Thursday, August 13, 2009

Dagur í lífi póstburðarkonu

Ég vakna klukkan 10.00 í hlandspreng. Ég vakna oftast fyrir klukkan 9 þessa dagana í hlandspreng. Ætli þetta sé aldurinn! Gott að geta sofið til 10.00 í dag. Drösla mér á lappir og míg. Skríð aðeins upp í rúm aftur. Fór seint að sofa í gær. Var að þykjast plana næstu vikur og mánuði. Skrifast á við fólk í Hong Kong, skoða flug og hostel og láta mig dreyma um að komast til Víetnam og Kambódíu. En það dugar ekki að liggja í bælinu þó að það sé í miklu uppáhaldi hjá þessari póstburðarkonu. Hendi mér í joggingbuxur og teygðan stuttermabol. Hárið upp í hnút. Gleraugun á nefið. Nenni ekki að vera pæja í dag. Laga mér stekt espressó og smyr mér hrökkbrauð með osti. Sker niður melónu. Kveiki á tölvunni og borða hrökkbrauðið við tölvuna. Hef fengið svar frá prófessornum í Hong Kong. Hún heldur að það taki um mánuð að fá 70 þátttakendur og að það sé góður tími að byrja um miðjan október. Jeih. Hef líka fengið svar varðandi bókun á "lab" hér í Amsterdam. Verð 2-3 vikur í labinu í september. Nenni því ekki en verð víst. Bíð enn eftir svari um hvort ég fái styrk fyrir Hong Kong för. Eins gott að það detti í gegn. Annars er ég í vondum málum. Drekk kaffið mitt á svölunum og fæ mér súkkulaði kex með. Mikilvægt að borða mikinn og góðan morgunverð svo að góður árangur náist við póstútburðinn.
Mér er ekki til setunnar boðið. Ég hendist út og á hjólið mitt. Hjóla í einum spreng á pósthúsið. Ég ber út póst á þrjú svæði 14, 65 og 75. Pósturinn er tilbúinn, sorteraður og kominn í töskur fyrir tvö svæði. Ég þarf að koma aftur að sækja póstinn fyrir þriðja svæðið. Bögg. Ég þarf að labba í u.þ.b. 20 mínútur til og frá pósthúsinu að þeim götum sem ég ber út á. En jú jú því lengur sem það tekur mig að bera út því meira fæ ég borgað. Í dag er auglýsingapóstur sem á að fara í hvert einasta hús. Það þýðir að ég verð helmingi lengur en ella. Bögg. En aftur, lengri tími fleiri evrur meira vörkát. Hugsa jákvætt. Vera hress. Ég arka af stað með vagninn minn. Ég er búin að labba í svona eina og hálfa mínútu þegar ég er stoppuð af vegfaranda. "Sorry mein frau Wibautstraat 156?" Ég: This is Wibautstraat but I don't know the numbers, I think it's that way though" Vegfarandinn horfir á mig eins og ég sé frá Mars. Fólk virðist hafa fulla trú á því að póstburðarfólk þekki hverja einustu götu og hvert húsnúmer í Amsterdam. Ég er stoppuð oft á dag og spurð til vegar. Einu sinni varð kona nú bara bókstaflega reið þegar ég gat ekki vísað henni veginn.
Ég kem að svæði 14. Ég þoli ekki svæði 14. Mikið af mjög vondum póstlúgum. Illa merkt og mikið af tröppum. En jú það gengur vel í dag. Það er gott veður og ég er glöð þrátt fyrir að hafa gleymt að hlaða ipodinn. Ágætt svo sem að vera ekki með tónlist til tilbreytingar. Það stoppar mig fljótlega kona og vill greinilega ræða við mig. Hún er að spá hvort hún gæti fengið vinnu við póstútburð. Hún er greinilega lyfjuð, voteygð mjög og hálf völt eitthvað. En ég segi henni að drífa bara í því að sækja um. Kannski fær hún starfið mitt því að ég tilkynnti yfirmanni mínum að fyrsta vikan í september yrði mín síðasta vika. Strákarnir á Indian Rooti Room eru að setja út stóla og borð. Kallinn neitar að taka við bláum umslögum (ætli það séu ekki rukkanir). Hann er hress og bíður mér upp á drykk. Ég þigg vatnsglas. Held göngu minni áfram. Öðru hvoru er eitthvað fólk að yrða á mig. Verkamennirnir og svona. Veit ekki hvað þeir eru að segja og þykist ekkert heyra. Vantar ipodinn. Svæði 65 er létt og skemmtilegt. Allt vel merkt, gamaldags og góðar póstlúgur. Krúttleg lítil hliðargata í uppáhaldi hjá mér. Margar krúttlegar götur í Amsterdam. klukkan er 15.20 þegar ég er búin með þessi tvö svæði. Svæði 14 tekur alltaf alltof langan tíma. Ég strunsa til baka að sækja póst fyrir svæði 75. Þegar ég kem á pósthúsið finn ég engan póst. Allir farnir og enginn póstur! Jess ég fer heim.
Klukkan er 16.00 þegar ég kem heim. Ég næ að fara í pósthúsið að sækja pakka sem ég á þar. Dríf mig út aftur og á annað pósthús. Í ljós kemur að þetta pósthús er í lítilli hverfisbúð sem ég vissi ekki að væri hérna handan við hornið. Svolítill útálandi fílingur við póstafgreiðsluna í búðinni. Strákarnir finna ekki pakkann minn. Þeir leita lengi en finna ekki neitt. Annar er svolítið sætur svo mér finnst ekkert að því að hanga svolítið þarna með þeim meðan þeir leita. Þeir gefast upp en ég segi þeim að þeir verði að leita aftur. Horfi í brún augu þess sæta og bið hann fallega að leita betur. Þeir finna pakkann. Ég vissi ekki hvað þetta var en í ljós kemur að þetta er póstburðarbúningurinn. Úff! Ég dríf mig heim að máta. Þetta er ekkert smá. Fernar buxur, tvær skyrtur, tveir bolir, regngalli, úlpa, flísjakki, derhúfa, eyrnaband, trefill, grifflur og helvíti góðar lúffur. Ansi hreint fín föt nema hvað einkennislitirnir eru svartur og appelsínugulur. En ég er stolt póstburðarkona og hlakka bara til að mæta í köflóttri skyrtu og merktum stuttbuxum í vinnuna í næstu viku. Verst að hafa varla tækifæri til að nota allar þessar hlýju yfirhafnir áður en ég hætti. Ég verð að fá að skila þessu. Einhver hlýtur að geta notað þetta. Einhver önnur stolt póstburðarkona.
Ég er orðin sársvöng og hita mér upp afgang af blómkálssúpu sem ég á inn í skáp. Fæ mér rósavínsglas með. Þvottavélin er biluð og ég hef trassað það allt of lengi að fara á þvottahúsið. Nú dríf ég mig. Þvæ handklæði og svart. Les Yrsu Sigurðardóttur á meðan. Þegar ég kem heim geri ég magaæfingar, þær fyrstu í sumar og teygi mig. Bý mér til pizzu. Tómatar, gorgonzola og skinka. Skrítin samsetning en virkar. Drekk rósavín með en langar eiginlega bara í kók. Langt síðan ég hef fengið kók. Sker mér melónu í eftirmat. Andskotinn hafi það ég fæ mér líka súkkulaðikex. Sest við tölvuna og svara póstum. Prófessornum í Hong Kong, leigusalanum og fleiri. Skoða myndir á facebook. Hnýsist. Skoða allar veðurspár sem fyrirfinnast á internetinu fyrir Amsterdam. Ætl að fara á ströndina á morgun ef veður leyfir. Ég ætla að reyna að vakna snemma í fyrramálið og drífa mig af stað ef sólin skín. Þarf að vera í Amersfoort um fimm leitið. Ætla að eyða kvöldinu og jafnvel nóttinni þar. Það gengur svo já. Ég byðst velvyrðyngar á y vyllum.

5 comments:

Hrólfur S. said...

Ég dýrka þig.

Unknown said...

Velskrifaður og lifaður kafli í lífi þínu gæska.

Hölt og hálfblind said...

Ég elska ykkur ótrúlega mikið Hrólfur og Fanney. Þið eruð uppáhalds lesendurnir og kommentararnir mínir.

Solrun said...

Thegar eg skemmtilegu pistlana thina tha hugsa eg alltaf "af hverju skrifar hun ekki pistla fyrir einhver stor blod eda timarit"!

lindadogg said...

Já ég er viss um að það myndi svínvikra - dagur í lífi ... Keep up the good work... Knús frá London