Friday, September 29, 2006

5 dagar

Ég er dauðhrædd um að tapa lesendum mínum öllum út í veður og vond blogg nú þegar ég skrifa bara um detox. Það vil ég alls ekki að gerist. Ég vil frekar að fólk lesi gæðablogg meðan þetta tímabil stendur yfir. Því vil ég benda lesendum mínum á bloggtengla hér á síðunni. Margt athyglisvert þar að lesa.
5 dagar án sykurs, kaffi eða brauðs, ekkert mál.
Lifið heil

Wednesday, September 27, 2006

KAFFI, popp, kok.

Líkaminn æpir á ristað brauð með osti og sultu, sætan ávaxtasafa og KAFFI! En það sem hann fær í síðbúinn morgunverð er berjaprótínsjeik. Hann er að vísu mjög ljúffengur en jesúss hvað væri gott að fá eins og eina brauðsneið með og skella smá kaffi útí hann.
Já já jú jú nú snýst allt um detoxið og ég vara fólk við því að reyna að tala um eitthvað annað við mig. Ekkert djamm og djús, utanlandsferða, barneigna, íbúðarkaupa, vinnu, skóla, líkamsræktar, út að borða, tónleika, brúðkaups kjaftæði. Bara detox, detox, detox kjaftæði. Reyndar kemur umræða um stráka sterk inn þessa dagana eftir nánast algjört áhugaleysi hjá mér í þeim málum síðustu misserin. Það liggur eitthvað í loftinu, kannski það sé bara önnur kvikmyndahátíð sem veldur þessum fiðrildum í maganum á mér. En ó mæ lord ekkert popp og kók í bíó, will I make that?

Muaaaaaahhhh!

Tuesday, September 26, 2006

Fyrstu tveir dagarnir í detoxinu hafa gengið vel, mjög vel. Lítið sem ekkert um svindl þó að um upphitun sé að ræða. Eina svindlið sem verið hefur í gangi er 1 banani, 1 lítil kartafla og hráar gulrætur. Málið er semsagt engir ávextir nema ber, engar kartöflur og allt grænmeti eldað! Þetta er sko alvöru.

Sunday, September 24, 2006

Detox

Á morgun er fyrsti dagur í upphitun fyrir afeitrun. Í upphituninni felst að ég má ekki má borða eða drekka sykur, hveiti, ger, mjólkurvörur, kaffi, hverskyns djönkfæði né áfengi. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig detoxið sjálft er!!! en þá má ég beisikklí ekki borða neitt nema gufusoðið grænmeti og drekka með því sítrónuvatn eða grænt te. Þetta prógramm stendur einungis í 12 vikur!!! Um helgina er ég búin að borða súkkulaði og pizzur í hvert mál og drekka með því bjór og vín. Ég var núna að enda við að torga heilli Eldsmiðjupizzu með umþaðbil öllum áleggstegundum sem hægt er að hugsa sér og skola henni niður með dýrindis stellu. Uhmmm gott en ég borga fyrir það með óléttubumbu, magaverkjum og (strákar takið fyrir bæði augu og eyru) prumpi. Þetta verður athyglisvert, ég segi ekki annað. Allavegana goodbye miss pregnant lady.

Tuesday, September 19, 2006

Fallegt

Hrólfur hittir ávallt naglan á höfuðið. Það er nefninlega svo að þó að ég eigi engan lúða til að drösla með mér á kvikmyndahátíð, eigi fáa peninga og bloggandinn sé ekki alltaf til staðar þá er ég ákaflega rík kona. (og já takið eftir því að ég nota orðið kona um sjálfið. Ég komst nefninlega að því að ég eyði meiri tíma heima hjá mér við að þrífa og elda en á börum bæjarins og meiri peningum í blómabúðum en geisladiskabúðum, ég hlýt því að vera orðin kona en ekki lengur bara stelpa!). Ég bý yfir andlegu ríkidæmi sem ekki verður svo auðveldlega frá mér tekið, ég er lífsgröð og er með eindæmum rík af vinum og fjölskyldu. Og fyrir utan allt svona andlegt ríkidæmiskjaftæði þá er ég líka rík af ......da da ra SKÓM. Þetta er nýjasta parið:

fallegt

Friday, September 15, 2006

Andlaus

Ég er andlaus, karlmannslaus og allt að því allslaus.

Saturday, September 09, 2006

I'm slowly becoming a person I really don't know or understand

I'm slowly becoming a person I really don't know or understand. Týpan sem stundar jóga og borðar ekki hitt og þetta. Speltpasta og grænt te og nei takk ég borða ekki nammi, týpan. Ætla á afeitrunarkúr og er búin að skrá mig í jóga. Ætli ég hætti ekki bara að drekka og snyrtivörurnar, blúndunærbuxurnar og brjóstahaldarinn fara trúlega að fjúka fljótlega. Nei andskotinn hafi það, svo langt geng ég ekki. Skírlífið ætla ég þó að sjálfsögðu að halda. Það er partur af prógramminu!!! Já já og svo er ég komin með nýtt lúkk. Er nú týpan með sítt að aftan, síðara vinstra megin, með skakkan topp og litað rautt hár, í háhæluðum stígvélum týpan. Geðveikt flippuð 101 skvísa, ekkert svo lík Unni Birnu með þetta lúkk. En við Unnur erum samt meira líkar í anda en útliti sko.

Friday, September 08, 2006

Undir Dyrfjöllum

Ég tók myndir á Borgarfirði. Að sjálfsögðu aðallega af mér sjálfri. Enda hefur mér verið líkt við Unni Birnu. Við erum svona svipaðar týpur. Hún birtir víst líka mikið af myndum af sjálfri sér. Þessar eru úr göngunni í Stórurð.










og svo lofaði ég Rögnu að birta þessa mynd af henni

Hún er á lausu

Monday, September 04, 2006

Heima er best

Jæja ég er komin til byggða, búin að nördast í tvær vikur á afskekktum firði fyrir austan. Þetta var ágætis dvöl þrátt fyrir smá lasleika og skort á sólinni sem ég var viðbúin. Ég afrekaði nú samt ýmislegt, ég kláraði að prjóna eina peysu, heklaði eina húfu, las tvær bækur (Flugdrekahlauparinn og Guð hins smáa, bæði afbragðsbækur), horfði mikið á Friends og Will & Grace í gervihnattasjónvarpinu, fékk heimsókn að sunnan, gaufaði mikið í fjörunni og týndi litfagra steina (er ég nörd eða er ég nörd) og gekk sitthvorn daginn í grenjandi rigningu í Brúnavík og Stórurð. Ég gekk í Stórurðina í gær. Það er einn stórfenglegasti staður á Íslandi. Að vera þar einn í þoku í september og ganga svo til baka undir hrikalegum hamraveggjum Dyrfjallanna er bara mögnuð upplifun. Mér finnst ég pínu meiri manneskja eftir að hafa afrekað þetta.
Ég reyndi að blogga en gat ekki birt nema eina færslu vegna tæknilegra erfiðleika. Ég skrifaði þessa líka:
Ég er alltaf að búast við því að sjá fröken Torrini og Magna Supernova leika sér með legg og skel hér í bæjarlæknum eða KK að syngja fyrir utan kaupfélagið eða Belle and Sebastian liða að reyna að gera sig skiljanlega á Café Álfasteinn eða jafnvel Jónsa og félaga að fræðast um álfasöng hjá íbúunum í Álfaborginni eitthvert kvöldið. En nei hér eru bara mest inbread Borgfirðingar, einn og einn útlenskur túristi og hreindýraskyttur. Í nótt voru hér hjá mér hjón frá París. Afskaplega sæt og almennileg og ég spjallaði þónokkuð við þau (á ensku, shame on you Gunnhildur, merde!). Kellingin sagði mér það að á tveggja vikna ferðalag þeirra um landið væri ég fyrsti Íslendingurinn sem þau hefði talað við þau. Þau sögðu Íslendinga almennt afar kurteisa og hjálpsama en enginn vildi tala við þau. Hún sagðist t.d. hafa reynt að tala við hreindýraskytturnar sem þau deildu húsi með í nótt en þeir hummuðu víst bara eitthvað og muldruðu í barminn á sér. Þau furðuðu sig líka á því að sjá hvergi fólk á götum úti. Þau væru búin að koma í hvern draugabæinn á fætur öðrum. Ég reyndi að útskýra þetta allt fyrir þeim. Við værum bara rétt nýkomin út úr torfkofunum og værum alls ekki vön miklum samskiptum við annað fólk en okkar nánustu, hvað þá ókunnuga, útlendinga! Veðrið byði ekki upp á útiveru að óþörfu og að heimilið væri okkur afar mikilvægt, þar eyddum við ómældum tíma við kaffidrykkju og sjónvarpsgláp. Um helgar hittist fólk svo heima í heitum pottum og skellir í sig ómældu magni af áfengi. Um helgar opnar fólk sig, rasar út og skellir sér jafnvel á pöbb eða ball, talar kannski KANNSKI við ókunnuga, en þá þarf fólk auðvitað að vera komið ansi vel í glas. Frönsku hjónin voru ánægð með þessar útskýringar mínar. Þau ákváðu líka að ég væri svona opin og málglöð af því að ég hef ferðast til útlanda! Það finnst mér fyndið, sérstaklega af því að ég er nú ekki beint þekkt fyrir að vera opin og málglöð, nema kannski þegar ég er búin að fá mér vel neðan íðí!
Annars erann að snúast í norðan og ég býst við lágskýjuðu og rigningu næstu vikuna. Sem er fúlt því að ég á von á gesti að sunnan. Hún fær bara vonandi notið mannlífsins hér og handavinnunnar ef að fjallasýn verður takmörkuð.
Jæja best að fara að brasa eitthvað gæskan (lesist með austfirskum framburði!)

Jæja best að láta þetta gott heita af utanbæjarröfli í bili, mikið er annars gott að vera komin heim í 101, ég var komin með snefil af heimþrá, svei mér þá.