Thursday, May 28, 2009

The good manners of gossiping: Prohibiting self serving behavior

Ég kláraði masters verkefnið mitt áðan. Jeih. Fagnaði því með því að taka með mér heim döner og kippu af bjór. Hlusta á The Smiths. Taka smá kojara a la Bukowski á þetta. Nema hvað hann hefði líka splæst í viskíflösku. En hann hefði fengið sér döner í tilefni dagsins ég er alveg viss um það. Ég væri nú að öllu jöfnu á barnum að fagna þessu. En ég er eitthvað hálf slöpp. Hor og hausverkur. Og pínu dofin. Það er búið að vera langur prósess að klára þetta verkefni og ég var komin með leið á þessu. En nú er skýrslan tilbúin og ég á bara eftir að halda fyrirlestur um snilldina. Rúlla því upp 29. júní. En nei nei ég er ekki búin. Ég þarf að gera aðra rannsókn. Og jú planið er enn að fara til Hong Kong í haust. Í tvo mánuði. Stefni á útskrift í nóvember. Og svo. Og svo?

Wednesday, May 27, 2009

Pósthús

Ég er að leita mér að vinnu í Amsterdam fyrir sumarið. Leitin hefur ekki gengið vel hingað til. Ég kann ekki hollensku og fólki finnst það vandamál. Vitleysingar. En nú bind ég miklar vonir við að fá vinnu við að bera út póst. Eins og er væri það draumastaðan. Vera bara úti að hjóla með póst og þurfa ekki að tala við neinn. Mig hefur alltaf langað að vinna hjá póstinum eftir að ég las Post Office Bukowskis á mínum yngri árum. Góð bók. Fyrir þá sem ekki vita er bókin um Bukowski sjálfan þegar hann vann hjá póstinum í fjöldamörg ár. Hann hefur engan metnað, drekkur eins og svín og sefur hjá eins og enginn sé morgundagurinn. Alltaf blankur og óhamingjusamur. Ástin í lífi hans er 11 árum eldri ekkja sem drekkur líka eins og svín. Hann hættir loks hjá póstinum og skrifar þessa stórkostlegu sögu og margar fleiri. Verður ódauðlega hetja. Ég sé mig alveg fyrir mér metnaðarlausa og fulla í sumar. Snilldin kemur seinna. Ég hef áður tekið svona metnaðarleysisköst. Þau eru hressandi. Einu sinni réð ég mig til starfa í nærfataverslun í Kringlunni. Þá var minn eini metnaður að vera alltaf í samstæðum nærfötum. Það gekk vel enda tók ég launin mín út í rándýrum lúxussettum. Entist í 3 mánuði. Bakaríið var ógleymanlegt. Við vinkonurnar nýskriðnar úr menntaskóla og höfðum mikinn metnað fyrir því að vera fullar. Mættum á Grand Rokk á mánudagskvöldum með ostaslaufur í poka, staðráðnar í að fá að djamma í miðri viku. Mættum svo þunnar í háskólabakaríið og tístum yfir sætu fastagestunum. Hættum eftir 2 mánuði af því að við þurftum að vera í svo ljótum svuntum og máttum ekki hlusta á útvarpið. Mánuðirnir á Tryggingastofnun eru líka sérlega eftirminnilegir. Ég get enn þann dag í dag ekki almennilega útskýrt hvert hlutverk mitt var. Þetta var bara svona skrifstofuvinna. Ég sat á bás með græna skilrúmsveggi í kringum mig og vann svona eitthvað í tölvunni. Svaraði stundum í símann. Oftast var ég búin að öllum mínum verkefnum fyrir hádegi en ríkisstarfsmanninum bar að sitja við borðið sitt í 8 tíma á dag. Stimpla sig inn og út. Þá byrjaði ég að blogga. Og borðaði skyndibitamat á Hlemmi. Góðir tímar. Ég er bara farin að hlakka til að vinna eftir þessa upprifjun. Vinnan göfgar manninn já já.

Tuesday, May 26, 2009

Massi

Ég er hrædd um að ég hafi týnt mojoinu mínu. Ég get ekki skrifað sniðugt. Heilinn minn hefur algerlega slappast niður. Heilamassinn horfinn. En líkaminn er all svakalega massaður. Ef ég ætti pening færi ég og keypt mér nýjan jakka. En ég verð bara í ermalausu í sumar.

Monday, May 25, 2009

Einn tveir og hugsa.

Það teygðist á hugsana fríinu. Það er samt planið að byrja aftur að hugsa á morgun. Enda orðin heltönuð og massamössuð. Orðin ljóshærð af allri útiverunni og eyeliner línan orðin ískyggilega þykk og nær næstum aftur að eyrum. Ég er farin að þekkja alla í Grey's Anatomy með nafni og veit upp á hár hver hefur sofið hvenær hjá hverjum. Þetta lið er allt saman farið að fara í taugarnar á mér. Vælandi vinnualkar með brókarsótt upp til hópa. Á morgun á að byrja að rigna og ég ætla að hanga allan daginn í tölvuverinu og hugsa og skrifa. Ætla nú að lesa Tolstoy fyrir háttin. Hripa kannski niður eina ferskeytlu fyrst.

Saturday, May 23, 2009

Kaffipásan er búin.

Þetta kemur stundum yfir mig. Andleysið. Ég les varla bók þessa dagana. Horfi bara á Grey's Anatomy og fer í sólbað. Lyfti lóðum. Er aðeins að hvíla heilann. En ég held að hann sé orðinn úthvíldur núna, þessi elska.

Thursday, May 14, 2009

Friday, May 08, 2009

Oh ég sakna Dressmann auglýsinganna svo sjúklega.

URSUS ROTER - THE SURPRISE FROM ICELAND

Í Grikklandi drekka menn Úrsus roter vodka, the surprise from Iceland. Allir halda að vodkinn sé ekta íslenskur. Að partýið sé nonstop á Íslandi og allir drekki Úrsus. Vodkinn er í raun framleiddur í Skotlandi þó að á flöskunni standi að hann sé framleiddur úr "sloe berries" eftir íslenskri fjölskylduuppskrift.
Ég drakk nú þennan rauða mjöð heilt kvöld til að sýna það og sanna fyrir liðinu að Íslendingar kunna sko að drekka og djamma þó að við höfum aldrei heyrt um Úrsus. Ja nema auðvitað Hjalta Úrsus. Mjöðurinn smakkaðist ágætlega og ég var í góðu stuði.

Tuesday, May 05, 2009

Desireless - Voyage Voyage

Ég get ekki póstað Röyksopp vídeóinu með Karin úr The Knife en ég mæli með að fólk skelli sér bara inn á Youtube og kíki á það. What else is there? Æði sæðislegt. En þetta er líka fínt, eðal franskt eitís popp. Líka sæðislegt.

Friday, May 01, 2009

Appelsínugult teknó

Þjóðhátíðardagur Hollendinga var í gær, drottningardagurinn. Það er merkilegur dagur, mjög merkilegur. Og skemmtilegur. Amsterdam breytist á einum degi í eitt allsherjar appelsínugult teknóreif. Allir glaðir, allir fullir, allir í miðborg Amsterdam. Það var bongóblíða og ég var líka glöð. Brjálæðingurinn þarna í Apeldoorn náði ekki að spilla gleði minni þar sem ég frétti ekki af þessu fyrr en eftir að heim var komið. Dagurinn byrjar á því að fólk fer út á göturnar og selur dótið sitt. Allskyns skran, föt og drasl. Mestu pæjurnar mæta snemma og versla eins og vindurinn. Ég er ekki ein af þeim og fór ekki út fyrr en á hádeg. En markaðsstemmningin er fram eftir degi og ég náði að kaupa mér rosa fína tösku á eina evru. Seinnipartinn hélt ég svo ásamt fjöldanum niður í miðbæ. Mesta fjörið er meðfram sýkjunum sem eru troðfull af bátum. Bátarnir eru svo troðfullir af fullu appelsínugulu fólki. Og allir spila teknó og dansa og eru glaðir. Teknóinu er blastað úr massívum græjum á bátunum. Fólkið sem býr við sýkin er svo margt með partý fyrir utan hjá sér. Spilar tónlist og selur drykki. Barir eru líka með partý fyrir utan hjá sér. Það er eitthvað magnað við þennan dag. Almenn gleði og geðveiki. Mæli með því að fólk leggi leið sína til Amsterdam einhverntíman 30.apríl. En maður þarf auðvitað að vera svolítið fullur og hress til að meika allt þetta appelsínugula, allt teknóið, allan bjórinn, allt fólkið. Teknó teknó teknó.