Tuesday, March 24, 2009

Það er ekki gott að segja

Það var kannski eins gott að ég hafði ekki þegar tekið vorinu opnum örmum. Berað mig í sumarkjól með páskaliljur í hárinu því það gerði haglél í gær. Og það spáir rigningu út vikuna. Amsterdam ó fagra en blauta Amsterdam. En það snjóar allavegana ekki. Og hér er ég ekki talin stórskrítin þó ég fari allra minna ferða á hjóli. Noti stundum almennings samgöngur og labbi jafnvel í meira en tvær mínútur. Heima var ég stelpan á hjólinu. Skrítna konan sem tók rútu landshlutanna á milli. Fór í strætó með hinu þroskahefta fólkinu á verndaða vinnustaðinn minn hjá ríki eða borg. Ég tel það til lífsgæða að þurfa ekki að eiga bíl án þess að vera talin stórfurðuleg. Fá að vera bara eins og hinir á hjólinu mínu. Hjólgarminum mínum sem er ekki einu sinni með gíra. Ef það væri hjólamenning á Íslandi væru ekki bara hjól. Það væru fjallahjól og fansíhjól. Konuhjól og pæjuhjól. 3, 5, 7. 14 og 32 gíra. Fislétt keppnishjól. Fólk ætti hjól fyrir borgina og hjól fyrir sveitina. Á 21 tommu negldum dekkjum fyrir veturinn. Með hraðamæli og púlsmæli. Kannski flyt ég bara heim og fæ mér jaris eða jeppa. Hver veit.


Hjólastæði við Central station Amsterdam

5 comments:

Hrólfur S. said...

Allt er breytt, Gunnhildur mín, allt er breytt. Nú þykir fátt ámátlegra en nýr og dýr bíll.

Hölt og hálfblind said...

Ég er ekki svo viss Hrólfur minn. Íslendingar fíla bíla og flatskjái. Verslunarmiðstöðvar og líkamsræktarstöðvar. Ég er hrædd um að það verði ekki aftur snúið. Þetta sé tímabil sem líði hjá.
En ef þú hefur rétt fyrir þér sem ég vona svo sannarlega þá verð ég allavegana ennþá sú skrítna. Bara konan á nýja jeppanum í staðinn fyrir stelpan á hjólinu.
Ást og kossar til þín elsku kallinn minn.

Anonymous said...

Ekki viss um ad thad vaeri haegt ad vera a giralausu hjoli heima - allar blessudu brekkurnar ... UFF

Hölt og hálfblind said...

Ég var á gíralausu lengi vel :) En jú það er erfitt ef maður þarf að fara út fyrir 101.

Anonymous said...

Oh en gaman að endurnýja kynnin við bloggið þitt - þú ert svo skemmtilegur penni! Datt út úr blogglesningu síðustu mánuðina en kem sterk inn núna :) Knús til Amsterdam frá Vín.
Elín.