Sunday, September 30, 2007

I'm in heaven

Hollendingar eru freakishly hávaxin þjóð. Me like.

Wednesday, September 26, 2007

Heilinn minn og froskur

Jæja! Loksins er ég sest með tölvuna í fanginu og ætla mér að blogga eitthvað voða sniðugt. En ég er þurrausin. Ekkert eftir. Heilinn á mér er eins og blaðra sem allt loft hefur smám saman lekið úr síðustu þrjár vikur. Ég er búin hugsa jafnmikið síðan ég byrjaði í skólanum og öll síðastliðin fimm ár held ég. Og heilinn er bara með harðsperrur, þreyttur, búinn á því. Grá hár spretta fram og ég er komin með bakverk og bólur. Kem trúlega bólugrafin og með grásprengt hár heim um jólin. Soldið feit og í verkjalyfjamóki, út af bakinu. En voðalega lærð.
Ég hef nú náð að skemmta mér svolítið líka. Drakk mig fulla í skólanum á föstudaginn. Það var hressandi. Það var lítil ráðstefna hjá rannsóknarmasternum og boðið upp á drykki á eftir. Og ég tók auðvitað Íslendinginn á þetta, svolgraði í mig, talaði mikið og var mjög kaldhæðin og soldið full. En ég var svo sem ekki ein um það, hollendingarnir kunna nú alveg að þamba bjórinn sko. Svo er ég búin að fara nokkrum sinnum eftir skóla með samnemendum mínum að drekka kaffi og/eða bjór. Ágætisfólk upp til hópa en mikið sakna ég samt fólksins míns á skerinu. Enginn eins skemmtilegur og fólkið mitt.
Hey fór út að labba áðan og sá feitan frosk á vappi. Sætur. Svo fann ég þennan líka fína stól sem ég dró heim með mér. Held að gatan verði mín helsta húsgagnaverslun í Amsterdam. Hér hendir fólk húsgögnum sem það vill ekki út á götu og fátækum þrítugum námsmeyjum er velkomið að hirða það sem þeim líst á. Daginn eftir taka ruslakallarnir það sem ég ekki hirði. Sniðugt. Get því vonandi skipt neongrænu plasthúsgögnunum sem mér voru sköffuð út fyrir gamalt drasl sem aðrir ekki vilja. Líst mun betur á það.
Tölvan mín er full og ég þarf að kaupa meira minni. Uppáhaldsgallabuxurnar mínar eru í raun og veru að detta í sundur og mig vantar nýjar. Ég þarf að fara í klippingu og lita gráu hárin. Ætli ég verði ekki að láta tölvuskrattan hafa forgang. Þó það sé nú nokkuð mikilvægt að vera í buxum (svona útivið allavegana) og það sé frekar mikilvægt að vera með gott hár þegar makaleit á sér stað. En heih nú gengur heilinn fyrir. Og sko minn náði bara að skvera sæmilega sniðugum texta fram á nó tæm. Best að leyfa honum að hvílast núna blessuðum. Góða nótt.

Monday, September 24, 2007

Steikt

Sjitt er búin að sitja stjörf við tölvuna í 12 tíma að gera verkefni. Og hef bara ekkert verið að hanga á facebook eða neitt. Held að það sé best að fara bara og sofa í hausinn á mér, detta í bedda, hunskast í háttin! Reyni kannski að blogga á morgun. Lovjall!

Sunday, September 23, 2007

Athyglisvert

White Chalk með Polly Jean Harvey komin í hús. Fyrsta hlustun í gangi.

Wednesday, September 19, 2007

Mjúsikk

Mér liggur ýmislegt á hjarta en ég held ég ætli bara að drífa mig í háttin. Ætla að reyna að vakna nokkru fyrir hádegi á morgun og hefja lestur. Ég ætla þó að tilkynna að ég fann þessa líka fínu plötubúð í nágrenninu í dag. Lítil og kósí og næstum allir diskarnir að mínum smekk. Ég fjárfesti í Release the stars með Rufus Wainwright og lýst bara nokkuð vel á. Svo er von á nýrri plötu með PJ Harvey á næstunni. Mikið er ég spennt að heyra eitthvað nýtt frá henni. Og er ekkert lítið glöð að hún er ekki hætt eins og hún tilkynnti fyrir tveimur árum. Þá var ég í París og Polly hélt tónleika þar, sína síðustu tónleika! Spilaði allt sitt gamla og góða fyrir takmarkaðan fjölda fólks. Og ég fékk ekki miða. Var í dramakasti! En núna fæ ég kannski bara að sjá hana spila á píanó í staðinn fyrir rafmagnsgítarinn. Hmmm. Já og svo var ég að setja hér inn myndband með Siouxsie Sioux. Hún er svöl. Og já það er youtube tímabil hjá mér. Horfið á þetta sem ég hef sett hér inn þetta er allt svo fínt. Sérstakelga Jacque Brel og Gainsbourg. Góða nótt.

Siouxsie and the Banshees - Passenger

Svöl

Tuesday, September 18, 2007

cowboys herding cats

Ég tileinka þetta myndband Sigrúnu systur minni sem eyddi helginni á fjöllum að smala, hún er kúreki. Og Hrafnhildi og Ed ;)

Monday, September 17, 2007

ah

Líkt og ég eyddi síðustu helgi í geðsjúku stresskasti eyddi ég nýliðinni helgi í algjöru kæruleysiskasti. Ég las varla staf og skrifaði of fáa. Drakk hinsvegar marga bjóra og spókaði mig um í sólinni. Hitti íslenskar stelpur sem hér eru í námi og hlustaði á hryllingssögur þeirra af húsnæðismálum. Ég verð sífellt ánægðari og ánægðari með húsnæðið sem mér var skaffað. Held að lillafjólublár sé bara orðinn uppáhaldsliturinn minn. Og hver þarf upphengd klósett, nýjar elhúsinnréttingar, hvíta veggi og kósíheit. Ekki ég allavegana. Ég náði þó að skila einu verkefni af mér í morgun og þarf nú að drífa í nokkrum sem ég þarf að skila í kvöld. Dagurinn í dag er þó kjörinn til inniveru og lærdóms enda mígrignir í Amsterdam. Ég skveraði mér þó út í Albert Heijn áðan og verslaði í matinn. Og ég skal nú bara segja ykkur það að það er bara alveg ógeðslega gaman að versla í matinn í Albert Heijn. Það er svo brjálæðislegt úrval að það er alveg æðislegt og allt svona um það bil helmingi ódýrara en á skerinu. Fyrstu dagana mína hérna fór ég á hverjum einasta degi og eyddi heilu klukkustundunum þar. Lúði. Jæja best að drífa í þessu helvíti. Hvernig skyldu göngur og réttir annars hafa gengið?

Sunday, September 16, 2007

Saturday, September 15, 2007

Thursday, September 13, 2007

Bond og stress

7000 stúdentum vantar nú húsnæði í Amsterdam. 7000. Í byggingunni minni eru íbúðir þar sem 17 manns deila subbulegu eldhúsi og baði. Það eru sérstakir stúdentagámar í úthverfunum, þar búa stúdentar í þartilgerðum gámum. Samnemendur mínir þurfa sumir að hjóla í klukkutíma til að komast í skólann. Ég er svo hamingjusöm með fína lillafjólubláa herbergið mitt í miðborginni. Með eigin vaski og allt! Já maður þarf bara að lækka standardinn aðeins, það er ekki um neitt annað að ræða. Og fröken neikvæð hefur lofað að hætta að kvarta um húsnæðið. En hún finnur sér alltaf eitthvað. Nú kvartar hún sárt yfir því hvað Hollendingar eru stoltir af því að vera umburðarlyndir. Já já. Annars hef ég bondað best við stúlku frá Serbíu sem er með mér í náminu. Hún sérhæfir sig í taugasálfræði og aðferðafræði, er með slétt músagrátt hár niðrá mitt bak, nokkur aukakíló og helsta áhugamál hennar er að lesa vísindaskáldskap. Ég fíla hana vel. Nú og svo er það 21 ársa stúlkan frá Indónesíu, sem talar stöðugt og nær mér upp í mitti. Mér líst líka mjög vel á þá þýsku. Nú og svo er þarna íslenskur drengur að nafni Guðmundur. Rólyndistýpa svona, alvörugefinn og hlédrægur, en er svo bara helvíti fyndinn og skemmtilegur. Sem sagt týpískur Íslendingur. Veit ekki hvað skal segja um þá amerísku. Hún er indæl, talar svolítið mikið. Nú og svo Hollendingarnir, allir voða almennilegir og áhugasamir um þetta íslenska fólk með skrýtnu nöfnin.
Ég hef verið meira og minna úttauguð í stresskasti, ósofin, þambandi kaffi síðan skólinn hófst. Það er alveg ljóst að þetta á eftir að vera mikið álag. Það er lítið um próf í þessu námi en þess stað vikuleg verkefni sem gilda til einkunnar. Sem sagt tveggja ára próftörn. Ég er nú þegar komin með slæma húð, reitt hár og snert af magasári. Og það er bara liðin ein vika. Gaman að þessu.
Missi víst af göngum og réttum þetta árið. Það er verst.

Monday, September 10, 2007

Sú neikvæða

Jú vissulega hef ég fínt útsýni úr herberginu mínu. En þá er það svona um það bil upptalið sem er fínt í nýjum heimkynnum mínum! Herbergið mitt er lillafjólublátt, sturtan hefur algjört gettólúkk, það eru hippamálverk á veggjunum í sameiginlega rýminu og bílaumferðin fyrir utan er stöðug og nokkuð hávær. En þetta venst allt frekar vel bara. Ég er ekki frá því að ég sé bara farin að fíla lillafjólublátt, ég get tekið langar, heitar sturtur án nokkurs samviskubits, umferðin ber vitni um stórborgarlífið sem ég fíla frekar vel og hverjum er ekki sama um nokkur blóm og slagorð á veggjunum. Hhhhaa! Ungverska stúlkan sem ég bý með er ekki sama sinnis. Greyið, hún bara vælir og vælir yfir bókstaflega öllu. Hún fær örugglega ekki póst af því nafnið hennar er ekki á póstkassanum, ofninn hennar virkar ekki, gluggarnir eru of skítugir, sófinn í stofunni of ljótur, herbergið hennar og eldhúsið lykta illa, allt er of dýrt í Amsterdam og fólk hér er ókurteist og þjónustan léleg, kennararnir hennar eru leiðinleigir, hinar stelpurnar eru of mikið út af fyrir sig, allt er skítugt og það koma örugglega kakkalakkar út úr veggjunum og nú er það nýjasta að basilíkan hennar er að drepast og það þýðir að sjálfsögðu að það er asbest í veggjunum, loftið er eitrað og við munum trúlega fá krabbamein. Ég er ekki að ýkja. Og hún skilur ekki hvað ég er jákvæð og hress yfir bókstaflega öllu. Hefur sálgreint Íslendinga sem óhemju hamingjusamt fólk upp til hópa. Sem er kannski bara satt, ég þekki allavegana engann sem horfir á lífið með jafn dökkum sólgleraugum í rigningunni (já og að sjálfsögðu er veðrið hér ömurlegt) og hún blessunin. En þrátt fyrir þetta kemur okkur að sjálfsögðu afar vel saman þrátt fyrir að eiga fátt sameiginlegt.
Að allt öðru. Ég held stundum að sá sem að skáldar stjörnuspánna fyrir moggann þekki mig persónulega. Í dag hljómaði stjörnuspáin mín svona: Hrútur: Að vera blankur er ekki hræðilegt, heldur hræðslan við að vera blankur. Minntu þig á að þú leggur þig alltaf allan fram við það sem þú tekur þér fyrir hendur. Hugsanir mínar, nákvæmlega.

OML!

OML hvað það er mikil vinna að vera í skóla! En gaman enn sem komið er. Eyddi helginni netsambandslaus í stresskasti að lesa fræðigreinar og bíða eftir að ritandinn kæmi yfir mig. Náði þó að kíkja á tvo skemmtilega markaði og skvetta í mig þremur bjórum með þeirri ungversku á laugardagskvöldið. Nú þarf ég að æða í skólann og vinna verkefni sem ég þarf að skila í kveld.
tsjuuus!

Thursday, September 06, 2007

My window


Ég ætlaði að blogga eitthvað skemmtilegt í kvöld en var of upptekin við að lesa "The Eys (and the Ears) Have It: Comparing Emotion Decoding Accuracy Across Expressive Channels" og "A female advantege in the recognition of emotional facial expressions: test of an evolutionary hypothesis" og við að elda tælenskan kjúklingarétt og spjalla við hollensk/súrínamíska sambýliskonu mína. Þess í stað birti ég hér mynd af útsýninu út um gluggann minn og býð ykkur góða nótt.

Tuesday, September 04, 2007

Fyrsti skóladagurinn

Gunnsa litla er byrjuð í skólanum. Mætti í fyrst tímann í dag með nýja stílabók og bleikan blýpenna. Sat svo þögul og hlustaði á alla hina tjá sig. Planið er að segja ekki mikið í fyrstu en koma svo sterk inn í seinni hálfleik, segjum það allavegana! Kennararnir í þessum kúrsi bera nöfn sem engin leið er að bera fram, kona á besta aldri með mikið strípað hár og ungur maður, myndarlegur að sjálfsögðu, í spariskóm og í ljósblárri skyrtu. Vinalegasta fólk svona. Ég á að skila verkefni til þeirra á mánudaginn. Ekkert hangs í gangi. Ég eyddi þó kvöldinu í rauðvínsdrykkju með ungverskri sambýliskonu minni eftir að hafa tekið gott skokk meðfram Amstel (ánni ekki bjórnum). Á morgun fer ég í hinn tímann minn, jaaahá bara tveir tímar á viku, og svo fullt fullt að lesa og skrifa. En mér lýst alveg ofboðslega vel á þetta nám. Þrátt fyrir ræðuna sem einn prófesorinn hélt á kynningarfundi þar sem hann predikaði um sýn djöfulsins á störf rannsóknarfólks í sálfræði. Hann bað fólk vinsamlegast að útiloka allar vonir um peninga og þau þægindi sem þeim fylgja, frægð, barneignir, virðingu og jafnvel gæludýraeign næstu árin. Við værum að feta stíg peningaleysis, ótrúlega mikillar vinnu og skilningsleysis og virðingarleysis annarra á starfið. En svo bætti hann að sjálfsögðu við sýn engilsins á starfið sem fól meðal annars í sér gífurlega ánægju af starfinu, ferðalög og frelsi. Jamm á já já ég er sem sagt í prógrammi sem heitir research master in psychology og ég ætla að taka social psychology sem major fag og trúlega work and organisational sem minor. Bara svona fyrir þá sem það ekki vissu. Ég er víst voða heppin að hafa komist í þetta prógramm því að í því eru víst einungis toppnemendur, noh noh noh! Fólkið sem í framtíðinni á að kenna hinum þessa sálfræðivitleysu og framkvæma rannsóknir á sviðinu. Semsagt sæmilega klárt fólk sem samt er nógu vitlaust að fara ekki í eitthvað sem gefur af sér pénínga!
Svoleiðis er það já.