Monday, April 14, 2008
Íturvaxin kona, eiturhress og harðdugleg
Unga og íturvaxna konu vantar vinnu og húsnæði á Íslandinu góða í sumar. Viðkomandi getur hugsað sér hvaða starf sem er og hvaða sófa sem er. Hún hyggst vinna myrkranna á milli enda kreppa og í kreppunni vinna konur. Prjóna þess á milli og baka lummur úr grjónagrautnum síðan í gær. Konan hyggst ekki borga neina leigu að ráði en getur vel hugsað sér að hafa auga með flatskjám, jeppum og gasgrillum á meðan fólk skreppur í sumarleyfi til heitu landanna. Hún getur líka vökvað blóm, gengið með hunda og knúsað ketti. Jafnvel litið eftir börnum ef einhver treystir henni í það. Konan er ákaflega dugleg og laghent, hefur tekið á móti lömbum, þjónað forseta vorum til borðs, lamið lyklaborð í gríð og erg með varalit og leyst ótal krísur unga fólksins. Hljómar of gott til að vera satt? Eini gallinn á gjöf Njarðar er að hún á það til að rasa út í áfengisvímu, verða klámfengin og hlusta hátt á rokktónlist, en í kreppunni hefur kona ekki efni á svoleiðis vitleysu. Það er þó möguleiki á að galsi hlaupi í konuna þegar nóttin er björt og að hún skili sér ekki heim fyrr en næsti dagur er að kveldi kominn. Konan telur ekki líklegt að hún muni sletta af slíkum krafti úr klaufum sínum oftar en tvisvar á því tímabili sem um ræðir. Áhugasamir geta haft samband við konu þessa í gegnum internetið og boðið henni gull og græna skóga, viku á sófa sínum eða bent henni á fyrirtæki frænda síns.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
4 comments:
Ég hlakka til.
Hæ. Þetta var frábær færsla. Mikið hlakka ég til að sjá þig á Íslandi í sumar. Hvað áætlarðu að vera lengi á landinu?
Jaha eg hlakka sko lika til. Verd heima i juli og agust.
Hæ. Það er alltaf pláss í sófanum hjá mér ef ekkert skárra býðst. Er svo ekki málið að kíkja inn á heimasíður hjá fyrirtækjum og athuga hvort að það séu laus sumarstörf. t.d ossur.com :-)
Það verður æði að fá þig heim í sumar.
Post a Comment