Monday, January 25, 2010

Metnaðurinn

Stuttu eftir stúdentspróf fékk ég vinnu í nærfataverslun. Þá setti ég markið hátt og einsetti mér að vera ávallt í samstæðum nærfötum. Það gekk vel í þessa 3 mánuði sem ég entist í búðinni enda tók ég kaupið mitt að mestu út í dýrindis nærfatasettum. Nú tveimur háskólagráðum síðar hef ég fengið vinnu á leikskóla og set nú markið enn hærra. Ég hef einsett mér að vera alltaf í samstæðum sokkum OG ég hef einnig sett mér það markmið að nota meiri eyliner, oftar.

Friday, January 22, 2010

Ég vil nú samt ekki kvarta!

Ég veit ekki hvað gerðist. Ég var svalur lífskúnstner og alheimsborgari fyrir svo stuttu síðan. Ég mældi götur milljónaborgar í Asíu. Borðaði núðlur, hrísgrjón og sushi með prjónum og drakk rauðar baunir með kókosmjólk og mangósafa með. Ég dáðist að litskrúðugum fiðrildum og drakk kaffið mitt undir pálmatrjám. Ég ferðaðist neðanjarðar með fjöldanum og gekk loftgöng. Ég vann að rannsókn í mikils metnum háskóla. Þar áður lærði ég við annan mikils metinn háskóla og hjólaði slök um stræti á meginlandi Evrópu. Ég sat á terrössum við canala og sötraði öl og vín. Keypti ávexti og blóm á markaðinum og borðaði ost og döðlur í garðinum. Nú bý ég í barnaherbergi, vinn á leikskóla og tala um börn og barneignir við vini og fjölskyldu. Ég bý í Vesturbænum og nenni ekki einu sinni niður í bæ. Ég er of þreytt eftir vinnuna og tími hvort sem er ekki að kaupa mér rauðvín á barnum. Kannski flyt ég bara aftur til útlanda. En ég gef þessu nú sjéns. Hér hefur maður alltaf þraukað og vel það. Ég þarf kannski bara að yngja aðeins upp í vinahópnum, finna mér húsnæði niður í bæ og banna barna samræður utan vinnu. Þá verður þetta kannski bara fínt, stórfínt.

Wednesday, January 06, 2010

Hressleikinn lætur eitthvað standa á sér. Og skrifin. Þetta kemur kannski. Vonandi.