Friday, April 24, 2009

Grikkland

Jú ég fór til Grikklands. Það var megastuð. Grikkland er fínt land. Aþena er svolítið hektísk . Brjáluð umferð og mengun. Allt ógeðslega dýrt. En stemmningin er góð. Næturlífið er þrælgott og byltingarandinn svífur yfir vötnum. Ég fór í hverfið þar sem óeirðirnar byrjuðu. Sá hvar pilturinn var skotinn. Drakk bjór með síðhærðum rokkurum. Heimsótti bílastæði þar sem til stóð að gera almenningsgarð en planinu var breytt í að reisa þar risavaxið bílastæðahús. Þar hefur fólkið nú gróðursett tré og gert kósí. Þegar okkur bar að garði var þar fullt af fólki að tsjilla í kringum varðeld. Svo fór ég og dansaði við fjallmyndarlega gríska homma í hommahverfinu. Hommarnir elska mig. Jú jú og svo skoðaði ég Akrópólis sem er frekar magnaður staður. Mögnuð bygging. Soldið gömul samt.
Á leiðinni suður eftir sá ég mörg brennd tré. Þetta hafa verið magnaðar hamfarir þarna um árið. Svakalega stór og mörg svæði sem brunnu og það dóu víst 84. Brunnu bara. Hrikalegt. En í suðrinu heimsótti ég þrjá staði. Borgina Kalamata. Hún er fín með fínni strönd og virðulegu fjalli. Þorpið Logga sem er 1500 manna krúttlegt þorp við sjóinn. Þar ólst vinkona mín upp, dóttir bæjarstjórans. Sem er fyndinn kall með yfirvaraskegg og hvítan hárkraga í kringum skallann. Hann talar enga ensku og ekki mamman heldur. Ég varð því að gjöra svo vel að læra bara grísku. Það gekk vel og núna get ég svona krafsað mig í gegnum grísku blöðin. Þetta er ekkert mál. Nú og svo heimsótti ég þorp í fjöllunum með íbúafjöldann 10 yfir sumarið. 7 á veturna. Þar býr amma vinkonunnar og afi. Þau eru massahress með sínar geitur og kindur. Búa til ólífuolíu fyrir fjölskylduna, geita og sauðaost, vín. Baka brauð og fara á milli staða á asna. Þar borðaði ég heimslátrað páskalamb á páskadag. Drakk vínið og borðaði ostinn. Guðdómlega gaman. Rölti með fjölskyldunni í kirkjuna. Það var í þriðja skiptið á þremur dögum sem ég fór í kirkju. Á föstudaginn langa mætir fólk í kirkjuna og gengur svo um þorpið með kerti og blómaskreytta gröf Jesúss Krists. Á miðnætti á laugardeginum mætir fólk og fær ljósið (kveikir á kerti), segir hvert við annað að nú sé Kristur upprisinn, fólk tekur kveðjunni með því að segja að það sé nú satt. Þegar Kristur hefur upprisið heldur fólk til síns heima og borðar súpu með görnum og maga páskalambsins. Lamshausinn með heila og öllu on the side. Það var ekki my cup of tea. Ég smakkaði samt eina skeið af magagarnasúpunni. Á páskadag heilgrillar fólk svo páskalambið. En svona á meðan það bíður eftir að lambið grillist gæðir það sér á hjarta, lifur og lungum lambsins vöfnu inn í garnir. Grillað gómsæti. Ekki heldur minn tebolli. En ég náði að kyngja einum bita. En lambið var þrælgott. Allt þar til í þriðja matarboðinu þegar húsmóðirinn og síðan húsfaðirinn otuðu stórum kjötbitum að vitum mínum. Tróðu kjötinu næstum því upp í mig. Ég gat ekki annað en étið. Þá fékk ég nóg. Laumaði síðasta bitanum í hundinn. Kannski synd, ég veit það ekki.
Ég drakk að sjálfsögðu úsó og kælt vín sem heimamenn kalla rauðvín (sötra reyndar svoleiðis akkúrat núna), borðaði mikið af fetaosti, ólífum og olíu. Mikið af góðum mat. Alltaf margir réttir. Steiktur geitaostur (sjúklega gott), baunamauk, djúpsteiktir litlir fiskar, grískt salat, brauð, ólífur, steiktar pylsur, smokkfiskur mmmm kalamari, grillaðar kartöflur. Borðaði sverðfisk. Herramannsmatur. Drakk grískt kaffi eins og ég hefði aldrei gert annað. Þeir sjóða bara saman vatn og kaffi. Bíða svo eftir að kaffið sígi til botns í bollanum. Fyrstu tveir bollarnir svolítið viðbjóðslegir en svo var mér bara farið að finnst þetta gott. Ég er svo gasalega fljót að aðlagast.
Mamma vinkonunnar sendi mig heim með tveggja lítra flösku af guðdómlegri heimagerðri ólífuolíu, krukku af ólífum, heimabakað páskabrauð (sem ég get reyndar ekki borðað af því mér finnst of mikið kindasmjörs bragð af því en ég kunni ekki við að segja nei því ég var búin að gúffa í mig svona brauði sem aðrir bökuðu), vín og úsó. Ég held svei mér þá að ég hafi sparað í fríinu, grætt jafnvel. Og fitnað. Öll spikast upp eins og mín kæra vinkona orðar það svo vel.
Það var gaman að upplifa þetta allt saman.
Myndir: Seinna kannski. Gengur eitthvað hægt að hlaða þeim inn á stolnu nettengingunni.

5 comments:

Fanney said...

En exotiskt! Skakar alveg minum paskum hinum megin a hnettinum. Mer finnst ad Xristina eigi nu ad skella ser a thorrablot i sveitinni thinni. Vonandi ad thad se ekki of helviti heidid fyrir hana.

Anonymous said...

Vá þvílík upplifun, ef ég hefði nú farið á helminginn af þeim stöðum sem þú hefur farið...
Alda

Jóhanna systir said...

þetta hefur verið skemmtileg reynsla sem hefur bæst í sarpinn þinn, hvernig væri að þú skrifaðir svo bók um alla þessa skrítnu staði og matinn :)

disa said...

ja hérna en skemtileg upplifun hjá þér. það er svo gaman að fá að kynnast svona ekta mannlífi og menningu beint í æð. Hugsa að ég hefði líka sleppt garnasúpunni:-)

Anonymous said...

Ja hérna, þvílík upplifun. Þetta er efni í góða ferðabók. Ég held ég láti mér nægja gríska jógúrt. Er einmitt rétt í þessu að gæða mér á æðislegum eftirrétti hjá Dísu með grískri jógúrt og ávöxtum. Það er í raun stórkostlegt hvað matur er stór hluti af menningu landa.
kveðja Áshildur