Ég var komin til Hong Kong klukkan 08.00. Ferðalagið gekk vel en reyndi þó nokkuð á þar sem sessunautur minn var með eindæmum andfúll. Karlkvölin þurfti ekki einu sinni að tala, bara anda. Oj! Sætið var líka óvenju þröngt. En ég náði að sofa í klukkutíma og horfa á þrjár bíómyndir. Tæpir tíu tímar. Við komu til Hong Kong tók við pappírsvinna og vesen. Heilsufarsyfirlýsing og immigration. Ég hélt í litla stund að mér yrði ekki hleypt inn í landið. Konunni hjá útlendingaeftirlitinu fannst ég eitthvað grunsamleg. Komin hingað ein í tvo mánuði. Vildi vita hvað ég væri með mikinn pening, hvar ég ætlaði að gista og fá að sjá farseðilinn til baka. Það hjálpaði trúlega ekki að ég ákvað í einhverju augnabliksbrjálæði að ljúga að ég væri hér mér til yndisauka. Hélt ég ætti erfitt með að útskýra að ég væri hér til að vinna í skóla þar sem ég hef hvorki leyfi til að vinna né vera í skóla. En jú jú stelpurófan ákvað að hleypa mér inn í landið guðunum sé lof.
Ég tók metróið til Causway Bay á Hong Kong Island þar sem ég hafði bókað mér herbergi á hosteli, nánar til tekið Hong Kong Hostel. Mér var fengið alveg hreint skítsæmilegt herbergi. Nokkuð hreint og að því er virðist laust við kakkalakka. En þetta er til bráðabirgða. Á morgun á ég að flytja í betri íbúð með eldunar aðstöðu og fínerí. Vonandi verður betri nettenging líka. Hún er helvíti slitrótt hér. Ég stóðst ekki mátið að fá mér fegurðarblund þegar ég var komin í herbergið mitt enda mið nótt í Amsterdam og ég búin að sofa í sirka 3 tíma undanfarinn sólahring. Ennþá að jafna mig eftir kveðjupartýið ógurlega. Þvílíkt og annað eins partý!
Eftir blundinn ákvað ég að rölta bara um hverfið mitt sem er hvorki meira né minna en aðal verslunarhverfi Hong Kong. Djísúss þetta á eftir að verða erfitt fyrir mig! Hér fæst allt. Bókstaflega allt. Frá Gucci og Prada til H&M og IKEA. Sjúkar Hong Kong design búðir. Öll snyrtivörumerki sem fyrirfinnast eru hér með sérverslanir. Raftækjabúðir. Allt er til í súpermarkaðinum sem er opinn allan sólahringinn. Þetta er himnaríki fyrir fata, krem og tækjasjúkar konur. En nei nei blanki námsmaðurinn má ekki versla neitt að ráði. Ég er þó búin að kaupa mér eitt skópar. Bláar snakeskin ballerínur. Nauðsynlegar í hitanum hér. Held ég megi búast við 22-32 stiga hita á meðan ég dvel hér. Nú er 30 stig hálfskýjað og nánast enginn raki, næææs. Eftir stefnulaust ráf í marga klukkutíma innan um neonskilti og pínulitla kínverja svaf ég svo í 12 tíma. Búin á því. Svona líka ljómandi gott að sofa í Hong Kong.
1 comment:
fín lesning, áfram svona
Post a Comment