Thursday, August 24, 2006

Furðufuglar

Ég veit að það bíða allir með öndina í hálsinum eftir ferskum sögum af La bombe sexuelle úr sveitinni. Helst er það að frétta að ég er mjög upptekin við að baka brauðbollur og snúða, ræða við ameríska túrhesta og prjóna. Ég get frætt fólk um það að hér er enn ákaflega fallegt, veðrið er gott og furðufuglarnir eru allir enn á sínum stað. Einn merkilegasti fuglinn á svæðinu er kengboginn hvíthærður kall í gatslitinni lopapeysu sem kallaður er Gummi. Hann keyrir um á illa förnum Massey Ferguson og á þýska konu að nafni Súsanna. Sagt er að hann sé ekki nema rétt rúmlega sextugur en hann lítur út fyrir að vera vel yfir áttrætt. Súsanna er einhversstaðar á milli þrítugs og fertugs. Súsanna er myndarleg og ákveðin kona, hjúkrunarkona að mennt. Þau eiga saman þrjú gullfalleg hvíthærð og bláeig börn. Eitt alveg splúnkunýtt. Faðir hennar kom eitt sinn í heimsókn og gisti hér á gistiheimilinu. Hann er mun reffilegri maður en Gummi og lítur út fyrir að vera svona 15-20 árum yngri en tengdasonurinn.
Já já það er nákvæmlega hérna í þessum firði sem hlutirnir gerast. Áhugafólki um veðurfar og
Borgarfjörð bendi ég á að kíkja hér inn. http://157.157.79.9/home/homeJ.html Þetta er höfnin á Borgarfirði og hafnarhólminn.

Friday, August 18, 2006

In da Borgarfjord

Fólk talar um fátt annað en haustið þessa dagana. Þjáningargretta kemur á andlitið á fólki þegar orðið er borið upp og kvíðinn fyrir löngum vetri leynir sér ekki. Það fór að bera á þessu upp úr miðjum júlí en nú er þetta orðið viðvarandi ástand.
Ég var á göngu með vinkonu um daginn og var að dást að yndislega rauðum berjum á tré, vinkonan gat ekki notið þessa, hún sagði bara ojoj haust. Kennaragreyin sem ég þekki svo mörg eru skriðin aftur til vinnu sinnar og kvíða löngum og erfiðum vetri. Nemendurnir einnig. Fólk virðist kveljast yfir dimmum nóttum og hver rigningardropi er talinn merki um að haustið sé fyrir löngu komið og lífið þessvegna margfallt erfiðara.
Ég hinsvegar kvíði haustinu ekki og vetrinum ekki heldur. Ég fíla veturinn bara nett. Þá fæ ég leyfi hjá sjálfri mér til að hanga ofboðslega mikið heima hjá mér, með kerti og prjónana á lofti. Sofa og sofa í stað þess að rjúka á fætur til þess að njóta langra sumardaga. Glápa endalaust á videomyndir í stað þess að lesa ódauðlegar bókmenntir úti á kaffihúsum. Ég fæ leyfi til að vera svolítið þunglynd. Og takið eftir því að það finnst mér kostur ;)
Ég hef þó ákveðið að slá komu haustsins örlítið á frest. Ég eyddi tveimur yndislega sólríkum sumardögum í Borgarfirðinum mínum í vikunni. Týndi þar berfætt jarðaber í garðinum, sló grasið og las úti í sólinni. Næstu tveimur vikum ætla ég svo að eyða í hinum Borgarfirðinum mínum, þeim eystri. Þar ætla ég að gerast ráðskona í afleysingum. Baka kannski svolítið, búa um rúm og rölta um þorpið í sumarkjól. Ég geri sem sagt ráð fyrir sól og hita næstu vikurnar á austurlandinu.
Ef einhver á leið um Austfirðina hvet ég þann hinn sama til að kíkja í kaffi til mín á Borg. Ég get bent fólki á príðisgönguleiðir og jafnvel skotið skjólshúsi yfir einvhverja.
Jibbí jóh jibbí jeih!

Thursday, August 10, 2006

Ár a alnetinu

Í dag er nákvæmlega ár síðan ég byrjaði að blogga. Ég byrjaði á þessari vitleysu til að stytta mér stundir á Tryggjó. Ég lét um það bil tíu manns hafa slóðina og hugðist aldrei láta koma fram hver stæði á bak við skrifin. Ég ætlaði aldrei að birta mynd af mér og skammaðist mín nett fyrir tiltækið. Nú ári síðar er öldin aldeilis önnur. Nú er ég stoltur bloggari og dæli myndum af sjálfri mér á síðuna. Kannski um of, undanfarið. Of mikið af myndum og of lítið um skrif. Af því tilefni ætla ég að birta hér sykursæta mynd af............ tataraaa jú jú..... mér.
Njótið vel.

Monday, August 07, 2006

Hjákonusyndromið

Við sambýliskonurnar höfum báðar fundið okkur sæta ljúfa menn sem við teljum sérlega heppilega til undaneldis. Þeir eru báðir af arabísku bergi brotnir. Jónína fór alla leið til Ítalíu til að finna sinn brúneygða gæðing en ég leitaði ekki langt yfir skammt og fann minn á bar í miðbæ Reykjavíkur. Þeir eru nú báðir örlítið gallaðir greyin (aðeins of litlir, aðeins of feitir, aðeins fatlaðir á líkama og geði, aðeins of hallærislegir) en það splittar ekki diff. Þeir eru skemmtilegir og það er bókað mál að börnin eiga eftir að verða yndislega brúneygð og bjútífúl og það þykir okkur stöllum afar mikilvægt í þessu máli. Það sem er hinsvegar mikilvægast af öllu er að þessir menn eru ekki lofaðir öðrum konum. En slíkir menn virðast ítrekað elta okkur uppi. Lofaðir eða giftir menn sem virðist þykja sjálfsagt að ungar siðprúðar konur sem sitja heima á kvöldin og prjóna gerist hjákonur þeirra. Þetta hjákonusyndrom er óskiljanlegt, óþolandi og auðvitað algjörlega ósæmandi kvenkostunum mér og Jónínu. Það má deila um það hvor okkar stendur verr að vígi varðandi hjákonusyndromið en það er hinsvegar nokkuð ljóst að Jónína stendur nokkuð betur að vígi varðandi hina nýfundnu barnsfeður okkar. Hennar er rosa hrifinn af henni og keypti handa henni blómakjól og súkkulaði. Hún þekkir hann nokkuð vel og hefur eytt talsverðum tíma með honum. Ég hef hinsvegar einu sinni hitt minn kandídat og ég tók það mjög skýrt fram við hann að ég hefði engan þannig áhuga á honum. Ég efast líka um að hann hafi mikinn þannig áhuga á mér (enda ólofaður maðurinn!). En engu að síður er ég með símanúmerið hans og lofaði að bjóða honum í pizzupartý. Aldrei að vita nema ég geti sannfært hann um barneignir með mér ef pizzan verður nógu djöfulli góð.
Kannski ég bjóði bara hinum morgunhressa og síhjólandi Mr.Zhu líka í pizzupartýið og slái þannig tvær flugur í einu höggi (sjá færslu frá 6.september 2005) .

Mér finnst Steve Buscemi svo svalur að ég gæti svei mér þá hugsað mér að vera hjákonan hans. Og þó.