Ég vann á líbönskum veitingastað þegar ég var í menntaskóla. Ég bjó þá í Drápuhlíðinni og skundaði yfir Klambratúnið í stuttu pilsi, dr.Martin skóm og gömlum loðfóðruðum gallajakka (sem gekk undir nafninu Bruce Springsteen) tvisvar til fjórum sinnum í viku til að bera fram Mezza og Ouzo í gervi líbanska líkjörsins Arak. Yfirleitt var mjög rólegt á virkum kvöldum. Þá mætti ég með heimalærdóminn í tösku sem ég þóttist alltaf ætla að klára á vaktinni. Ég fékk alltaf hlýjar móttökur í eldhúsinu hans Hassans sem réð lögum og lofum á staðnum á þessum tíma. (Áður en ég byrjaði að vinna þarna, rak kall staðinn sem kleip kvenkyns starfsfólk í rassinn og dró brotin glös af kaupinu). Hassan gaf mér alltaf eitthvað gott að borða. Í uppáhaldi hjá mér var nýbakað líbanskt brauð með hummus og chilli kartöflum. Afar einföld máltíð en sjúklega góð. Kjúklinga og lambakebab var líka sérlega vinsælt hjá vannærðum unglingnum mér, sem og baunarétturinn hans Hassans. Þessu góðgæti skolaði ég niður með ótakmörkuð magni af kók og fékk mér svo arabískt kaffi á eftir. Stundum fékk ég svo dísætt hunangslegið pasteries í eftirrétt. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég kunni að meta þetta góðgæti. Annars lifði ég, á þessum tíma, á samlokum með skinku og pítusósu annarsvegar og kit kat og kókómjólk hinsvegar. Blönk sveitastelpan á mölinni. Í stað þess að sinna heimanáminu sat ég oftast á spjalli við Hassan heilu og hálfu kvöldin og held því fram að ég hafi ekki lært minna af honum en öllum mínum menntaskólabókum. Hann sagði mér frá snæviþöktum fjöllum í minna en klukkutíma fjarlægð frá hvítum sólríkum ströndum. Hann sagði mér frá ríkri sögu landsins og ótrúlegum fornminjum. Hann fræddi mig um ótrúlega vestrænt viðhorf fólksins sem er að stórum hluta múslimar. Það hefur verið draumur minn æ síðan að fara þangað til að læra magadans og matargerð. Hann sagði mér líka frá þeim ótrúlega yfirgangi sem landið hefur mátt þola frá nágrönnum sínum, bæði Ísrael og Sýrlandi. Hann lýsti aldrei beint stuðningi við Hizbollah en sagðist þó þekkja fólk sem var í samtökunum og sagðist skilja það fólk. Hann sagði mér líka að systur hans gengju með blæju, ekki vegna þess að þær væru kúgaðar til þess, heldur til sýna að þær eru stoltir múslimar og til að mótmæla kúgun og yfirgangi Ísraela. Þetta þótti mér merkilegt.
Ég finn innilega til með líbönsku þjóðinni þessa dagana. Það á engin þjóð skilið árásir af þessu tagi hvort sem skæruliðasamtök eru í landinu eða ekki.
4 comments:
mannstu þegar ég gerði heiðarlega tilraun til þess að sækja um hjá honum. þar sem ég var ekki tilbúin í magadansinn sagði hann pass.
annars mjög flottar myndir, þú lítur alltaf út eins og milljón dollarar.
skipafréttir er frábær bók, fyrsta bókin sem einar lánaði mér og mér finnst hún hafa átt þátt í því að ég féll fyrir honum.
þið verðið að bjóða mér með í fjallgöngu einhvern tíma. gekk einmitt á esjuna í gær í góðum fílíng.
styttist í tyrkland, ég hlakka til...
Hvað við erum heppin að getað eiginlega bara kvartað undan slæmum almenningssamgöngum.
My god hvad hvad mer er misbodid yfir yfirgandi israela,
Ahhhhhhh gamli godi Hassan, hefurdu eitthvad hitt hann?
LUVS.
Post a Comment