Monday, September 04, 2006

Heima er best

Jæja ég er komin til byggða, búin að nördast í tvær vikur á afskekktum firði fyrir austan. Þetta var ágætis dvöl þrátt fyrir smá lasleika og skort á sólinni sem ég var viðbúin. Ég afrekaði nú samt ýmislegt, ég kláraði að prjóna eina peysu, heklaði eina húfu, las tvær bækur (Flugdrekahlauparinn og Guð hins smáa, bæði afbragðsbækur), horfði mikið á Friends og Will & Grace í gervihnattasjónvarpinu, fékk heimsókn að sunnan, gaufaði mikið í fjörunni og týndi litfagra steina (er ég nörd eða er ég nörd) og gekk sitthvorn daginn í grenjandi rigningu í Brúnavík og Stórurð. Ég gekk í Stórurðina í gær. Það er einn stórfenglegasti staður á Íslandi. Að vera þar einn í þoku í september og ganga svo til baka undir hrikalegum hamraveggjum Dyrfjallanna er bara mögnuð upplifun. Mér finnst ég pínu meiri manneskja eftir að hafa afrekað þetta.
Ég reyndi að blogga en gat ekki birt nema eina færslu vegna tæknilegra erfiðleika. Ég skrifaði þessa líka:
Ég er alltaf að búast við því að sjá fröken Torrini og Magna Supernova leika sér með legg og skel hér í bæjarlæknum eða KK að syngja fyrir utan kaupfélagið eða Belle and Sebastian liða að reyna að gera sig skiljanlega á Café Álfasteinn eða jafnvel Jónsa og félaga að fræðast um álfasöng hjá íbúunum í Álfaborginni eitthvert kvöldið. En nei hér eru bara mest inbread Borgfirðingar, einn og einn útlenskur túristi og hreindýraskyttur. Í nótt voru hér hjá mér hjón frá París. Afskaplega sæt og almennileg og ég spjallaði þónokkuð við þau (á ensku, shame on you Gunnhildur, merde!). Kellingin sagði mér það að á tveggja vikna ferðalag þeirra um landið væri ég fyrsti Íslendingurinn sem þau hefði talað við þau. Þau sögðu Íslendinga almennt afar kurteisa og hjálpsama en enginn vildi tala við þau. Hún sagðist t.d. hafa reynt að tala við hreindýraskytturnar sem þau deildu húsi með í nótt en þeir hummuðu víst bara eitthvað og muldruðu í barminn á sér. Þau furðuðu sig líka á því að sjá hvergi fólk á götum úti. Þau væru búin að koma í hvern draugabæinn á fætur öðrum. Ég reyndi að útskýra þetta allt fyrir þeim. Við værum bara rétt nýkomin út úr torfkofunum og værum alls ekki vön miklum samskiptum við annað fólk en okkar nánustu, hvað þá ókunnuga, útlendinga! Veðrið byði ekki upp á útiveru að óþörfu og að heimilið væri okkur afar mikilvægt, þar eyddum við ómældum tíma við kaffidrykkju og sjónvarpsgláp. Um helgar hittist fólk svo heima í heitum pottum og skellir í sig ómældu magni af áfengi. Um helgar opnar fólk sig, rasar út og skellir sér jafnvel á pöbb eða ball, talar kannski KANNSKI við ókunnuga, en þá þarf fólk auðvitað að vera komið ansi vel í glas. Frönsku hjónin voru ánægð með þessar útskýringar mínar. Þau ákváðu líka að ég væri svona opin og málglöð af því að ég hef ferðast til útlanda! Það finnst mér fyndið, sérstaklega af því að ég er nú ekki beint þekkt fyrir að vera opin og málglöð, nema kannski þegar ég er búin að fá mér vel neðan íðí!
Annars erann að snúast í norðan og ég býst við lágskýjuðu og rigningu næstu vikuna. Sem er fúlt því að ég á von á gesti að sunnan. Hún fær bara vonandi notið mannlífsins hér og handavinnunnar ef að fjallasýn verður takmörkuð.
Jæja best að fara að brasa eitthvað gæskan (lesist með austfirskum framburði!)

Jæja best að láta þetta gott heita af utanbæjarröfli í bili, mikið er annars gott að vera komin heim í 101, ég var komin með snefil af heimþrá, svei mér þá.

9 comments:

Hölt og hálfblind said...

Og hvað? Maður bregður sér út á land og þá hringir síminn ekki í tvær vikur, allir hættir að skoða bloggið, heldur fólk að ég sé dauð eða hvað!

Anonymous said...

nei þú átt nú amk einn dyggan sem kíkir alltaf reglulega á bloggið þó hún sé nú etv ekki sú duglegasta við símann. Mér finnst alltaf frábært að lesa bloggin þín, þau fá mann til að brosa og hvað getur maður beðið um meira?

Hrólfur S. said...

jújú, ég er að lesa

Anonymous said...

Ég les þig alltaf! Stundum soldið langt á milli en samt samviskusamlega.

Anonymous said...

Já einmitt sorry ég hringdi aldrei en hugsaði þeim mun meira um þig í Stórurðinni, magnaður andsk staður og örugglega merkilegur svona aðþrengdur. Og svo beið ég náttúrulega eftir austfjarðabloggi. Reyndi nú að ná í þig í kvöld gæskan, ætlaði að ræða um suddann við þig og hvað hann var fljótur að draga upp á sig í kvöld.

Anonymous said...

Ég ætla rétt að vona að þú hafir heklað húfuna fyrir mig annars dæmi ég þig hér með niðursetning.

Anonymous said...

Hae saeta min, eg kiki nu alltaf reglulega a bloggid og hef gaman ad! Mer thykir thu svo dugleg i handavinnunni...aetti ad taka thig til fyrirmyndar og laera ad prjona i vetur :)

Kv.fra Dublin,
Elin.

Anonymous said...

Hva! Ertu í húsmæðraorlofi eða á eftilaunum? Ekkert að gerast..?

Hölt og hálfblind said...

EIns gott fyrir þig Tinna!!!