Ég hef eitthvað verið að velta típunni mér fyrir mér undanfarið. Átta mig ekki alveg á henni. Finnst eins og ég sé eitthvað frekar klofin og tvískipt típa. Ég átta mig til að mynda ekki á því hvort ég er lífsglöð og jákvæð típa eða frekar þunglynd og neikvæð. Mér finnst ákaflega gaman að lifa og elska lífið. Tími yfirleitt ekki að fara að sofa á kvöldin því mér finnst svo gaman og tími ekki að eyða tímanum í svefn. Á Morgnana hata ég yfirleitt lífið. Langar bara að sofa endalaust. Ég elska reyndar að sofa. Svefn er yndislegt fyrirbæri. Ég elska að sofa.
Ég átta mig heldur ekki á því hvort ég sé kærulausa og hirðulausa típan eða samviskusama konan sem klikkar ekki á hlutunum. Ég er frekar kærulaus ok en ég er líka mjög samviskussöm. Í vinnu til dæmis er ég mjög samviskusöm en á sama tíma frekar kærulaus. Djísús þetta er snúið. Í skóla hef ég alltaf verið mjög samviskusöm og staðið mig mjög vel. En á sama tíma mætt frekar illa og djammað djöfulli mikið. Einu man ég alltaf eftir. Ég var einhverntíman að þvo hvítu handklæðin mín og þá hafði slæðst með rauðar nærbuxur eða eitthvað þannig að handklæðin urðu öll bleik. Vinkona mín var hjá mér þegar ég var að taka úr vélinni og sagði að þetta væri nú alveg dæmigert fyrir mig og mitt kæruleysi. Á þessu varð ég mjög hissa og er enn því að þetta er í eina skiptið á ævinni sem mér hefur tekist að lita þvott á þennan hátt (og ég er nú búin að þvo af mér sjálf í ansi mörg ár skal ég segja ykkur) Hmmmm já þetta er snúið!
Ég veit heldur ekki hvort ég er típan sem aðhyllist og lifir heilbrigðum lífstíl eða típan sem sukkar og aðhyllist svínarí. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á heilsunni. Bæði andlegu og líkamlegu. Hef alltaf hugsað um það hvað ég læt ofan í mig og reyni að stunda útiveru og hreyfa mig reglulega. Hef aldrei reykt og eiturlyf forðast ég eins og heitan eldinn. Á sama tíma er ég einn mesti djammbolti og drykkjusvín sem ég þekki. Verð blindfull og geri skandala eins og mér sé borgað fyrir það. Verð svo sjúklega þunglynd í þynnkunni, borða viðbjóð og er nákvæmlega sama um eigin heilsu. Borða reyndar oft viðbjóð. Er til dæmis að gúffa í mig núna ristuðu brauði með crunchy hnetusmjöri og súkkulaði og skola því niður með kóki, uhhmmmm það besta sem ég fæ. En ég er búin að fara út að labba í dag og borðaði mjög hollan morgunmat.
Ég veit ekki hvort ég er jarðbundna fræðilega sálfræðitípan eða jógaiðkandi, stjörnuspálesandi andlega típan. Ég get ekki trúað á Guð því ég hef ekkert í höndunum sem sýnir mér að hann sé til, mér finnst trúarbögð þó afar spennandi og eitthvað hlýtur það að vera sem fær mannin til að iðka þau og trúa. Allt svona hottintott eins og tal um drauga og aðra heima og þriðja augað finnst mér kjaftæði. Á sama tíma er eitthvað voða heillandi við þetta, ég les stjörnuspánna mína á hverjum degi og hef farið á mörg jóganámskeið.
Ég veit heldur ekki hvort ég er heimakæra innhverfa handavinnukonan eða félagsveran á útopnu. Ég elska að vera heima hjá mér og hafa það huggulegt með prjónana, góðan mat og videóspólu. Ég fríka út ef ég sé ekki fram á að geta eitt tíma heima hjá mér í rólegheitunum á næstunni. Þoli ekki að hafa öll kvöld vikunnar plönuð í eitthvað útstáelsi. Ég er þó yfirleitt ekki í rónni fyrr en ég kemst eitthvað út að sýna mig og sjá aðra. Fara eitthvað, gera eitthvað, hitta einhvern.
Að sama skapi veit ég ekki hvort ég þrái að eignast mann, börn og heimili eða að vera áfram ein og frjáls. Mig langar auðvitað í mann, ég viðurkenni það en tilhugsunin um skuldbindinguna hræðir mig líka svakalega. Mig langar að geta ferðast meira, búið í útlöndum, djammað, menntað mig og bara gert það sem mig dettur í hug. Get ég það með lúða mér við hlið, það er stóra spurningin (eða nei það er nú svo sem ekkert mjög stór spurning þar sem annar kosturinn er bara í boði þessa stundina og varla neitt útlit fyrir að það eigi eftir að breytast á næstunni!).
Og til að toppa þetta þá veit ég alls ekki hvernig á að lýsa típunni í útliti. Er ég há og grönn, með stutt dökkt slétt hár, frekar dökka húð og brún augu eða er ég meðalmanneskja á hæð, frekar þrýstin, með sítt rautt liðað hár, ljósa húð og freknur og græn augu?
Er nema von að ég átti mig ekki á típunni? Ég veit þó að típan elskar að lifa þó ég sé stundum svolítið þunglynd, elskar að borða, elskar að sofa, og vera heima hjá mér. Elskar tónlist, bækur og bíó. Elskar fjölskylduna mína og vinina. Vill láta gott af mér leiða í þessu lífi. Veit að peningar eru til að eyða þeim. Elskar að hlæja og hafa gaman. Ég vil vera góð við fólk og að öðrum líði vel. Mér finnst gaman að kynnast allskonar ólíku fólki þó að ég sé kannski sein til þess að hleypa fólki að mér.
Ég er víst bara eins og ég er.
Með kærri kveðju
Persónulegi bloggarinn
7 comments:
thu gengur hinn gullna medalveg og ert margt i morgu
hljomar soldid eins og stjornuspa
mmmmm premature middle life crises... unadslegt fyrirbaeri.
Kannski faerdu naest Gráa fidringinn... THÁ verdur sko gaman ad lesa bloggid thitt.
Ég segi bara eins og hofudbeinaspjaldshryggs therapistinn minn, thú ert bara sù týpa sem thú nennir ad vera hverju sinni. Bara stressvaldandi ad reyna ad skilgreina sjàlfa sig. Ást og fridur
Ég segi nú bara eins og hinir behaviouristarnir: "Þú ert það sem þú gerir, ekki það segist vera eða hugsar að þú sért".
Confusion i gangi í hausnum á þér, en er eitthvað eftirsóknar vert að vera bara ein týpa og voða fyrirsjáanleg?
Ég greini þetta sem decision angist!
Þú ert bara rosalega dreifður talent eins og Rósa Ingólfs;-)
Post a Comment