Wednesday, October 31, 2007

Fjölskyldan kemur á morgun. Ííííhaa!

Sunday, October 28, 2007

Spes


Var ég búin að segja frá því að hér heima nota allir sinn eiginn salernispappír. Tvær af sambýliskonunum geyma rúlluna sína ekki einu sinni á salerninu heldur inni á herbergi hjá sér. Spes.

Saturday, October 27, 2007

Halló eða ekki halló?

Nei ég tek það aftur að Hollendingar séu hallærislegir. Þeir eru ekkert svo hallærislegir. Bara ofurvenjulegir. Meirihlutinn vill greinilega ekki taka sjénsa og heldur sig bara við útvíðu buxurnar. En inn á milli eru mjög svalar týpur. Hér er víst til máltæki sem segir að ef þú ert venjulegur þá vekurðu þá þegar of mikla athygli (eitthvað í þá áttina). Fólk segir að þetta sé einkennandi fyrir Hollendinga sem eru víst hógværir mjög. Fólk er til dæmis endalaust hissa á því hvernig í ósköpunum mér datt í hug að koma til Hollands í nám. Og þegar ég spyr fólk á móti hvers vegna það sé svona hissa á því að fólk velji Holland þá verður fátt um svör. "Við erum svo fámenn þjóð í litlu landi, því skildi fólk velja Holland?". Ég held að hollenska og íslenska þjóðin gætu lært talsvert hvor af annarri.

Friday, October 26, 2007

Keila

Ég skilaði síðustu verkefnum þessa hluta annarinnar kl. 16.20 í dag. Hljóp síðan út í skóla til að prenta út lesefnið fyrir kúrs sem byrjar á mánudaginn. Ekki nema tæp símaskrá sem ég þarf að lesa fyrir mánudag. Það er ekki í lagi með þetta fólk. Þetta átti að vera fríhelgin. Ég var búin að hlakka til þessarar helgar síðan í byrjun september. En ég er víst hérna fyrir þetta. Lesa og lesa. Átti nú ákaflega góðan dag með samnemendum mínum á miðvikudaginn. Sýndi heldur betur hvað í mér býr. Rústaði öllum í keilu. Öllum já öllum, líka sjálfumglaða kennaranum. Hah! Dansaði svo upp á borðum á barnum á eftir. Gaman.
Ég og þýski strákurinn erum búin að ná nokkuð vel saman. Hann er sætur og skemmtilegur. Hefur sýnt mér óvenju mikinn áhuga. Og ég að fíla hann. Komst að því á miðvikudaginn að hann er að sjálfsögðu samkynhneigður. Það bara hlaut að vera. Hinir strákarnir í hópnum eru allir í útvíðum buxum með millisítt hár. Ja nema auðvitað íslenski pilturinn, hann er að sjálfsögðu í niðurmjóum gallabuxum og með típugleraugu. Ég er stolt af honum. Stelpurnar eru allar frekar lummó líka. Nja samt ekki. Aðallega bara hollensku stelpurnar. Hollendingar eru ekkert svo smart. En þeir bæta upp fyrir það með hæð og húmor.

Tuesday, October 23, 2007

Mig dreymir

Ég get svo svarið fyrir það að ég ætla að láta það verða mitt fyrsta verk þegar á klakann er komið í jólafrí að fara í Vesturbæjarlaugina og synda þúsund metra. Fara svo í gufuna og pottinn. Himnaríki. Ef Óli Stef, Björn Hlynur eða Gael Garcia Bernal verða í pottinum á sama tíma þá bið ég Guð almáttugan ekki um fleira í þessu lífi.

Monday, October 22, 2007

Af undarlegum kenndum hvildardagsins

Á sunnudagskvöldum geta gripið mann undarlegar kenndir. Eirðarleysi hvíldardagsins á það til að kveikja hjá mér þrá. Þrá eftir kossum og kertaljósum. Þrá eftir videoglápi í faðmlögum. Í gærkvöldi kviknaði hjá mér slík þrá. Þar sem ég sat og reyndi eftir fremsta megni að einbeita mér að því að skrifa umræðu um ímyndaða rannsókn mína. Óh svo erfitt að einbeita sér þegar mann langar bara miklu frekar að vera í sleik. Ég ákvað því að senda sms. Ungum manni heima á Íslandinu góða. Notaði sköpunargáfuna í að semja helvíti sniðugt sms og demdi því yfir hafið. Hann svaraði ekki. Hefur trúlega verið í faðmlögum og sleik við hösl helgarinnar. Og ég ein í Amsterdam, hokin að reyna að hugsa um social constraint processes í tengslum við tilfinningatjáningu valdamikils fólks. Úff. Hugsaði um að fara út og brenna bíla með hinum innflytjendunum en ákvað þess í stað að snúa mér að helsta og traustasta vini mínum þessa dagana. Facebook. Tók þar próf: What kind of guy will you fall for og þetta var niðurstaðan:
You would fall part for the bad boy. Get a good lawyer, because you will fall for someone from the wrong side of the tracks with charm, looks, and all the moves down pat. Look for your future guy in bars, clubs, and on the dancefloor--he's the shirtless one with the tattoos.
You would fall part for the geek. If you're looking for love, consider spending a little more time studying up in the library. To you, there's nothing more attractive than intelligence, shyness, and kindness; your future love may have four eyes and zero social skills, but he'll make up for it in brains and heart.
Aha! Bókasafnið og barinn hljómar nú ekki svo illa. Nema hvað ég er alveg búin að sjá þetta út. Það eru mín örlög að falla fyrir nördum. Ekki spurning. Mjólkurhvítir hæfileikaríkir nördar með skakkar tennur og gleraugu eru tótallí mæ þíng. Nema hvað mínir nördar eru án undantekningar líka the bad boy. Sjálfselsk nördahönk í krísu. Undantekningarlaust með sjálfan sig í fyrsta sæti og kærusturnar (í fleirtölu) í öðru og þriðja. Undir snjáða flauelsjakkanum leynist alltaf vondur gæi með skrímslatattú á sálinni.
Æhj aumingja ég. Þvílík örlög.

Friday, October 19, 2007

Hvað er ég eiginlega að gera hér?


Bara svona svo þið gleymið ekki greyin mín hvernig ég lít út. Á bakvið mig má sjá lillafjólubláa vegginn minn fræga.
Ég er bara hress.
Einhverjir hafa verið að spyrjast fyrir um hvað það sé eiginlega sem ég er að gera hér í úglöndum. Hvernig þessu námi mínu sé háttað. Ég ætla því að lýsa því hér stuttlega. Ég er sem sagt í 2ja ára rannsóknarmaster í University of Amsterdam. Þetta nám er ætlað fyrir framúrskarandi (ég bara varð að koma þessu að!) nemendur með mikinn metnað og áhuga á rannsóknum. Núna í haust byrjuðu 35 nemendur í þessu námi. Þar af um 10 erlendir nemar. Allt er kennt á ensku. Ég valdi mér að taka social psychology sem major fag og work and organisational psychology sem minor fag. Það þýðir að ég vel mér flesta kúrsa í social og einhverja í work and organisational. SKólaárinu er skipt upp í tvær annir og hverri önn er skipt í þrjá hluta. Fyrir áramót tek ég 2 fög í hverjum hluta. Eftir áramót tek ég svo einhverja kúrsa en hef svo vinnu við internship (eigin rannsókn eða aðstoð við rannsókn hjá einhverjum prófessor). Allir þurfa að taka nokkra skildukúrsa í aðferðafræði ýmiskonar: tölfræði, forritun og skrif fræðigreina svo dæmi séu tekin. Og svo velur maður sér kúrsa. Í hverjum valkúrsi eru 3-15 nemendur. Þeir fara flestir fram með vikulegum fundi þar sem lesefni vikunnar er tekið fyrir og rætt. Í sumum kúrsunum eru vikuleg verkefni, öðrum vikulegir fyrirlestrar, lokaverkefni og einstaka hafa lokapróf. Í valkúrsinum sem ég er í núna, Advanced topics in affect and emotion research hef ég þurft að lesa 4 fræðigreinar (oftast nýjar rannsóknir á sviðinu) að meðatali á viku og skila verkefni úr lesefninu á mánudagsmorgnum. Þessi verkefni hafa oftast verið eins og erfiðar prófspurningar og gilda til einkunnar og mér hefur því oftast liðið eins og í prófi á sunnudagskvöldum. Mikið mikið þurft að hugsa. Lokaverkefnið í þessum kúrsi er svo útfærsla á eigin rannsókn. Núna í næstu viku er þessum hluta annarinnar að ljúka og í þar næstu viku taka nýjir kúrsar við. Þá tek ég valkúrs sem heitir Social decision making. Þann kúrs kennir maður að nafni Carsten De Dreu. Sá er frekar mikið hot shot í vinnusálfræði og ég hef oft rekist á hans nafn í kennslubókum í félagssálfræði í gegnum tíðina. Hann er samt víst bara um fertugt og myndarlegur og afar góður með sig og óvæginn við nemendur sína. Það verður athyglisvert að kynnast honum. Já og sem sagt eftir áramót þá á ég annaðhvort að gera mína eigin rannsókn eða taka þátt í rannsókn hjá einhverjum öðrum. Á seinni árinu mínu geri ég mína eigin rannsókn eftir áramót. Og er markmiðið að fá þá rannsókn birta í sálfræðiriti. Jamm og já. Áhugavert?
Ég hef nú alveg velt því fyrir mér hvursvegna í ósköpunum ég var að velja mér svona rembingsprógramm. Þar sem allt virðist ganga út á að sanna hvað þetta sé rosalega erfitt og gott nám. Prófessorarnir hafa gaman að því að segja að það sé næstum ógerlegt að klára þetta á þessum tveimur árum, kalla kúrsana gildrur og berjast við að hafa vinnuálagið sem mest.
Ég reyni að minna sjálfa mig á það á hverjum degi að ég er hér til að læra og njóta en ekki til að sanna mig og fá háar einkunnir. Ég á það samt til að detta í það að taka þetta allt aðeins of alvarlega og finnst mjög erfitt að láta stöðugt gangrýna verk mín. Lélegar einkunnir leggjast á sálina á mér! En ég er ekki ein í þessum pakka. Allir í kringum mig eru að kafna úr stressi og í sjokki yfir að fá ekki bara góðar einkunnir. Mér er nú samt bara búið að ganga alveg ágætlega og reyni eins og ég sagði að minna sjálfa mig á að ég er að þessu fyrir sjálfa mig. Og ég ætla að njóta Amsterdam meðan ég er hér. Annað kemur ekki til greina.
Og þar hafið þið það.
Góða helgi.

Wednesday, October 17, 2007

Ástin mun tæta okkur i sundur


Ian Curtis
Já ég var á myndinni.
Yndisleg melankólía.

Tuesday, October 16, 2007

Ég hlakka til

Ég hlakka til í næstu viku. Þá klárast kúrsarnir sem ég er í núna og allt útlit fyrir að fólk ætli að taka vel á því til að fagna. Nú þegar er búið að plana dinner og bátapartý á þriðjudaginn og bjórdrykkju og dinner á miðvikudaginn. Jeih og svo er það helgin, aftur jeih. Og svo hlakka ég brjálæðislega til þegar fjölskyldan kemur í heimsókn. Þá verður líka tekið á því. Og svo hlakka ég sjúklega mikið til jólanna! Ég held ég hafi ekki hlakkað svona mikið til jólanna síðan ég var átta ára og vissi að ég myndi fá flottustu barbídúkkuna úr Kaupfélaginu í jólagjöf frá mömmu og pabba. Og svo hlakka ég til að fara á tónleika. Var loksins að skoða hvað er í boði hér í borg og það er bara ansi margt spennandi. Ætla að drífa í að kaupa miða á eitthvað ofursvalt og hressandi! Held samt að Amr sé ekkert að spila á næstunni, djöh. Svei mér þá ef ég hlakka ekki bara líka til að byrja í nýjum kúrsum. Kennarinn í öðrum þeirra á víst að vera afar myndarlegur (og mjög vel þekktur vinnusálfræðingur en það er annað mál).
Ég er samt svekkt að komast ekki til Rómar í langa helgarfríinu mínu. Þar er hún Brynja að lesa heimsbókmenntir og borða pítsu og drekka limoncello eða eitthvað voða ítalskt. Það er of dýrt fyrir mig að fljúga. En ég sé hana Brynju mína um jólin, jeih. Þá ætlum við að drekka kampavín. Nú verð ég að láta mér Amsterdam, nýja vini og bjórinn nægja.
Ást

Sunday, October 14, 2007

Góðir dagar

Góð helgi að baki. Sól og blíða og stuð og stemmning í Amsterdam. Ég hjólaði eins og brjálæðingur lengst út í buskan í dag og drakk kaffi og bjór og borðaði bitterballen í sólinni með íslenska piltinum sem er með mér í náminu og unnustu hans. Mikð gaman. Í gær var ég í prinsessuleik með Hrafnhildi. Við fórum á sýninguna Barcelona 1900 í Van Gogh safninu, borðuðum tælenskan mat á fínum veitingastað og fórum svo í kvikmyndahús. Áhyggjulausar og afslappaðar í stórborginni. Á morgun þarf ég að vinna eins of mother fucker! Á að kynna rannsóknarhugmynd á þriðjudaginn. Og ég hef ekkert á blaði. Best að lesa aðeins fyrir háttin.

Hjólatúrinn


Rakst á þetta svín


Bjór og bitterballen

Thursday, October 11, 2007

Þetta þykja mér góðar fréttir

Ja hérna hér. Það eru aldeilis tíðindi frá Reykjavík city. Dagur B bara borgarstjóri. Gott hjá honum. Hann er fínn strákur.
Ekki eins mikil tíðindi frá Amsterdam city. Hér heldur fólk bara áfram að drekka bjórinn sinn og spjalla saman með miklum kokhljóðum. Svo hjóla allir heim í húsbátana sína, með viðkomu hjá blómasalanum, eins og ekkert sé sjálfsagðara. Ég verð ekki mikið vör við að innfæddir séu mikið að reykja eiturlyf eða kaupa sér hórur. Það er meira svona fyrir túristana virðist vera.
Og ég held bara áfram að húka bólótt með maga og bakverk yfir lestri fræðigreina og verkefnavinnu. Rosa stuð. Það styttist nú í að ég fái helgarfrí! Í lok október líkur þeim kúrsum sem ég er í núna og nýjir taka við eftir helgina. Jeih! Og svo er von á systrum mínum og foreldrum eftir 3 vikur. Það verður massa stuð. Hanga með mömmu á coffee shop í rauða hverfinu, geeeðveikt. Nei svona í alvöru þá hlakka ég svaka til að fá þau öll yfir. Þá ælta ég sko að vera í helgarfríi sama hvað hver segir. Og það er nú svo sem ekki eins og ég gefi mér engan tíma til að líta upp úr bókunum núna. Eyði t.d. fáránlega miklum tíma á internetinu. Sendi ómælt magn af bjórum og blómum á facebook. Fiskarnir líka mjög vinsælir. Nú og svo er það youtube og smá myspace og smá blogg. Svo er það gmailinn og skólameilinn og blackboard sem er námsvefurinn sem ég nota í skólanum. Geri samt aldrei neitt af viti. Nenni ekki (hef ekki tíma!) til að blogga, skrifa tölvupóst eða horfa á dvd. Það er of mikill ásetningur í því hangsi. Ætla mér aldrei að hanga neitt, "bara rétt að kíkja hvort það séu ný skilaboð". Já já. Það var nú ágætis félagslíf hjá mér um helgina. Var boðin í mat bæði föstudag og laugardag. Finnst það nú bara ágætis árangur svona glænýrri í borginni alveg. Vantar samt alveg rómantíkina. Þessir hávöxnu kúrekar hafa alveg látið það vera að meika múv. Damn. Kannski eru það bólurnar!

Monday, October 08, 2007

Cheb Khaled-Aicha

Bara svona af því að við erum öll í stuði. Þetta er ofboðslega fínt og límist á heilann.

Sunday, October 07, 2007

Amr Diab

Ég hef orðið vör við mikinn áhuga fólks á Amr og birti þessvegna hér myndband við lag sem að fólk ætti að kannast við með honum. Voða rómantískt og fínt.

Thursday, October 04, 2007

Leiðbeiningar

Settu myndbandið með Amr á stað og hlustaðu á það með headphones og dillaðu þér í stólnum á meðan þú lest færsluna sem er fyrir neðan. Gott stuð.

Amr Diab Awdooni

Ég veit ekki hvað skal segja. Þetta er svo yndislega hallærislegt og töff og skemmtilegt og fallegt. Fíla þetta í tætlur, áwídúní, áwídúní!

Awdooni

Í dag var góður dagur. Byrjaði á að lesa tvær greinar á kaffihúsi, fór svo og fékk mér ákaflega flottan nýjan síma (og númer: 00354-615966940), fór í klippingu, eldaði rosa góðan pastarétt, horfði á kúrekamynd frá níunda áratugnum með Richard Gere í aðalhlutverki, fór út að skokka og fann gestadýnu sem ég bar heim með mér, þreif loks gettósturtuna og er nú að drekka bjór og hlusta á Amr Diab. Já þetta var góður dagur. Gott að gera eitthvað annað en að læra eða vera stöðugt með samviskubit yfir að vera ekki að læra. Ég held að það sé svona smám saman að komast jafnvægi á þetta hjá mér. Ég er að átta mig á því að ég er ekkert mikið vitlausari en hinir í hópnum, að kennararnir tóku nákvæmlega sama hræðsluáróðurinn og sálfræðiprófessorarnir í HÍ og ég þarf ekki alveg stöðugt að vera að læra. Álagið er samt mikið. Ég er búin að vera mánuð í skólanum og er búina að skila ég veit ekki hvað mörgum verkefnu og lesa greinar á þykkt við tvær símaskrár. Ég er bara í tímum tvisvar í viku en svo þarf ég að reyna að nýta tímann í að komast yfir lesefnið og skila af mér verkefnum. Ég er ekki með mesta sjálfsaga í heim en mér hefur samt gengið alveg ljómandi vel. Rosa ánægð með mig :) Ekkert mjög miklu gleymt á 5 árum.
Nú já og félagslífið er bara í helvíti góðu standi hjá mér. Er auðvitað komin í góð tengsl við marga Íslendinga á svæðinu. Maður losnar aldrei við það pakk. Og svo hefur útlenska pakkið líka komið sterkt inn. Vildi bara að ég hefði meiri tíma í að hanga með fólki.
Tékkið endilega á Amr. Hann er yndislega mikill ostur.

9,5

Ég fékk 9,5 fyrir síðasta verkefni sem ég skilaði inn. Ég er sjúklega, brjálæðislega montin. Held ég springi bráuðum í loft upp af monti.

Wednesday, October 03, 2007

Ekkert!

Aftur er ég sest og ekkert gerist. Er alltaf að fá sniðugar hugmyndir um mig í Amsterdam. En svo þegar ég ætla að deila þeim með lesendum þá.....jahérna...reyni kannski aftur á morgun.