mig langaði svolítið að útskýra fyrir honum að mig langaði svo sem ekkert sérstaklega í eiginmann að svo stöddu, elskhugi væri alveg nóg í bili. Elskhugi væri líka alveg nóg ef mig langaði virkilega í barn. Ég sleppti því. Ég útskýri þetta kannski fyrir honum seinna, þegar foreldrarnir verða ekki viðstaddir.
1 comment:
Mér líst vel á þetta.
Post a Comment