Ég sprett upp klukkan átta. Undir venjulegum kringumstæðum er þetta langur og sársaukafullur prósess hjá mér. Að vakna. En þetta eru engar venjulegar kringumstæður. Ég á stefnumót við risa pandabirni í dag. Ég er mega spennt. Ég hef aldrei áður séð pandabjörn og þetta gæti verið mitt eina tækifæri í lífinu til að sjá svona skepnu læf. Ég er mætt í dýra/skemmtigarðinn rétt eftir opnun klukkan hálf tíu. Strunsa beint að heimili bjarnanna. Einhver sagði mér að best væri að vera mættur snemma til að sjá þá up close and personal. Þegar þeir borða morgunmatinn sinn. Annars sofa þeir víst mikið yfir daginn og eru ekkert að sýna sig. Ég verð ekki fyrir vonbrigðum. Ein dúllan situr beint fyrir framan mig og gæðir sér á bambus. Svo kemur önnur, Jia Jia. Þrjátíu og eins árs pía, feit og fín. Ég hangi lengi með pöndunum. En svo verð ég svöng og kaffiþyrst og langar út í sólina að leika mér. Ég fæ mér kaffi og möffins og held svo af stað að skoða furðufiska og fleiri exótísk dýr. Ég ákveð að skella mér í parísarhjólið. Sjiii hvað ég er lofthrædd. En gaman. Ég fer í annað tæki. Og annað. Og annað. Og hlæ. Og hlæ. Og úr því að ég er byrjuð þá fer ég líka í rússíbanann. Námu lestina. Skröltandi lítil lest máluð ryðrauð til að auka áhrif. Áður en lestin lagði af stað hugsaði ég í alvörunni um að ég hefði nú átt að hringja í mömmu svona í síðasta sinn og að hver myndi nú erfa mig. Eða öllu heldur hver myndi lenda í því að borga skuldirnar mínar og ganga í skónum mínum. Ég hef aldrei lent í öðru eins. Eftir rússíbanann horfi ég á höfrunga og sæljón leika listir sínar og enda svo daginn á að fara í annan snúrubíl með stórkostlegu útsýni. Á þessum tímapunkti var lofthræðslan í lágmarki. Ég var búin að sjokkera hana úr mér allri. Mikið er gaman að leika sér. Eins og barn. Myndir:
Dúlla að borða bambus í morgunmat. Þeir nota framloppurnar eins og hendur. Eru með fimm klær og svo auka þumal sem auðveldar þeim að halda á matnum sínum.
Dúlla að fá sér vatn.
Þetta er Jia Jia. Hún er fædd 1978 og er því 31 árs. Hæð: 151 cm. Þyngd: 80-85 kíló. Persónuleiki: Róleg og skapgóð. Miklir og góðir móðureiginleikar.
Þetta er Gunnhildur. Hún er fædd 1977 og er því 32 ára. Hæð: 180 cm. Þyngd: Ekki vitað en trúlega einhversstaðar á milli 65 og 75 kíló. Persónuleiki: Oftast ljúf og góð en á til að vera nokkuð tryllt og týnd í lífinu. Yfir meðal greind. Þykir ekki henta til undaneldis en hugsar um afkvæmi annarra líkt og væru þau hennar eigin.
Gott kaffi og fallegt útsýni. Það glittir í snúrubílinn þarna í hlíðinni í gegnum mengunar móðuna.
Skíthrædd í parísarhjólinu. Ég er svo ánægð með nýju gleraugun að ég bara tek og tek myndir af sjálfi mér.
3 comments:
Þú ert líka svo gasalega fín með þessi gleraugu. Ljómandi fallegir pandabirnirnir.
Ásrúnu finnst þú fyndin með gleraugun.
juminn eini ég er alltaf meira og meira dolfallin á því sem þú ert að upplifa rýjan mín og þú ert svo hrikalega dugleg að drífa þig í þetta allt ein!
Ég held þú sért mjög góð til undaneldis.
Post a Comment