Í gærkvöldi dröslaði ég óhreina þvottinum mínum í strætó upp í Árbæ til að þvo. Þetta er auðvitað bara til marks um það hvað ég er kúltíveruð og mikill heimsborgari. Ég hef nefninlega oft verið í útlöndum og þar tíðkast það að nota bæði almenningssamgöngur og þvottahús. Þvottahúsið mitt er nú reyndar ekki til afnota fyrir almúgann heldur einungis útvalda. Þvottahúsinu mínu fylgir oft og tíðum dýrindis máltíðir, eðalveigar og afbragðs félagsskapur. Ekki hægt að kvarta undan því. Og svo heldur Frikki Wæs að hann sé aðal kallinn með því að opna þvottakaffihús í Köben. Hver þarf Frikka og Köben þegar maður hefur familíuna og Árbæinn!
Þegar ég var að rogast með níþunga töskuna til baka í strætó beið í strætóskýlinu við höfuðstöðvar Vífilfells ungur maður sem spurði mig að því hvort ég væri bara svona í labbitúr í góða veðrinu. Ég upplýsti hann samviskusamlega um það að ég væri nú bara á leiðinni heim með strætó. Hann sagðist þá líka vera að bíða eftir strætó og að það væri afar heppilegt fyrir sig að taka strætó þarna þar sem hann væri að vinna í Vífilfelli. Þar væri fínt að vinna þar sem hann mætti drekka eins mikið af gosi og hann vildi. Hann væri búinn að vera að drekka Magic allan daginn til að halda sér vakandi. Hann bauð mér því næst samviskusamlega sopa af Spriteinu sínu sem ég afþakkaði pent. Hann dúndraði flöskunni þá í götuna og sagðist vera kominn með leið á öllu sem væri framleitt þarna sem væri nú ekki svo lítið. þann daginn höfðu víst verið framleiddar 220 þúsund hálfslíters kókflöskur sem þætti nú bara lítið því að þegar tíðin væri góð væru framleiddar 500 þúsund flöskur á dag. Þetta þóttu mér afar merkilegar upplýsingar. Því næst spurði hann mig hvort ég ætlaði ekkert út að skemmta mér þetta kvöldið! Ég neitaði því en láðist að spyrja hann hvort hann ætlaði á djammið, það væri nú einu sinni miðvikudagur. Og svo kom bara strætó og þessar mjög svo kúltíveruðu samræður runnu út í sandinn. Ætla að fara að gera meira af því að nota almenningssamgangnakerfi Reykjavíkur, það er hressandi.
Já já já í dag á ég sem sagt alveg heilan helling af hreinum nærbuxum og nýjan vin sem getur reddað mér fullt af magic til að halda mér vakandi eftir allt sullið, jeih!
3 comments:
Uuh já já ég átta mig á því að í gær var fimmtudagur en í fyrradag var samt miðvikudagur ef ég hef ekki verið að misskilja röð dagana algjörlega hingað til! Annars voru svo helvíti góðar heimildarmyndir á RÚV í gær sem ég tók framyfir barinn í gærkvöldi.
já fannst þér hún ekki góð, merkilegt fyrirbæri þetta skírlífi..... eða svo er mér sagt
Já skírlífi er merkilegt fyrirbæri en ég mæli nú ekkert sérstaklega með því!
Post a Comment