Monday, September 10, 2007

Sú neikvæða

Jú vissulega hef ég fínt útsýni úr herberginu mínu. En þá er það svona um það bil upptalið sem er fínt í nýjum heimkynnum mínum! Herbergið mitt er lillafjólublátt, sturtan hefur algjört gettólúkk, það eru hippamálverk á veggjunum í sameiginlega rýminu og bílaumferðin fyrir utan er stöðug og nokkuð hávær. En þetta venst allt frekar vel bara. Ég er ekki frá því að ég sé bara farin að fíla lillafjólublátt, ég get tekið langar, heitar sturtur án nokkurs samviskubits, umferðin ber vitni um stórborgarlífið sem ég fíla frekar vel og hverjum er ekki sama um nokkur blóm og slagorð á veggjunum. Hhhhaa! Ungverska stúlkan sem ég bý með er ekki sama sinnis. Greyið, hún bara vælir og vælir yfir bókstaflega öllu. Hún fær örugglega ekki póst af því nafnið hennar er ekki á póstkassanum, ofninn hennar virkar ekki, gluggarnir eru of skítugir, sófinn í stofunni of ljótur, herbergið hennar og eldhúsið lykta illa, allt er of dýrt í Amsterdam og fólk hér er ókurteist og þjónustan léleg, kennararnir hennar eru leiðinleigir, hinar stelpurnar eru of mikið út af fyrir sig, allt er skítugt og það koma örugglega kakkalakkar út úr veggjunum og nú er það nýjasta að basilíkan hennar er að drepast og það þýðir að sjálfsögðu að það er asbest í veggjunum, loftið er eitrað og við munum trúlega fá krabbamein. Ég er ekki að ýkja. Og hún skilur ekki hvað ég er jákvæð og hress yfir bókstaflega öllu. Hefur sálgreint Íslendinga sem óhemju hamingjusamt fólk upp til hópa. Sem er kannski bara satt, ég þekki allavegana engann sem horfir á lífið með jafn dökkum sólgleraugum í rigningunni (já og að sjálfsögðu er veðrið hér ömurlegt) og hún blessunin. En þrátt fyrir þetta kemur okkur að sjálfsögðu afar vel saman þrátt fyrir að eiga fátt sameiginlegt.
Að allt öðru. Ég held stundum að sá sem að skáldar stjörnuspánna fyrir moggann þekki mig persónulega. Í dag hljómaði stjörnuspáin mín svona: Hrútur: Að vera blankur er ekki hræðilegt, heldur hræðslan við að vera blankur. Minntu þig á að þú leggur þig alltaf allan fram við það sem þú tekur þér fyrir hendur. Hugsanir mínar, nákvæmlega.

No comments: