Ég hafði talsverðar áhyggjur af því að vera of feit þegar ég var tíu ára. Ég hafði þá einhverja hvolpafitu, enda vel alin af lambakjeti, rjómamjólk og sykruðum pönnukökum. Ég var stuttklippt og gestkomandi héldu iðulega að ég væri strákur þar sem ég hljóp sjálfala um túnin með bumbuna út í loftið, í heimasaumuðum smekkbuxum með hundana á hælunum. Af þessum sökum hugsaði ég í fyrsta og trúlega eina skiptið alvarlega um það að fara í megrun. Megrunin fór út um þúfur sem gerði þó ekkert til þar sem pönnukökurnar fóru allar að fara í lengdina fljótlega eftir tíu ára aldurinn. Fjórtán ára var ég orðin tæpir tveir metrar (180 cm) og tæp fimmtíu kíló með hár niður á mitt bak. Þá hélt enginn að ég væri strákur en guð einn veit hvað fólk hefur haldið um horrengluna síbrosandi með spangirnar og rauðu kinnarnar! Síðan þá hef ég alltaf verið frekar grönn án þess að hafa þurft að hafa mikið fyrir því. Reyni bara að hreyfa mig nóg og sleppa svona einstaka snickersstykki. Ég tek það nú samt fram að ég hef þyngst heilan helling síðan ég var fjórtán ára og kílóin eru nú talsvert nær 100 en 0, alltílagi með það. Bumban mín góða sem ég hafði hvað mestar áhyggjur af um tíu ára aldurinn hefur þó eiginlega alltaf verið til staðar. Þessi bumba hefur oft og tíðum farið ansi mikið í taugarnar á mér. Sérstaklega þegar hún lafir upp yfir buxnastrenginn og þegar fólk spyr mig hvort ég sé ólétt, sem gerðist síðast í gær. Nú velti ég því fyrir mér hvort ekki sé nóg komið af pirring út í bumbuna góðu. Á ég kannski að fara að borða kellogs special k í öll mál í þrjár vikur og mæta þannig bumbulaus á Austurvöllinn í sumar. Ég get líka reynt að gera þrjúhundrum sit ups á hverju kvöldi í mánuð og mætt þannig með þvottabretti í laugarnar. Trúlega ekkert óyfirstíganlegt verkefni. Eða á ég ekki bara að sætta mig við mitt vaxtarlag og (van)kanta. Kaupa mér gallabuxur sem ná upp að brjóstum (sem mér finnst reyndar hroðalega smart) og hætta að ganga í óléttukjólum.
Jahérna hvað ég hlýt að lifa áhyggjulausu lífi ef þetta er mitt helsta áhyggjuefni í dag!
No comments:
Post a Comment