Sunday, December 30, 2007

Annáll 2007

Jæja jæja kæru vinir þá er þetta góða ár 2007 senn á enda. Ég ætla að gera upp árið. Sem hefur verið sérlega viðburðaríkt og skemmtilegt hjá mér, mikið partý og ég stóð við áramótaheitið um að drekka meira kampavín en ekki við að drekka minni bjór. Drakk bara meira af báðu. Og bætti vodka við.
Hmmm tökum þetta bara í tímaröð.
Árið byrjaði vel.

Janúar og febrúar voru hressir mánuðir. Mikið um djamm og læti. Vann mikið og afrekaði að sækja um í framhaldsnámi á erlendri grundu. Var dugleg að blogga og naut þess að hanga líka svolítið heima með kertaljós á Baldursgötunni. Plön um ferð til Karabíska hafsins tóku hamskiptum og urðu plön um ferð til Manchester og Kraká. Ég fór í matarboð og reyndi að vera sæt með klippingu.


Mars: Ákvað Las Vegas þema fyrir þrítugsafmælið og var orðin rosa spennt. Keypti mér tvö ný skópör í þessum góða mánuði. Og skellti mér svo yfir til Englands. Hitti Rögnu þar í Manchester og fór með henni og Jónínu á Dolly Parton tónleika. Fannst ég geta mætt dauðanum sátt eftir að hafa séð goðið. En nei nei dauðinn beið mín ekkert heldur stórskemmtileg ferð til Kraká í Póllandi. Djöfull er það skemmtileg borg. Góður bjór og góður vodki og mikið stuð.

Já og svo dansaði Dani (gæti líka hafa verið Hollendingur) nakinn á Sirkus á meðan ég og Hrólfur reyndum að drekkja sorgum okkar með bjórdrykkju á sunnudagskvöldi. Það var hressandi lífsreynsla.

Apríl: Besti mánuður ársins, öll ár. Þá á ég afmæli. Og hélt að þessu sinni upp á þrítugsafmælið með Las Vegas partý. Sjitt hvað var gaman. Og ég var svo ánægð með fólk. Allir svo hressir og skemmtilegir. Í Las Vegas dressum og sólgnir í bolluna og hnallþórurnar sem systur mínar og móðir bökuðu. Já mikið var gaman.

Komst seinna í mánuðinum að því að ég er ólétt og á að eiga núna í byrjun janúar. Eða ekki. Komst inn í skóla í Utrecht, Maastricht og tvo í Amsterdam. Já ég ætlaði mér til Hollands.


Í maí slakaði ég á. Slökkti aðeins á heilanum og horfði mikið á Friends. Góð vinkona mín bauð mér á San Fransisco ballettinn. Það var mannbætandi eins og einhver listagagnrýnandinn orðaði það. Kíkti líka aðeins í sauðburð. Það er alltaf mannbætandi. Maður reynir bara að forðast að hugsa um að maður étur litlu greyin nokkrum mánuðum seinna.

Í júni var mesta spennan yfir því að orkídeurnar mínar voru að byrja að blómstra aftur. Börnin mín. Ein þeirra stendur enn. Ég gekk líka Fimmvörðuhálsinn og tók nokkrar svona styttri göngur í sumarblíðunni. Glymur og Esjan.

Í júlí bloggaði ég ekkert og veit því ekkert hvað ég gerði. Minnir að ég hafi aðallega verið í Vesturbæjarlauginni og í Grafarvoginum. Ég þakki guði enn í bænum mínum fyrir þá ljúfu stund er ég sá Óla Stef spila körfubolta í lauginni, mamma mía! Já jú jú svo gekk ég Laugaveginn með systrum mínum. Það var frábært. Gott veður, ákaflega góður félagsskapur og rosa falleg leið. Jeminn eini langar að fara að plana gönguferð fyrir næsta sumar, Langisjór, Hornstrandir, Borgarfjörður eystri.

Í ágúst lét ég svo verða af því að flytja af landi brott. Er ekki búin að vera nema 5 ár á leiðinni. Endaði í Amsterdam. Ég var rosa hress með þessa ákvörðun.

Byrjaði á því að slaka á hjá Hrafnhildi í Utrect og svo skelltum við vinkonurnar okkur til Berlínar. Það var mikið gaman og ég var líka rosa hress með það.

Flutti í lok mánaðarins í herbergið mitt á Weesperstraat. Var nett sjokkeruð í upphafi. Ekkert nýtt og fínt eða gamalt og huggulegt eins og við eigum að venjast hér á skeri. Herbergið mitt lillafjólublátt og sturtan eins og í gettóinu. En ég er með eindæmum jákvæð kona og hóf strax handa við að koma mér vel fyrir. Nú er svo komið að ég er ofboðslega ánægð með húsakostinn. Finnst hressandi að hafa fjólubláann vegg og gettósturtan virkar vel. Ég er tvær mínútur að labba í skólann og þrjár í miðborgina. Búin að kaupa mér blóm og púða. Og svo hef ég svo fínt útsýni.


Í september byrjaði ég svo í skólanum, í rannsóknarmaster í félags og vinnusálfræði við University of Amsterdam. Og skólinn byrjaði sko bara alveg strax. Ég var í nettu stresskasti í upphafi. Rosa mikið að gera og ég ekki alveg sjor á eigin getu. Flestir sem eru í prógramminu með mér hafa verið stöðugt í skóla undanfarin ár. Margir búnir með aðra mastersgráðu og allir rosa klárir. En ég komst nú fljótlega að því að ég er bara ekkert mikið vitlausari en hinir og fell vel í hópinn.

Í október hélt brjálæðið áfam. Nóg að gera bæði í náminu og félagslífinu. Gaman gaman. Og ég hélt áfram að koma mér fyrir í herberginu mínu. Kynntist fullt af góðu fólki, Íslendingum og Hollendingum, Grikkjum, Þjóðverjum, einni stúlku frá Serbíu og annarri frá Indónesíu. Og svo eru það þessar frá Ungverjalandi og USA, þær eru spes. Æh það er svo gaman að kynnast fólki. Sannaði mig í náminu og vann þar að auki alla í keilu og pool. Maður var ekki að vinna með unglingum í öll þessi ár fyrir ekki neitt!


Í byrjun Nóvember komu systur mínar og foreldrar í heimsókn. Það var mikið gaman. Gott að hitta fólkið sitt. Svo hélt stuðið bara áfram og ég var umvafin góðu fólki.


Ég kláraði fyrstu tvo kúrsana með miklum ágætum. Var hæðst í öðrum þeirra (þetta er mitt blogg og ég má alveg grobba mig). Ákvað að gera mína eigin rannsókn um slúður á næstu önn. Jibbícola.

Og svo og svo kom desember. Viðburðaríkur mánuður. Fór til Antwerpen og verslaði jólagjafir. það var stuð. Lærði svo eins og mó fó. Tölfræði tölfræði tölfræði. Gerði ótal verkefni og tók mitt fyrsta próf við skólann. Held ég hafi klúðrað því. En andskotinn hafi það ég hlýt að ná því. Og svo kom maður bara heim. Beint í partý og svo í sveitina. Mikið um knús og kossa frá börnunum. Meira partý. Og svo koma áramót. Á morgun er síðasti dagur ársins sem ég hef nú farið yfir á hundavaði.

Ég vil nú nota tækifærið og þakka þeim sem hafa dröslast í gegnum þessa færslu alla kærlega fyrir allt á þessu ári sem er að líða. Þetta er búið að vera gott ár. Og ég hef átt margar góðar stundir með öllu mússí mússí fólkinu mínu. Takk fyrir allt, rokkið og rólið, súkkulaðið, bjórinn, matinn og vínið. Allan hláturinn, ferðalögin, kaffiþambið og hangsið. Þrítugsafmælin öll. Sundferðir, gönguferðir og sveitaferðir. Heimboð. Kommentin, mér þykir alltaf jafn vænt um þau.
Og svo er bara spurning hvort ég óska fólki góðs nýs árs líka eða bíð með það fram á nýársdag. Ég óska allavegana öllum góðra áramóta, megi stuðið vera með ykkur. Ást og friður.

14 comments:

Anonymous said...

Ég dröslaðist í gegnum þessa færslu og hafði mjög gaman að :-)

Takk fyrir allt og allt og megir þú eiga gott og gæfuríkt komandi ár -- með fullt af góðum matum, ferðalögum, kúrekum og að sjálfsögðu rokki og róli.

Ást.

Anonymous said...

Gleðileg áramót! Það var nú oft gaman hjá okkur á árinu. Ekki síst við Glym og oftsinnis á Baldursgötunni og á Barnum.

Anonymous said...

Vá greinileg skemmtilegt ár að baki hjá þér!!! megi 2008 verða enn betra , SKÁL og gleðilegt ár
Kveðja úr Borgarnesinu

Tinna said...

Komment!
Takk fyrir allg gamalt og gott, Gunnhildur mín og mundu að láta okkur vita hvort þú fékkst 9 eða 10 í tölfræðinni...

Hölt og hálfblind said...

Ég pantaði gott og gleðiríkt ár handa ykkur líka stelpur mínar ;)
Gunnhildur

Anonymous said...

skemmtilegt ár og 2008 verður enn betra. Lýst vel á góða göngu í sumar:-)

Anonymous said...

Gledilegt nytt ar! Sit herna a Schiphol flugvellinum, a leid fra New York til Kenya, og fannst vid haefi ad skrifa ther kvedju thar sem eg er nu i landinu thinu!

Anonymous said...

Hressandi lestur. Mikið rosalega er alltaf gaman að vera þú - hahaha!

Kveðja,
Saga

Anonymous said...

Gleðilegt nýtt ár mín kæra,
óska þér áframhaldandi gleði 2008.
Eg er að fara til islands a sunnudag,held ég sé að springa með þessa spriklandi manneskju inn í mér.
Hanna

Anonymous said...

Takk fyrir hressandi ársbyrjun í heimboði mínu og á barnum! Ég get ekki sagt að ég hafi verið í mesta essinu mínu daginn eftir, var til að mynda sofnuð þegar ég fékk sms-ið frá þér kvöldið eftir, en fékk það engu að síður og var þá búin að glansa allan daginn þótt ég hafi verið í þynnra lagi. En rokkið og rólið lifir og maður getur alltaf sofið síðar. Góð byrjun, á góðu ári! Drekkum góða skál og dönsum saman í sumar.

Hölt og hálfblind said...

Takk fyrir og gleðilegt 2008 dúfurnar mínar

Anonymous said...

ég bíð spennt eftir janúarannálnum

Anonymous said...

brynja

Anonymous said...

Gleðilegt ár skvísa og megi 2008 verða sem skemmtilegast. Og til hamingju með hæðstu einkunnina, þú mátt sko alveg vera stolt af henni. Það hefur nú aldrei verið neinn vafi um hversu klár þú ert gella.

Ég var föst í Amsterdam 23. des (seinkun á fluginu mínu héðan frá USA olli því að ég missti af fluginu mínu frá Amsterdam og varð að bíða í 8 tíma eftir lausu flugsæti til Gautaborgar), hefði verið kjörið að fá sér bjór með þér en vissi að þú værir farin til Íslandsins góða. En Amsterdam er ferlega flott, ég hafði aldrei verið þar áður.

Knús
Inga