Ég les South China Morning Post með morgunkaffinu mínu, á Starbucks! Í fréttum er þetta helst: Himinhátt húsnæðisverð á himinháum íbúðum í Hong Kong. Hér seldist nýlega dýrasta íbúð í Asíu. Og venjulegt fólk hefur ekki lengur efni á að eignast húsnæði. Það snjóaði fyrir norðan í nótt, í Beijing og þar. Snjókoman var að hluta til af veðramanna völdum. Vildu úrkomu vegna þurrka. En svo fer auðvitað allt úr skorðum þegar snjóar smá. Konur geta nú tekið 70% lán fyrir handtöskum. Svokölluðum, Bags of Money. Jafnvel notuðum. Já það er mikil fjárfesting að eignast þessa Gucci tösku. Mikið er fjallað um glæpakvendi eitt á meginlandinu. Hún var forsprakki glæpagengis sem hélt úti stórkostlegri fjárhættuspilastarfsemi og allskyns undirheima glæpum undir verndarvæng lögreglunnar. Sagan segir að þetta 46 ára glæpakvendi hafi átt allt að 16 elskhuga. Allt ungir undirmenn hennar. Fílana. Á forsíðunni er frétt um að stóraukið hlutfall gamalmenna á meginlandinu sé orðið mikið vandamál. Ekkert kerfi tryggir afkomu þessa fólks. Það hefur engan ellilífeyri og ekki neitt. Þetta minnir mig á það sem hefur truflað mig einna mest síðan ég kom hingað en það eru betlararnir. Þeir eru ekki mjög margir eða ágengir en það er sú staðreynd að það virðist aðallega vera fatlað fólk sem þarf að betla hér. Ég svaf ekki eina nóttina því á heimleiðinni sá ég tvo svo hræðilega fatlaða og afskræmda menn vera að betla. Það er eitthvað hræðilega rotið við samfélag þar sem fatlaðir þurfa að liggja á götum úti og snýkja pening á meðan þeir heilbrigðu strunsa um götur í verslunarmaniu með CK og DK pokana sína.
Áður en ég fór heim úr skólanum varaði aðstoðakona leiðbeinandans míns við því að það væri búist við að hitastigið hrapaði á morgun. Niður í svona tuttugu gráður! Jahá! Ég ákvað að labba niður í bæ og taka metróið heim. Ég var eini hvíti maðurinn í troðfullum vagninum. Ég gnæfði yfir alla, nema eina svarta manninn. Hann var í stuttbuxum og hlýrabol og hélt á körfubolta.
2 comments:
Góð færsla, fróðlegt og skemmtilegt
Hæ, já ég las um þessa dýru íbúð sem seldist, rosaleg alveg. Svo er alltaf verið að tala um bar í Hong Kong sem íslensk kona sem heitir Katrín hannaði. Held hann heiti Cristal bar ?
kv Áshildur
Post a Comment