Monday, November 02, 2009

Dagur 17 – Laugardagur til Lamma

Ég vakna löngu fyrir hádegi og geri mig klára í báts-, göngu- og strand-ferðalag til Lamma eyju. Ég er alltaf alltof lengi að hafa mig til á morgnana og klukkan er að nálgast hádegi loksins þegar ég drulla mér út með nesti í nýjum bakpoka en í gömlum skóm. Ég tek metróið niður í bæ og labba svo örugglega í hátt í tíu mínútur í loftgöngum niður að höfn. Ég tefst á bryggjunni því þar er skemmtileg lítil bókabúð sem ég tek mér góðan tíma í að skoða. Ég er sjúk í lestur þessa dagana. Ég missi af ferjunni en það er allt í lagi, ég tek bara næstu. Svo kaupi ég mér líka skemmtilega bók sem ég get lesið á meðan ég bíð. Kitchen Confidential, Adventures in the Culinary Underbelly eftir Anthony Bourdain. Frábær bók fyrir alla þá sem einhverntíman hafa unnið í veitingabransanum en líka bara fyrir áhugafólk um veitingabransann, mat og bókmenntir. Eldhússögur Anthonys eru hressandi hvíld frá Salander greyinu sem nú er farin að berjast við sænsku leyniþjónustuna, orðin svolítið þreytandi blessunin.
Eftir tuttugu mínútna bátsferð er ég komin til grænu fínu bíllausu Lamma með fjölskylduslóðanum og ljómandi strendur. Lamma hýsir líka ansi ljótt orkuver sem skemmir nú svolítið fyrir grænu bíllausu stemmningunni. En þetta er þó allavegana vindorkuver með good intentions, skömminni skárra en margt annað, þó ljótt sé. Ég geng fjölskylduslóðann frá einu þorpi í hitt þorpið. Það tekur mig um klukkutíma og þá er ég búin að ganga eyjuna allt að því endilanga. Ég tek mér góða ljósmyndapásur og dáist að ótrlúlega litskrúðugri og fjölbreyttri fiðrildaflórunni. Ég stoppa líka á huggulegri strönd, kaupi mér Carlsberg af gömlum kínverskum kalli og les. Þegar degi fer að halla lalla ég síðasta spölinn í hitt þorpið og labba götuna í bænum. Veiðimenn veitingahúsanna renna fyrir mig og ég narta í hjá nokkrum en bít loks á hjá Barry nokkrum Chan. Ég veit ekki hvort það er sú staðreynd að hann er haltur sem heillar mig, að hann virðist hálfblindur með sín þykku gleraugu eða sagan um að þetta sé veitingastaður móður hans sem sjái reyndar um eldamennskuna á staðnum ásamt bróður hans. Hann eigi þrjú systkini, hann sé þeirra yngstur. Kannski er það bara græðgin sem ræður för því hann bíður mér fimm rétta máltíð með drykk á ágætis prís. Ég fæ hjá Barry smokkfisk, rækjur, hörpuskel, steikt grænmeti, steikt hrísgrjón og bjór. Ágætis máltíð og ég afhendi yngsta syninum með glöðu geði seðilinn fyrir þessari dýrustu máltíð sem ég hef fengið í Hong Kong só far. Þegar ég kem aftur til borgarinnar er ég svolítð sorrý yfir að vera ekki að fara í Halloween partý með öllum hinum. Bærinn iðar af lífi og ég er ein og yfirgefin. Kaupi mér bara eina litla bjórdós og held ein heim í herbergið mitt. Allt verður samt gott þegar ég er komin heim með litlu bjórdósina og í ljós kemur að það er heimildarmynd um súmóglímu í sjónvarpinu. Miklu betra en eitthvað fyllerí niðrí bæ, ég fíla súmó.

3 comments:

hrunda said...

Frábaert blogg, og en hve ég er hamingjusöm fyrir thína hönd að vera komin frá Amsterdam!

Kveðja, Hrund.

Hrólfur S. said...

Gaman að þessu bloggi hjá þér. Ég ferðast í huganum yfir lestrinum.

Anonymous said...

Stórskemmtilegar sögur kæra vinkona. Ég sé þetta allt ljóslifandi fyrir mér, Barry og mömmu hans sveitta í eldhúsinu, þú að horfa á súmóglímu með öl og óskar þess að taka þátt.
I do miss our deep intellectual conversations.
Alda